23.05.1941
Neðri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Bergur Jónsson:

Mér finnst það ekki óeðlilegt, í sambandi við þetta mál, að minnast hér á annað mál og beina fyrirspurn til hæstv. forseta viðvíkjandi því.

Þann 17. apríl s. l. var vísað til allshn. frv. til l. um þjóðfána Íslendinga. Þetta frv. er borið fram sem stjórnarfrv., og hver ástæðan er fyrir lagafrv., þá er vísað til þál., sem samþ. var á síðasta þingi. Nú áður en allshn. hafði afgr. þetta mál, þá kom hæstv. fjmrh. að máli við mig sem formann n. og óskaði eftir því, að þessu máli, ásamt öðrum málum, sem hjá n. væru, yrði flýtt. Ég hef gert þetta eftir mætti og notið stuðnings meðnm. minna, með því að halda kvöldfundi, jafnvel fram á nætur, og var þetta mál afgr. með nákvæmu nál., sem allir nm. voru sammála um, og var það á fundi 6. maí s.l. Síðan mun málið hafa komið tvisvar hér á dagskrá í hv. deild, en í bæði skiptin verið tekið út, í annað skiptið, að því er mig minnir, með þeim ummælum, að atvmrh. hefði óskað þess.

Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það, hvort það er meiningin, að þetta nál., sem auðvitað er ætlað deildinni til meðferðar eins og önnur nál., eigi ekki að komast til umr. hér í hv. d.

Það hefur verið venja, ef menn hafa kvartað undan afgreiðslu nefnda, að þeir hafa snúið sér til forseta og beðið hann að reka á eftir n. Hitt hefur ekki verið venja, svo mér sé kunnugt, að nál., sem komið hafa frá n. í heildinni eða frá minni eða meiri hl. nefndar, hafi ekki fengið afgreiðslu í d.

Ég held, að það sé shlj. ósk allra nm., að d. fái að segja sitt álit um till. n. í þessu máli.