07.06.1941
Efri deild: 73. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

21. mál, húsaleiga

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Við nánari athugun sé ég, að það er rétt, að það þarf að koma inn í frv. nánara ákvæði um tímatakmarkið, en ég er ekki viss um, hvort rétt er að orða það eins og hv. 11. landsk. þm. vill. Hins vegar er sami ágreiningur á milli okkar hvað snertir kauplagsn. og húsaleigun. Ég teldi æskilegt, ef hann vildi fresta sinni till. til 3. umr., svo að við getum rætt málið nánar.

Ég skal ekki rökræða önnur atriði málsins. Það verður undir mati komið, hvort fasteignaeigendur verða hart úti. Þeir eiga sitt fé í fasteignunum, og leigumálar eru venjulega það ríflegir, að fullt svo góðir vextir fást af fénu og menn fá nú af peningum í bönkum, enda vilja menn ólmir kaupa fasteignir nú.

Hv. 1. þm. N.-M. mælti mjög gegn 1. gr. og taldi hana breytta svo mjög til hins verra, að vafasamt væri, hvort borgaði sig að samþ. 2. gr., ef breyt. á 1. gr. næðu fram að ganga. Mér finnst hv. þm. hafa nokkuð til síns máls. Það er vandaverk að skapa vísitölu svo, að einskis réttur verði fyrir borð borinn. Húsin eru misjöfn og viðhaldið eftir því. En mér virðist ekki nema ein leið út úr þeim vanda. Það verður að meta hverja einustu íbúð. En íbúðir skipta þúsundum, og þó að ekki sé nema nokkur hluti þeirra metinn, hversu óskaplegt verk er það ekki fyrir eina nefnd? Þetta kom til tals í n. hjá okkur, hvort ekki væri gerlegt að meta íbúðir, en við sáum ekki betur en að það væri fullkomið ofverk fyrir eina nefnd.

Ef óskir hv. 1. þm. N.-M. næðu fram að ganga og breyt. á 1. gr. væri felld hér í d., mundi það valda svo mikilli togstreitu í Nd., að frv. mundi hrekjast á milli d. á ný. Ég vil því ekki ráða til þess að fella breyt. á 1. gr.