23.04.1941
Neðri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

9. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Þessi brtt., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að slegið verði föstu í l., að jafnan skuli kaupa af mönnum pund, til þess að þeir geti greitt upp stofnlán til útgerðarfyrirtækja, er þau hafa tekið fyrir árslok 1940. Nú vildi ég benda á, að ég tel hvorki heppilegt né æskilegt að taka ákvæði um þetta upp í þessi l., sérstaklega ekki jafnskilyrðislaust og gert er með till. Skal ég skýra þetta nánar.

Í frv. eins og það nú liggur fyrir er það lagt í vald gjaldeyriskaupanefndar að ákveða, hversu mikill hluti af útflutningsandvirði bankarnir skuli kaupa í hverri ferð og hversu mikið skuli lagt á lokaðan reikning. Meginreglan, sem n. starfar eftir, er sú, að keypt séu pund sem svarar ríflegum kostnaði við framleiðslu þeirra vara, sem út eru sendar, og að eitthvað sé ætlað fyrir eðlilegum ágóða af framleiðslunni. Nú er gert ráð fyrir, að undir vissum kringumstæðum sé eðlilegt, að n. gangi lengra í þessu efni heldur en meginreglan gerir ráð fyrir. Í 2. gr. bráðabirgðal. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. setji starfsreglur. Þessar reglur eru nú í undirbúningi, og í þeim verður það áreiðanlega tekið fram, að n. sé heimilt undir vissum kringumstæðum að láta sérstök pund með nánar tilteknum hætti. Þar verður t. d. til athugunar, hvort eigi að leyfa sérstaka undanþágu vegna skipakaupa og véla í skip o. fl., sem kemur þar til greina. En þetta er allt hliðstætt eldri stofnskuldum. Ég teldi það þess vegna ekki heppilegt að taka það atriði út úr og setja inn í l., heldur sé þetta eitt af þeim atriðum, sem sérstaklega verður tekið til athugunar við samningu þessara starfsreglna. Það leiðir af þessu, að ég get ekki lagt til, að þessi till. verði samþ. Ég mun hins vegar beita mér fyrir því, að í starfsreglum n. verði leyfðar afborganir á stofnlánum. Ég vildi jafnframt sem ég lýsti þessu yfir fara fram á það við flm. brtt., að hann sæi sér fært að taka hana aftur.