16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

19. mál, óskilgetin börn

Brynjólfur Bjarnason:

Í hv. Nd. kom fram brtt. við þetta frv., sem er á þá leið, að greiða skuli frá ársbyrjun 1941 verðlagsuppbót á barnsmeðlög, sem úrskurðuð eru samkv. þessum l., sem miðist við sömu vísitölu sem laun embættismanna og starfsmanna ríkisins miðast við. En brtt. náði ekki fram að ganga í þessu formi, heldur stendur aðeins í því þskj., sem hér á að greiða atkv. um, að við ákvörðun meðalmeðgjafa skuli þess gætt í hvert sinn, að þær hækki ekki minna en nemi aukinni dýrtíð samkv. síðustu vísitölu kauplagsnefndar. M. ö. o., það er ætlazt til þess, skilst mér, að meðlagsupphæðin sé ákveðin fyrir heilt ár og sé óbreytt þangað til hún er ákveðin aftur að ári liðnu.

Ég vildi biðja hv. n., sem með þetta mál hefur að gera, allshn., að skýra fyrir mér, hvort þetta er ekki réttur skilningur, að ætlazt sé til þess, að meðlögin séu óbreytt í heilt ár, eftir að þau hafa verið ákvörðuð á þeim tíma, sem tiltekinn er. En samkv. þeirri brtt., sem fyrst var borin fram við frv. þetta í hv. Nd., þá var ætlazt til þess, að þau hækkuðu sem næmi fullri vísitölu eftir sömu reglum eins og greidd er uppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins. Hér er ekki um lítinn mun að ræða, sem þýðir það, að meðlög verði ekki greidd, samkv. brtt., með raunverulegri uppbót, sem vex að því skapi sem dýrtíðin vex, eins og uppbótin á laun embættis- og starfsmanna ríkisins er greidd. En því meira sem dýrtíðin vex, því meiri verður munurinn á uppbótinni, eftir því hvor af þessum tveimur leiðum er farin.

Ég vildi nú óska eftir því, ef þetta er réttur skilningur hjá mér, að þessu máli yrði frestað, svo að tími gæfist til að kanna, hvort ekki væri þingvilji fyrir hendi í þessari hv. d. til þess að breyta frv. aftur í samræmi við þá brtt., sem upphaflega kom fram við það í hv. Nd. og er í samræmi við þá áskorun, sem komið hefur frá mæðrastyrksnefnd og frá öðrum aðilum hér í bænum, sem hafa sent hæstv. Alþ. álitsskjal um málið.