12.05.1941
Neðri deild: 57. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

134. mál, eyðing svartbaks

Pétur Ottesen:

Að því leyti sem ríkissjóður tekur þátt í verðlaunum þeim, tveim krónum, sem greidd eru fyrir hvern svartbak eða fleygan svartbaksunga, sem drepinn er, þá er gert ráð fyrir, að sýslan, þar sem fuglinn er drepinn, endurgreiði ríkissjóði 25% upphæðarinnar, en hreppurinn 20%. Er því gert ráð fyrir, að 45% af upphæðinni greiðist með þessum hætti. Ég vil nú benda á það, að þó að þær ráðstafanir, sem hér er stofnað til, gætu orðið þýðingarmiklar um eyðingu þessa vargs, þá gæti farið svo, að hreppur eða sýsla, sem yrðu samkv. þessu ákvæði að greiða mikið gjald, hefðu ekki í sömu hlutföllum beinna hagsmuna að gæta í sambandi við eyðingu fuglsins. Svo er t. d. um þá staði, þar sem ekki er æðarvarp. Gæti því orkað tvímælis, hvort leggja ætti þetta gjald á slíkar sýslur eða hreppa. Það er t. d. kunnugt, að kringum margar verstöðvar landsins safnast mikið af svartbaki, sem sækir í slor og fiskúr gang. Er auðvelt að ganga vel fram í því að skjóta fuglinn á slíkum stöðum, þar sem hann safnast í stórum flokkum, af því að æti er nóg. Gæti þetta orðið nokkur byrði á hlutaðeigandi hrepps- og sýslufélagi. Bendi ég á þetta til athugunar, en engan veginn í því skyni að tefja málið, því að ég er því meðmæltur, að gangskör sé gerð að útrýmingu þessa ránfugls, sem veldur stórtjóni í æðarvörpum hér á landi.