13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

21. mál, húsaleiga

Bjarni Ásgeirsson:

Það er aðeins lítið atriði, sem síðasti ræðumaður kom inn á. Mér finnst mjög óheppilegur og villandi síðasti málsl. í alið brtt., þetta um herbergi, sem leigð eru einhleypum mönnum. Ég hygg, að það gæti orðið deiluatriði í mörgum tilfellum, hvort þessi herbergi ættu að koma undir ákvæði húsaleigulaganna eða ekki. Nú kemur fjölskyldumaður og býr einn eða er einhleypur, þegar hann tekur herbergið á leigu, og lögin ná þá ekki yfir hann. En ef kona hans færi að búa hjá honum, þannig að þau hefðu ekki eldhús eða matreiðslu, heldur keyptu fæði annars staðar, nær þá ákvæðið yfir herbergi þeirra, að það komi ekki undir húsaleigul.? Þarna er þó fjölskyldumaður tvímælalaust. Mér finnst þetta þurfa að koma greinilega fram frá frsm. n., og helzt orða það svo í l., að ekki valdi ágreiningi. Við vitum, að í mæltu máli eru fjölskyldumenn ekki kallaðir einhleypir menn, en mér skilst, að ákvæðið ætti að ná yfir fjölskyldumenn, ef þeir byggju einir og hafa ekki aðgang að eldhúsi. Þess vegna þarf þetta að vera óvéfengjanlegt. Ég sé, að í frv., sem húsaleigunefnd hefur sent ríkisstj. og hér er prentað, er þetta orðað svona, að ákvæðið taki ekki til leigu á einstökum herbergjum, sem húseigandi leigir út frá íbúð sinni. Það skilst mér kjarni málsins. Hitt, hverjir eru einhleypir menn, getur oft valdið ruglingi og þrætu.