10.03.1941
Neðri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

49. mál, sparisjóðir

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Eins og tekið er fram í aths. við þetta frv., þá er það stj.frv., en samið af milliþinganefnd í bankamálum, og er það mjög svipað frumv. því, sem flutt var á síðasta þingi um sama efni. Í frv. þessu er gert ráð fyrir breytingum frá þeim l., sem nú gilda um sparisjóði. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það lið fyrir lið að svo komnu, enda er ýtarlega gerð grein fyrir breyt. í aths. við frv. En ég vil aðeins minna á þrjár aðalbreyt., sem hér eru gerðar. Í fyrsta lagi er í l. þessum takmörkun sett á það, hversu mikið fé sparisjóðir megi lána út í hlutfalli við eigið fé, en þar með er átt við varasjóði og ábyrgðarfé. Jafnframt er það tekið fram, að með útláni í þessum skilningi sé ekki átt við fasteignalán eða önnur lán, sem eru nánar tiltekin í 16. gr. Þetta verður líka til að forðast það, að sparisjóðsinnleggjendur tapi fé sínu í sjóðnum.

Þá er í öðru lagi ákveðið í þessu frv., hversu mikið fé megi lána til eins eða fleiri viðskiptamanna, sem eru fjárhagslega tengdir. Miðar þetta ákvæði einnig í þá átt að auka öryggi þeirra, sem eiga fé sitt í sparisjóðnum, og minnka hættuna á því, að sjóðurinn tapi. Sérstaklega er mikils virði að binda ekki trúss við einstaka menn eða fyrirtæki.

Þriðja ákvæði frv., sem kalla má höfuðatriði þess, er að stofna tryggingarsjóð við sparisjóðina. Nú er þessu þannig háttað, að komist sparisjóður í þrot, ber ábyrgðarmönnum strax að gera skil fyrir ábyrgðarfénu. Þegar þau skil eru gerð, er heldur ekki í annað hús að venda, og tapa þeir því, sem umfram verður, en tryggingarsjóðunum er ætlað að hlaupa undir bagga, ef einhverjir sparisjóðanna komast í þrot. Hefur slíkt komið alloft fyrir, og er þessa sameiginlega sjóðs því full þörf. Mun þetta einnig verða til þess, að menn trúi sparisjóðum fremur fyrir fé sínu, í stað þess að leggja það inn í bankana, sem hafa ríkisábyrgð. Hefur innstæða manna í bönkum aukizt mjög upp á síðkastið af þessari ástæðu, en það virðist miður heppileg þróun. Enda hafa sparisjóðirnir betri aðstöðu til að nota fé sitt í þágu héraðanna heldur en bankarnir. Ýmis önnur atriði eru í þessu frv., sem eru ekki svo mikilsverð sem þessi, og því hirði ég ekki um að skýra frá þeim. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að málinu verði vísað til fjhn.