13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

21. mál, húsaleiga

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég skal í raun og veru taka undir það, sem tveir síðustu ræðumenn hafa talað út í niðurlag á a-lið brtt. frá allshn. En þar er ekki um neina breyt. að ræða frá því áður, — það er tekinn upp fyrsti málsl. l. frá 1940. Þetta komst í 1. í fyrra sem brtt., en var ekki. í frv., sem ég lagði fyrir Alþ., og ég var brtt. andvígur. Nú hefur allshn. ekki treyst sér til að fella þetta ákvæði niður, og virðist ekki vera vilji á Alþ. fyrir því, að svo verði gert. Ég fyrir mitt leyti tel enn heppilegast, að þessi málsl. hefði verið algerlega niðurfelldur úr l. og einstök herbergi hefðu alveg skilyrðislaust náð undir það eftirlit, sem á að hafa um húsnæði almennt í bænum. Hins vegar er það misskilningur hjá hv. þm. Mýr., að það sé betra og skýrara, sem er í frv. Fasteignaeigendafélagsins, — því að það var það frv., en ekki frv. húsaleigunefndar, sem hann vitnaði til, — því að þar er ákvæðið miklu víðtækara heldur en í núgildandi l. og að því leyti verra frá mínu sjónarmiði. Því að þar er heimild til þess yfirleitt að undanskilja öll einstök herbergi frá umráðum húsaleigunefndar. Allshn. vildi ekki ganga svo langt.

Ég verð að álíta það engum vafa bundið, sem hv. þm. Mýr. talaði um, að ef t. d. hjón leigðu herbergi út frá íbúð einhvers, þá sé ekki um einhleypan mann að ræða lengur, og þá fellur þetta húsnæði undir ákvæði þessara almennu húsaleigulaga, þannig, að verðið á herberginu er háð eftirliti húsaleigunefndar. En ef leigt er einhleypum út frá íbúð, annaðhvort að húseigandi geri það eða leigutaki hans, þá er slíkt herbergi undanþegið almennum ákvæðum húsaleigulaganna, og tel ég það til hins verra.