09.05.1941
Neðri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

19. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Ég hef fulla ástæðu til að þakka kollega mínum, hv. þm. V.-Sk., fyrir þá kennslu, sem hann veitti okkur í lögum. Hlustaði ég á hann með eftirtekt, þó að hann hins vegar segði ýmislegt, sem má telja vafasamt í þessu sambandi, en hér er ekki ástæða til að fara að deila almennt um þekkingu embættismanna á þeim störfum, sem þeir hafa með höndum, og ætla ég því að leiða það hjá mér. En ég vil benda honum á það, að ég er hræddur um, að hann hafi ekki séð vel brtt. n. við 1. gr., á þskj. 401, þar sem talað er um, að greiða skuli verðlagsuppbót á meðalmeðlög, sem hafa verið samkv. l. þessum. M. ö. o., þessi brtt., ef að l. verður, haggar að engu leyti þeirri reglu, sem nú er í l., að úrskurða skuli samkv. þeirri skipan, sem viðkomandi ráðherra hefur gert, hvort sem það er á þriggja ára eða eins árs fresti.

Mér þætti gaman að vita, hvaðan hv. þm. V.Sk. hefur þá vizku, að úrskurður sá, sem ráðh. fellir á þriggja ára fresti, sé í samræmi við það, sem lagt er til af einstökum sýslunefndum og bæjarstjórnum. Ég efast mjög um, að svo sé, og veit það raunar með vissu, að það hefur einmitt í ráðuneytinu verið reynt að samrýma þetta og ekki fara eftir till. einstakra sýslufél. og bæjarstjórna, sem ráðh. er ekki heldur bundinn við, heldur er það ráðh., sem ákveður þetta, að fengnum till. sýslunefnda og bæjarstjórna.

Ég get ekki séð, að ræða hv. þm. V.-Sk., sem hann mun hafa. ætlazt til, að yrði tekin sem fræðilegar upplýsingar í málinu, hafi að neinu leyti haggað staðreyndum.

Hv. þm. segir, að félmrh. hafi flúið frá sínum eigin till. En n. leggur til, að hans till. verði samþ., og hæstv. félmrh. hefur lýst yfir ánægju sinni yfir því. En það er nýtt atriði hjá n., hvort eigi að láta barnsmæður njóta sama réttar og flestir þegnar þjóðfélagsins njóta nú, eða hvort eigi að láta þetta fara eftir því, sem þessi eða hinn ráðh. vill í það og það skiptið.