19.02.1941
Neðri deild: 3. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

9. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Nú síðan Alþingi var seinast saman komið, hefur gjaldeyrisástandið tekið miklum stakkaskiptum, og þetta frv. er einhver gleggsti votturinn um það. Um mánaðamót júní og júlí s. 1. var það, sem gjaldeyrisástæður bankanna fóru að taka mjög miklum breytingum, og þó meiri er á leið. Þróunin varð örari og örari með hverjum mánuði, sem leið, til ársloka. Aðalástæðurnar voru tvær: gífurlega hækkandi verð á ísfiski og innflutningur enskra peninga í sambandi við veru setuliðsins hér á landi.

Eins og allir kannast við, er gert ráð fyrir, að gengi íslenzkrar krónu sé haldið stöðugu samkv. l. um þessi efni frá síðasta þingi. Til þess að það mætti verða, hafa bankarnir keypt allan þann erlendan gjaldeyri, sem þeim var boðinn, enda er skylt að afhenda þeim allan gjaldeyri, sem inn er fluttur. Nú, þegar aðstreymi gjaldeyrisins fór svo ört vaxandi, tóku menn að íhuga vandkvæði, sem af því leiddi. Bæði er það, að litlar tekjur fást af því fé, sem nú er geymt erlendis, meðan ísl. bankarnir verða að greiða vexti af gjaldeyri þeim, sem þeir hafa keypt, og í annan stað fá útflytjendur og fleiri hér svo mikla peninga í hendur frá bönkunum, að af því leiðir sívaxandi peningaumferð, sem farin er að hafa mjög misheppileg áhrif á verðlag og önnur víðskipti.

Ef bankarnir hættu að kaupa nema nokkurn hluta boðins gjaldeyris, en létu hitt frjálst, er ekki vafi á því, að sá hlutinn, sem þeir keyptu ekki, yrði nú boðinn með lægra verði. Bankarnir gætu ekki ráðið við það, hvort röskunin á genginu yrði þá mikil eða lítil, og afleiðingarnar yrðu ófyrirsjáanlegar, ef gjaldeyrisverzluninni væri sleppt lausri á þann hátt.

Því var horfið að þessu ráði, sem felst í frv., er hér liggur fyrir. Málið hafði áður verið rækilega íhugað af bönkum og ríkisstj. og milliþn. þeirri, sem sett hefur verið til að fjalla um gjaldeyrislöggjöfina yfirleitt. Gert er ráð fyrir, að bankarnir skuli undanþegnir því að kaupa nema nokkurn hluta þess gjaldeyris, sem fram er boðinn, en þá verða að fylgja ákvæði um, að hinn hlutinn skuli ekki verða í frjálsri umferð, heldur lagður inn í lokaða reikninga, sem séu í vörzlu bankanna. Það er sjálfsagt mál, að bankarnir verða að kaupa þann hluta gjaldeyrisins, sem þarf til framleiðslukostnaðar innan lands. Er hér því aðeins um það að ræða, að sá gróði, eða verulegur hluti þess gróða, sem á útflutningsvörum kann að verða, skuli settur í hina lokuðu biðreikninga. Í reglugerð, sem enn er eftir að setja um þetta efni, en verður að koma innan skamms, þarf að taka fram, hvernig og í hvaða röð menn geti aftur fengið lausan gjaldeyrinn eða innieignirnar á biðreikningunum. Í sambandi við framkvæmd þessara laga eru mjög mörg vandamál, sem að vísu er ástæðulaust að tala um við þessa umr., en hljóta að koma til athugunar í nefnd. Enn þá hafa þessi bráðabirgðal. ekki komið til framkvæmda að öðru leyti en því, að settar hafa verið reglur um gjaldeyri fyrir ísfisk, og hefur þó fram að þessu verið keyptur viðstöðulaust allur gjaldeyrir, sem fyrir ísfiskinn hefur fengizt. Reglur þessar eru nú komnar fyrir almannasjónir í dagblöðum, þótt þær eigi eftir að birtast í Lögbirtingabl. Um öll önnur atriði l. er eftir að setja reglugerðarákvæði. Um þau efni og öll önnur í sambandi við þetta mál óskar ríkisstj. að verða í samráði við þá n., sem um málið mun fjalla, og aðra, sem hlut eiga að máli.

Ég sé ekki ástæðu til lengri framsögu að sinni, þótt málið sé stórt og nokkuð sérstakt í sinni. röð, vegna ástandsins. Ég geri ráð fyrir, að umr. fari aðallega fram, eftir að n. hefur kynnt sér málið og einstakir þm. athugað betur en nú. Ég vil mælast til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og fjhn.