27.05.1941
Efri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

135. mál, friðun æðarfugls

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal vera fáorður um þetta frv. Ég geri ráð fyrir, að það komi fljótlega til umr. hér á eftir mál, sem snertir

þetta frv. og gefur mér ástæðu til að :orðlengja meira um ýmis atriði frv.

Ég skal játa, að það er sjálfsagt og gott að hlynna sem bezt að æðarfuglinum. En þrátt fyrir góða umhirðu er ýmislegt, sem getur komið í veg fyrir aukningu æðarvarpsins. Við vitum, að mikið er undir því komið, að fuglinn sé ekki styggður, hvorki um varptímann eða á öðrum tímum, þegar hann er nálægt varplöndunum, því það ruglar mjög um það, hvar hann sezt upp. Ég held satt að segja, að hvergi sé meiri umhirða um varpið en á Breiðafirði. Þar hefur verið mesta dúntekja á landinu og þar var fyrst byrjað að verka dúninn. Þar er farið gætilega að fuglinum og reynt að hlynna að honum, enda leitar fuglinn þar víða í eyjunum heim til húsanna og upp undir húsveggina. Virðist fuglinn telja sig hafa þar mest öryggi. Getur verið, að það stafi af því, að hinn fiðraði vargur ásæki hann þar minna en í útskerjum. (SÁÓ: Hver er hinn ófiðraði vargur?) Hann getur margur verið. Ég get sagt, að það geti verið bæði menn og kvikindi. — Einhver skemmtilegasta atvinna er að hirða æðarvarp. Þar er ekki verið að drepa eða hrjá skepnurnar. Þar er aðeins um það að ræða að hlynna sem bezt að þeim og vernda þær fyrir ásókn vargfugla og annars, sem ásækir þær; með því fæst beztur arður af þessari atvinnugrein. Og það hefur verið drjúgt, sem landið hefur fengið fyrir afurðir þær, sem fuglinn hefur gefið af sér. En því miður hefur varpið farið minnkandi að undanförnu af einhverjum ástæðum. Við Breiðafjörð hefur varpið fengið sömu umhirðu og áður, og eiga því ummæli hv. 2. þm. S.-M. ekki þarvið. Hér kemur eitthvað annað til greina, sem þarf að stöðva. Ég tel í þessu sambandi sjálfsagt að gera þær ráðstafanir, sem í frv. felast, að herða á sektunum og gera þær ráðstafanir, sem næsta frv. á dagskránni í dag gerir ráð fyrir. Ég tel rétt að hlynna sem bezt að æðarfuglinum og refsa þeim, sem brjóta þá löggjöf, sem verndar hann, og reyna að útrýma þeim vargfuglum, sem áreita hann. Ég get nefnt dæmi þess frá Breiðafjarðareyjum, að í einni eyju, þar sem talsvert varp er og umhirða góð, hafa ekki í hitteðfyrra komizt á legg nema 2 ungar og í annarri eyju ekki nema 1 ungi, að því er séð varð, og getur hver séð, sem opin hefur augun, að hér er um eitthvað annað að ræða en vanhirðu á varpinu.