27.05.1941
Efri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

135. mál, friðun æðarfugls

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti !

Þetta frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. og komið frá hæstv. landbrh. Þetta mál hefur gengið í gegnum hv. Nd., og tók það þar nauðalitlum breyt., aðeins orðabreyt. við fyrirsögn frv.

Allshn. þessarar d. hefur nú yfirfarið þetta frv., og eins og sjá má á nál. á þskj. 648, er n. sammála um að mæla með frv., þó að nokkur uggur sé í nm. yfirleitt um það, að sú breyt., sem í frv. felst frá eldri l., nái ekki tilgangi sínum. En breyt. er í því fólgin, að sektarákvæðin eru hækkuð. Er það ekki ósanngjarnt, þó að sektir fyrir brot gegn þessum l. séu hækkaðar, miðað við það verðfall, sem orðið hefur á peningum síðan þessi l. voru sett 1913. Skal ég ekki fara nánar út í það. Hins vegar býst ég við, að einn hv. nm. muni e. t. v., þó kannske ekki við þessa umr., koma með brtt. um annað ákvæði frv.

Eins og ég hef þegar tekið fram, má heita, að hér sé um uppprentun á l. að ræða frá 1913. Og sektir eru ákveðnar hér í þessu frv. frá 50 kr. upp í 1000 kr. Og þar sem hér er um að ræða innanhéraðsmál, og sektir eiga að renna að nokkru leyti til uppljóstursmanns og að nokkru leyti í sveitarsjóð, þá eru líkurnar ekki mjög sterkar fyrir því, að mjög verði hart gengið eftir sektum fyrir brot í þessu efni. En hins vegar verður að líta svo á, að með tilliti til verðlagsbreyt., þá sé ekki óeðlilegt, þótt sektir hækki eitthvað. — Sem sagt, n. mælir með frv. eins og það nú er.