09.05.1941
Neðri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

19. mál, óskilgetin börn

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Þegar þetta frv. var undirbúið á sínum tíma, þá var tekið til athugunar; hvort unnt mundi vera að koma því við, sem lagt er til frá meiri hl. n., að greiða verðlagsuppbót á meðlög. Það var, eins og grg. ber með sér, talið nokkrum vandkvæðum bundið að koma því við, þó að ekki væri hægt að mæla því í gegn, að það sé hin eðlilegasta uppbót á tímum hækkandi verðlags, sem eigi að framkvæma á þessar tekjur til framfærslu eins og aðrar. En þá er það í sjálfu sér líka athugandi, hvort grundvöllurinn sjálfur, sem byggt er á, sé samræmur innbyrðis, og hvort það kæmi þar af leiðandi réttlátlega niður að hækka eftir ákveðinni vísitölu um land allt. Nú var það svo, að þegar meðlög voru ákveðin s. l. sumar, þá var gerð nokkur breyt. á þeim víða um landið og hækkuð talsvert, miðað við þá dýrtíð, sem þá var orðin. En misjöfn var hækkunin eftir því, sem talið var, að framfærslukostnaður væri í einstökum sýslum og héruðum landsins. Ég álít þó, að meðalhækkunin á barnsmeðlögum s. l. sumar hafi verið um 17%. Var ákveðið, að þessi uppbót væri 17%, nema í Reykjavík og nokkrum öðrum stöðum; þar sem hún er dálítið hærri, eða 20%. Nú mætti segja, ef þessi brtt. væri samþ., að hún kæmi ofan á þann grunntaxta, sem ákveðinn hefur verið vegna aukinnar dýrtíðar, sem þá var orðin í landinu. Ef till. verður samþ., sem í sjálfu sér er vel hugsuð og réttmæt, vildi ég fyrir mitt leyti stuðla að því, ef ég hef þá með þessi mál að gera, að þegar grunntaxti meðlaganna verður næst ákveðinn, yrði tekið tillit til þess, hvaða grunntaxti væri sanngjarn í hlutfalli við dýrtíðina. Mætti þá vel svo fara, að grunntaxti meðlaganna yrði lækkaður frá því, sem nú er, til þess að fá eðlilega dýrtíðaruppbót á hann yfirleitt. Með þessu móti mætti koma hér á fullu samræmi, ef dýrtíðaruppbótin yrði sett á þann grunntaxta, sem var ákveðinn síðast með hliðsjón af dýrtíðinni í landinu. Á þennan hátt fengist réttlát framkvæmd þessara mála.

Hvað snertir síðari brtt., um að fella niður heimild um ógildingu á þessu ákvæði með tilskipun, þá hef ég ekki neitt við hana að athuga með þeirri sömu röksemd og hv. frsm. tók fram, að auðvelt sé að fella l. úr gildi, þegar verðlagið kynni að vera komið í fast horf og ekki lengur þörf fyrir þessi lagafyrirmæli. Mun þá verða eðlilegra að ákveða meðlögin fyrir lengra tímabil en gert er ráð fyrir í frv.