14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

19. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Bergur Jónsson):

Við 2. umr. þessa máls var felld brtt. frá allshn., þar sem gert var ráð fyrir, að uppbót verði greidd samkv. verðvísitölu frá 1. jan. síðastl. Nú hefur allshn. borið fram aðra brtt. um ákvörðun meðalmeðlaga í framtíðinni, með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í frv., en þess skuli gætt að hækka meðlögin eigi minna en sem dýrtíðinni nemur samkv. síðustu vísitölu kauplagsnefndar. Ég held, að ekki sé hægt að fara vægar í sakirnar með það, þar sem nauðsynlegt er að tryggja, að eitthvert tillit verði tekið til vaxandi dýrtíðar, engu síður að því er snertir þá, sem þurfa að fá meðlög með börnum, en aðra. Vænti ég þess, að hv. deild taki brtt. þessari með sanngirni.