09.05.1941
Neðri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

19. mál, óskilgetin börn

Gísli Sveinsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál, en það, sem gaf mér tilefni til að kveðja mér hljóðs, er hin einkennilega afgreiðsla þess frá meiri hl. allshn. Ég tel, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé í alla staði fullnægjandi til að ná því takmarki, sem ráðuneytið vildi ná, að ákveða meðalmeðlög með tilliti til vaxandi dýrtíðar og ástandsins yfirleitt í landinu, — sem það að vísu tók heimild til síðastl. ár. Eins og kunnugt er, er það ákvæði í gildandi l., að ákvarða skuli meðalmeðlög með óskilgetnum börnum fyrir 3 ár í senn, þ. e. a. s. þau meðlög, sem sveitarfélögin eiga að greiða, ef þau verða eigi greidd af barnsföðurnum. Á þriggja ára fresti gera sýslunefndir og bæjarstjórnir till. um þessi meðalmeðlög, en í framkvæmdinni áskilur ráðuneytið sér rétt til að ákvarða, hvaða upphæðir skuli gilda, og oftast hafa það orðið þær upphæðir, sem sýslufélögin og bæjarstjórnirnar lögðu til. Að vísu hefur þess gætt nokkuð upp á síðkastið, að ráðuneytið hefur vikið dálítið frá þessari reglu, en röskun á þeim grundvallartill. hefur ekki átt sér stað áratug eftir áratug. Ég tel, að full ástæða hafi verið fyrir því, að á síðasta þingi var sá háttur upp tekinn að víkja nokkuð frá þessari lagareglu og ákveða meðlögin fyrir eitt ár í senn, með tilliti til hækkandi verðlags og aukins kostnaðar. Þess ber að geta, að í till. sýslunefnda var þá gert ráð fyrir hækkuðum meðalmeðlögum, svo að ekki var um það að tala, að ráðuneytið gripi fram fyrir hendur þeirra. En ráðuneytinu þótti ekki nógu langt farið í hækkunina og vildi sérstaklega halda opinni leið til þess að geta ákvarðað meðlögin á hverju ári, og þess vegna er þetta frv. fram komið. Ég tel, að eins og frv. var úr garði gert, sé það eðlilegt og eigi fullan rétt á sér. 1. gr. frv. er um það, að ráðuneytið megi ákvarða og úrskurða um þessi meðalmeðlög eftir till. bæjarstjórna og sýslunefnda. 2. gr. er á þá leið, að þegar ekki þyki lengur þörf fyrir hendi, þá megi aftur eftir réttum grundvallarl. ákveða meðlögin til þriggja ára í senn, og báðar gr. hafa mikið til síns máls. Nú virðist svo, sem hv. allshn. hafi ekki skilið gang þessara mála og ekki vitað, hvað um var að ræða, hvorki í lögunum eða framkvæmd þeirra. Furðar mig mjög á því, þar sem formaður n. og frsm. þessa máls, hv. þm. Barð., ætti að vera þessum málum kunnugur, bæði grundvallarlögunum og ekki sízt framkvæmdinni. Ef brtt. allshn. verða samþ., getur það dregið þungan dilk á eftir sér, enda hefur n. ekki tekið tillit til þess, að með till. sínum hefur hún ekki gert tilraun til bóta, heldur hefur hún farið inn á þá braut að .gera framkvæmdina náestum því ókleifa. Eins og hv. 7. landsk. tók fram og hæstv. félmrh., að mér skildist, er í framkvæmdinni svo að segja ógerlegt að innheimta barnsmeðlög milli héraða, og getur tekið geysilangan tíma, jafnvel nokkur ár. Ég býst við, að hv. þm. Barð. sé kunnugt um þessa hlið málsins sem bæjarfógeta í Hafnarfirði. Ef nú ætti að innheimta meðlög með verðlagsuppbót, sem mundi vera undirorpin sífelldum breyt., mundu erfiðleikarnir við innheimtuna enn vaxa að miklum mun. Var hreinasti óþarfi, eins og sýnt hefur verið fram á hér með ljósum rökum, að koma með brtt. við frv. Með því að ákveða meðlögin fyrir eitt ár í senn var hægt að láta þau fylgja dýrtíðinni eigi að síður, svo að þessar brtt. virðast ekki vera til annars en að gera framkvæmdina torveldari, enda er u þær á ger samlega röngum grundvelli byggðar. Þess vegna hefði ég kosið, að allshn. tæki aftur sínar brtt., að fengnum upplýsingum frá fróðum þm. Ef hins vegar ekki næst samkomulag um að kippa burt þessari óþörfu og vafasömu breyt., þá verð ég að greiða atkv. móti brtt., þó að ég sé fylgjandi efni málsins að öðru leyti um hækkun meðlaganna, eins og hún kom fram í frv. ríkisstj.