27.05.1941
Efri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

135. mál, friðun æðarfugls

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Mér eru umr. um þetta frv. nokkurt undrunarefni, þar sem engin brtt. liggur fyrir, sem dregur úr gildi frv. Ég get hins vegar skilið afstöðu hv. 2. þm. S.-M., enda þótt ég byggist ekki við hans rökstuðningi við þessa umr. Það, sem raunverulega er deilt um, er eggjatakan. Ég gat þess í minni framsögu, að breyt. á l. samkv. frv. væri lítil að öðru leyti en hækkun sektanna. Nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lofa hv. þm. að heyra, hvernig 2. gr. l. frá 1913 er orðuð :

„Enginn má selja eða kaupa æðaregg, né á nokkurn hátt af hendi láta til annarra utan heimilis síns, nema eggskurn til vísindalegra þarfa. Greiða má þó varpeigandi þeim mönnum, er varp hirða, borgun fyrir starf sitt með eggjum, ef þeir óska. Ekki má heldur selja eða kaupa dauða æðarfugla, né hluta af þeim. Brot gegn þessu varða 5 króna sekt, sem tvöfaldast við hverja ítrekun brotsins, allt að 200 krónum. Hér er ekki um neina efnisbreyt. að ræða í þessu frv. frá því, sem segir í l. frá 1913. Nú er spurningin,, hvort þetta ákvæði hefur orðið æðarvarpinu til tjóns. Um það er ég ekki dómbær. En ég hef ekki heyrt, að menn teldu rétt að takmarka svo mjög eggjatökuna frekar en l. gera ráð fyrir. Þetta virðist vera skoðun þeirra, sem samið hafa þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég held þess vegna, að hér sé verið að ræða um keisarans skegg, þegar deilt er um þetta atriði. Og hver getur haft eftirlit með, að ekki séu framin lögbrot í þessu efni?

Ég vildi aðeins láta það koma fram, að ég get ekki skilið þessar miklu umr. um frv., þar sem í raun og veru liggja ekki fyrir neinar brtt. við frv. og ekki eru líkur. til, að þær muni koma fram nema frá hv. 2. þm. S.-M., sem vill takmarka eggjatökuna.