24.05.1941
Neðri deild: 66. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Pálmason:

Það hefur nú komið í ljós, eins og eðlilegt er, að þegar farið er að deila um, hvernig verja eigi þessu fé, geta spunnizt um það óendanlegar umræður. Það væri eðlilegast að samþ. frv. eins og það er, og skal ég þó ekki fjölyrða um það. Það er óheppilegt að binda svo tekjur ríkissjóðs, og tilgangurinn næst ekki nema að nokkru leyti. Óeðlilegt og villandi er að burðast með fjárframlög til sömu samgöngubótanna í tvenns konar fjárveitingum. — Til Suðurlandsbrautar eru nú áætlaðar 65 þús. kr. á fjárlögum, og sýnist það þegar allríflegt. Um brtt. hv. 8. landsk. og hæstv. fjmrh. hef ég engu sérstöku við að bæta, þar sem mér virðist réttast, úr því sem komið er, að breyta frv. í engu.