10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

19. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Það er engin ástæða til að eltast við þessar ræður þessara hv. þm., sízt af öllu ræðu hv. þm. V.-Sk., eins og hún er löguð. Hann virðist ekki telja sig meiri mann en svo, að hann fer til ólöglærðs framfærslufulltrúa í Reykjavík til að leita upplýsinga í þessu máli. Hann sagði, að það væri erfitt að vita, hvað ætti að hækka samkv. vísitölu. Ég skil ekki annað en að þetta gildi jafnt á öllum sviðum, þar sem á að hækka eftir vísitölu. Ég skil ekki, að það sé vandi fyrir oddvita í hreppi, oddvita sýslunefndar, bæjarstjóra eða borgarstjóra, að fá það upplýst beina leið. Og hv. þm. veit vel, að ákveðið hefur verið, að við og aðrir í okkar stétt greiddum verðlagsuppbót á laun þeirra starfsmanna, sem hjá okkur vinna, eftir vísitölu. Við fáum bara að vita þetta frá stjórnarráðinu.

Annars er þessi breyt. á frv. eingöngu sú, að ráðh. ákvarðar meðalmeðlagið árlega, í stað þess að gera það á 3 ára fresti. Þetta mátti gera án þess að nokkur styrjöld væri eða sérstök verðbólga eða dýrtíð. Þetta er bara almennt löggjafaratriði. En brtt. á að tryggja það, að þessar greiðslur, eins og aðrar framfærslugreiðslur í þjóðfélaginu, séu í samræmi við þá almennu vísitölu.

Ég ætla svo að lokum aðeins að minnast á þá yfirlýsingu, sem hæstv. félmrh. gaf í gær, að hann teldi sér skylt, ef þetta verður að l. eins og það liggur fyrir, að taka tillit til þess ákvæðis, sem fólgið er í fyrri brtt. n. Og það ætti að vera nægilegt svar gagnvart þessum hv. þm. Það er auðséð, að hv. 7: landsk. fer vísvitandi eða óviljandi rangt með mín orð. Ég benti á, að hann hefði talað um, að meðlögin hefðu verið hækkuð í fyrra sem svaraði ákveðinni prósenttölu; og ég sagði, að vegna þess að þetta hefði verið gert án þess að miðað væri við vísitölu, þá væri fyrir þá menn, sem væru á móti vísitölunni, eingöngu um að ræða upphæðina á tímabilinu frá 1. jan. til 1. ág., en þá er ætlazt til, að ný auglýsing komi.

Ég skora því á hv. d. að taka undir þá ósk, sem hér er komin fram um það að tryggja með l., að framfærslueyrir með börnum sé hækkaður á þann hátt, sem löggjöfin hefur lagt til grundvallar við flestar greiðslur mönnum til framfærslu. Það bætir ekkert úr skák, þótt beitt hafi verið ranglæti gagnvart einhverjum öðrum aðilum í þessu máli.