10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

19. mál, óskilgetin börn

Garðar Þorsteinsson:

Það er út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði í gær, að honum virtist ég vera með einhvern sýtingsskap, af því að verðlagsuppbótin á þessa hækkun gilti ekki til 1. ágúst. En þetta er bara misskilningur. Hann

hristir höfuðið. En ég endurtek, að þetta er misskilningur, af þeirri einföldu ástæðu, að hv. þm. hefur enga sönnun fyrir því, að sú hækkun, sem varð vegna dýrtíðar, þegar meðalmeðlag var síðast ákveðið með 20% hækkun, verði aftur felld niður. Í Reykjavík var hækkunin ákveðin 6. sept. s. l. úr 500 kr. í 600 kr., og svo á að greiða dýrtíðaruppbót á 600 kr. Hvaða sönnun hefur hann fyrir, að lækkað verði aftur úr 600 kr. í 500 kr.? Ekki neina. Væri þá ekki eins gott að slá því föstu að greiða dýrtíðaruppbót á gamla meðlagið? Og þá er óþarfi að úrskurða um þetta einu sinni á ári, ef meðalmeðlagið á að vera tiltölulega eins og áður en dýrtíðin kom til.

Ég hef meiri hl. n. grunaðan um það, að hann ætlist til þess, að fyrst úrskurði ráðuneytið hækkun meðalmeðlagsins vegna dýrtíðar, og svo komi dýrtíðaruppbót á allt saman. Að öðrum kosti er ómögulegt að skilja, hvers vegna þeir vildu fá úrskurð einu sinni á ári. Því að ef dýrtíðin á ekki að koma til greina við upprunalegan úrskurð ráðuneytisins, þá verður meðalmeðlagið frá ráðuneytisins hendi alltaf það sama. Þess vegna er frá mínum bæjardyrum séð um tvennt að ræða : Að hafa meðalmeðlagið eins og það áður var, eða úrskurða einu sinni á ári hækkun í samræmi við vaxandi dýrtíð.