12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Bernharð Stefánsson:

Mig langar til að spyrjast fyrir um það hjá hv. allshn. þessarar deildar, hvað því valdi, að hún hefur ekki enn skilað nál. um frv., sem við þm. Eyf. fluttum um eignarnámsheimild fyrir Siglufjarðarkaupstað á heitum uppsprettum í Skútudal í Siglufirði. Þessu frv. var vísað til allshn. 18. apríl, og eru nú liðnir nærri 2 mánuðir síðan.

Ég er ekki vanur að rekast í störfum nefnda, en ég hef nokkra ástæðu til þess að spyrjast alveg sérstaklega fyrir um þetta, því að ég get sagt það alveg eins og það er, að ég hef orðið þess var, að álitið er, að þetta stafi frá okkur flm. sjálfum. Slíkt er vitanlega með öllu tilhæfulaust, ef einhverjir segja það, og þess vegna vildi ég gjarnan spyrjast fyrir um þetta.

Þá vil ég í öðru lagi beina þeirri fyrirspurn til hv. sjútvn., hvernig standi á því, að ekki hefur verið afgr. frv., sem hingað kom frá. Nd. fyrir alllöngu, um dragnótaveiði í landhelgi. Ég er að vísu ekki riðinn við flutning þess máls, en það er mikill áhugi fyrir því í mínu kjördæmi, að vísu á báða bóga.

Ég geri reyndar ráð fyrir, að það þýði ekki að ganga eftir nál. héðan af, þar sem komið mun vera að þinglokum, eða maður vonar það að minnsta kosti, en ég vildi aðeins fá að vita ástæðuna fyrir því, að þetta mál hefur ekki verið afgr.