23.04.1941
Neðri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

9. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. viðskmrh. hefur lýst sínu sjónarmiði gagnvart brtt. minni á þskj. 70.

Áður en ég vík að tilmælum hans um að taka till. aftur, vildi ég endurtaka nokkur af þeim rökum, sem ég hef áður fært fyrir þessu máli.

Það er kunnugt, að fyrstu mánuði stríðsins sigldi fjöldi hinna stærri skipa með fisk til Englands. Þetta voru togarar og nokkur skip önnur, sem voru fær til ferðanna strax í stríðsbyrjun. Þessi skip fengu andvirði aflans yfirfærðan jafnóðum. Á þennan hátt varð þeim fært að greiða eldri skuldir og losa fyrirtækin undan þeirri miklu klemmu, sem þau voru í vegna skulda, og losa þau við miklar vaxtagreiðslur. Þau skip hins vegar, sem tæplega voru fær til þess að sigla fyrr en að lokinni viðgerð og breytingum, komust ekki í flutningana fyrr en svo seint, að l. um bindingu pundanna í Englandi skullu á um það bil, er þessi skip byrjuðu siglingar. Af þessu leiddi, að þau urðu að eignast geymdu pundin í stað þess að greiða skuldir sínar. Nú hvíla þessar skuldir þungt á skipunum. Þetta er yfirleitt smærri útvegurinn, sem hefur orðið svona hart úti. Og það versta er það, að skuldirnar eru flestar kræfar, hvenær sem vera skal. Eins og ég sagði, eru þetta yfirleitt smærri skipin. Skuldirnar eru því tiltölulega litlar í heild, miðað við pundainnieignina í Englandi, en þetta er tiltölulega mikið hjá hverju skipi.

Ég vildi rifja þetta upp til þess að sýna hv. þm. fram á, að þessi till. mín er í raun og veru sanngjörn. Nú hefur hæstv. viðskmrh. líka tekið undir það, að þörf sé á að bæta fyrir þessum mönnum, en hins vegar telur hann erfiðleika á því að samþ. mína till., vegna þess að hún sé of ótakmörkuð. Ég vil nú ekki halda þessari till. til streitu svo mjög, að ég stofni með því til vandræða. Að sönnu er það mín skoðun, að svo mundi ekki verða, þótt mín till. væri samþ. En þar eð hæstv. viðskmrh. hefur nú lýst yfir, að á bak við till. liggi fullkomin nauðsyn og sanngirni, sem hann vilji greiða fyrir, að verði bætt úr, þá mun ég sýna það, að mér er þetta mál meira kappsmál en svo, að ég láti mig svo mjög skipta þá formlegu hlið þess. Ég vil þess vegna taka till. aftur í trausti þess, að hæstv. ráðh. sjái svo til, að efni till. verði ekki aðeins pappírsgagn eitt, heldur verði þetta framkvæmt þannig, að verulegt gagn verði að fyrir útgerðina.