20.05.1941
Efri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

19. mál, óskilgetin börn

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti ! Ég gat þess, þegar þetta mál var til umr. hér fyrst, eftir að það kom úr hv. Nd., að frv. eins og það er nú fullnægir á engan hátt þeim frumstæðustu kröfum, sem verður að gera til þess, að meðlögin séu ákveðin þannig, að nægilegt geti talizt til að vera sá framfærslukostnaður, sem þeim er ætlað að vera. Brtt. sú, sem hv. allshn. Nd. flutti við frv., er í samræmi við þau erindi, sem Alþingi hafa borizt frá Kvenréttindafél. Íslands og mæðrastyrksnefndinni. Ég hef hér fyrir mér erindi mæðrastyrksnefndar, og þar eru færð fram öll þau rök, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á, að frv. verður að vera í því formi, sem farið er fram á í brtt. allshn. Nd. og er sams konar brtt. og brtt. mín á þskj. 577.

Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp erindi mæðrastyrksnefndar:

„Í sambandi við frv. það, er nú liggur fyrir Alþingi um breyt. á l. nr. 39 28. jan. 1935, um breyt. á l. nr. 46 27. júní 1921, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, vill mæðrastyrksnefnd skora á Alþingi að bæta inn í frv. þetta ákvæði um, að full dýrtíðaruppbót skuli reiknuð á hvert meðalmeðlag, hvar á landi sem er, sé uppbótin greidd mánaðarlega, og miðist fyrsta greiðsla hennar við janúarmán. þessa árs, eða, ef það þykir heppilegra, ákveða þetta með sérstökum lögum. Sé dýrtíðaruppbótin veitt samkv. sömu reglum og dýrtíðaruppbót til starfsmanna ríkisins, og bætist hún við meðlögin eins og þau voru á tímabilinu frá 14. maí 1937 til 14. maí 1940.

Eitt af félögum þeim, sem skipa mæðrastyrksnefndina, Kvenréttindafélag Íslands, hefur þegar sent Alþingi erindi um þetta efni. Er mæðrastyrksn. fyllilega samþykk því bréfi, og þykir því ekki nauðsynlegt að senda frekari greinargerð. Þess er sjálfsagt ekki heldur þörf að færa frekari rök fyrir kröfu þeirri, er hér er um að ræða. Nauðsynin er svo augljós. — Barnið lifir ekki í ár á þeim peningum, sem móðurinni kunna að verða borgaðir næsta ár, og þegar lánstraust hennar er ekkert, hlýtur drátturinn á útborgun dýrtíðaruppbótarinnar að verða til þess, að allur aðbúnaður barnsins sé svo lélegur, að heilsu þess sé hætta búin. Ekkert þjóðfélag má við því, að ungviðið vanti hin nauðsynlegustu skilyrði til þess að ná eðlilegum þroska.

Væntir mæðrastyrksnefndin þess, að Alþingi hafi fullan skilning á kjörum ekkna og einstæðra mæðra á þeim alvörutímum, sem nú standa yfir, og veiti þessu máli fljóta afgreiðslu, því það þolir enga bið.“

Þetta er svo augljóst mál, að ekki þarf að færa frekari rök að því. Það er engum blöðum um það að fletta, að frv. í því formi, sem það er í á þskj. 508, er allsendis ófullnægjandi; í fyrsta lagi vegna þess, að það hefur ekki verið tekið neitt tillit til aukinnar dýrtíðar í ákvörðun þeirrar meðlagsupphæðar, sem greidd hefur verið á þessu ári, og þess vegna er alveg óhjákvæmilegt að bæta það upp. Það er farið fram á það að vísu í brtt. allshn. þessarar hv. d., að þetta verði bætt upp við ákvörðun meðlagsins 1942, en sá galli er á þeirri brtt. fyrst og fremst, að frjálsar hendur eru gefnar um það, að hve miklu leyti skuli bætt, og í öðru lagi er sama fyrirkomulag hugsað með þessari brtt. og er í frv. sjálfu, að allt er greitt eftir á. En börnin lifa ekki þetta ár á því, sem þau fá næsta ár. Þá er og sú upphæð, sem greidd er að ár i, orðin minna virði en hún er nú. Það hefur verið reiknað út, hve miklu mæður hafa tapað á því að hafa ekki fengið dýrtíðaruppbót frá 1. maí 1940 til þessa dags. Mismunurinn á þeirri meðlagsupphæð, sem greidd er, og þeirri upphæð, sem meðlagið hefði numið með fullri uppbót, er sem hér segir :

Fyrir aldursflokk

— 1–4 ára 80 kr.

— 4–7 — 66 kr.

—15–16 129 kr.

Hér er ekki um smáræðis upphæðir að ræða. Mér er ekki mögulegt að skilja afstöðu Alþingis, ef það ætlar að synja um þessa réttlætiskröfu. Það hefur verið samþ. að greiða fulla dýrtíðaruppbót starfsmönnum og embættismönnum, og á allflestar greiðslur yfirleitt er greidd. full dýrtíðaruppbót. Það segir sig sjálft, að því, lægri upphæðir, sem einstaklingum eru ætlaðar, því meiri nauðsyn er á fullri dýrtíðaruppbót. Og því erfiðara verður að lifa sem lífeyririnn er lægri; er dýrtíðin vex, en engin uppbót er greidd. Og enda þótt full uppbót væri greidd á þau framlög og styrki, sem eru í sjálfu sér svo lág, að ekki er hægt að lifa sómasamlegu lífi á þeim, þá hlýtur hlutur þeirra, sem styrkjanna njóta, að versna með vaxandi dýrtíð og lífsbjörgin að verða örðugri.

Þetta er svo auðvelt reikningsdæmi, að það ætti ekki að þurfa að fjölyrða um það. Því fólki, sem verst á að búa við kjörin, er synjað um þær réttlætiskröfur, sem öðrum, er betur mega, eru veittar. Ég get ekki skilið, hvaða rök er hægt að færa fyrir slíku athæfi.

Það stendur að vísu í grg. fyrir stjfrv., að þetta mundi valda svo miklu losi í greiðslum meðlaga, ef þessi leið yrði farin. Herra minn trúr! Ætli það mætti þá ekki nota sömu rökin um uppbótina á laun opinberra starfsmanna, að greiðsla hennar komi svo miklu losi og glundroða á allar launagreiðslur; að hún verði að teljast óframkvæmanleg? En það hafa þeir þó ekki látið heyrast.

Hv. frsm. allshn. sagði, að hann væri í sjálfu sér fylgjandi þessari brtt. minni og teldi hana alveg rétta og sjálfsagða, en hann gæti ekki greitt atkv. með henni af því, að hún hefði ekki meirihlutafylgi á Alþingi.

Ég verð að segja, að þetta er undarleg afstaða, að greiða atkv. með eða móti máli eftir því, hvort það hefur fylgi meiri hl. eða minni hl. á Alþingi. Eftir sama hugsunarhætti ætti þessi hv. d., af því að hún er minni hl. Alþingis, að athuga vandlega afstöðu Nd. og haga sér svo eftir því, sem Nd. er fylgjandi.

Þessu ætti einmitt að vera þveröfugt farið. Þessi d. á einmitt eingöngu að afgr. málin eftir því, sem hún telur réttast og bezt, og greiða atkv. eftir því og skila á þann hátt málunum til hv. Nd., svo til fyrirmyndar sé.

Verði ekki fundin nein rök gegn því, að brtt. 577 sé réttmæt og sjálfsögð, þá er líka eðlilegast, að hún verði samþ. hér í þessari háttv. deild nú.

Ég veit ekki um afstöðu hv. Nd., en vel mætti svo fara, ef brtt. mín verður samþ., að Nd.menn sjái, hvílík fjarstæða frv. er nú, og bættu úr ranglætinu, með því að fallast á frv. eins og það kemur endursent úr þessari hv. deild.