07.06.1941
Efri deild: 73. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

21. mál, húsaleiga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég var því miður ekki við, þegar fyrri umr. fór fram. Ég vil taka það fram fyrst og fremst, að ég tel þær breyt., sem gerðar hafa verið á 1. gr., mjög til hins verra. Þessi l. voru sett til að halda niðri húsaleigu í bænum, en í 1. gr. er ákveðið, að húsaleigu megi hækka eftir því, sem viðhaldskostnaður hækki, og er svo til ætlazt, að húsaleigun. ákveði, hver hækkunin megi verða á leigunni. Í þess stað er nú í Nd. lagt til, að farið verði eftir vísitölu, sem í fæstum tilfellum yrði rétt. Viðhaldskostnaður getur verið frá 5–30% af húsaleigutekjunum. Það er því miklu réttara að láta húsaleigun. ákveða hækkun húsaleigu í hvert sinn en láta alltaf gilda sömu prósentvísu hækkunina. Þetta er ranglæti gagnvart þeim húsum, sem verri eru og mikið þarf að kosta til viðhalds á. Það er miklu réttara, að húsaleigun., sem kemur á staðinn og sér, hvaða viðhalds er þörf og hver leigan er, ákveði þetta. Þá er þess að gæta, að nú er viðhald víða vanrækt. Enda er hæpið, hvort á að hækka húsaleigu, þó að einhver húseigandi telji sig ekki geta fóðrað stofu eða gert við dúk nema fá hækkaða húsaleigu fyrir. Þegar viðhald er ekki framkvæmt, á leigan ekki að hækka.

Ég vil láta 1. gr. vera óbreytta. Ef breyt. á 1. gr. verða samþ., er ég ekki viss um, að réttarbæturnar í 2. gr. séu það miklar, að ég vilji kaupa þær fyrir 1. gr., eins og lagt er til, að hún verði.