28.05.1941
Efri deild: 70. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

134. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Eins og sjá má á nál. allshn. á þskj. 647, getur n. ekki fallizt á þau ákvæði í frv., sem gera varpeigendum að skyldu að eitra fyrir svartbak á ári hverju. — Þetta mál er gamall kunningi á Alþingi. Það var, að því er mig minnir, fyrst flutt hér árið 1935 af þáv. þm. Dal. og var þá í nokkuð svipuðu formi og þetta frv., en þá voru í því ákvæði um að heimila að eitra fyrir svartbak. Málið gekk í gegnum aðra deildina, en varð ekki útrætt. Á þingi 1936 var frv. flutt aftur, en þá var tekið úr því ákvæðið um eitrunina, og þannig gekk málið í gegn án verulegrar andstöðu.

Nú kemur þetta frv. sem sérstakt lagafrv., og virðist það eiga að skoðast sem tilraun, því í 7. gr. stendur, að með l. þessum skuli frestað framkvæmd laganna frá 1936. Ég verð að segja, að þetta er allrar virðingar vert, því að það ber þess vott, að höfundar frv. séu ekki alveg vissir um, að þessi löggjöf sé heppileg til frambúðar.

Það er að nokkru vikið að því í nál., og munu fleiri vera þeirrar skoðunar, að eitrun sé ómannúðleg aðferð við eyðingu dýra og enda ekki með öllu óskaðvænleg öðrum dýrum en þeim, sem eyða á, og jafnvel mönnum. Það er og álit allshn., að það sé ekki viðeigandi fyrir Alþ. að leiða slíkt í lög, enda þótt það kynni að vera nauðsynlegt undir einhverjum kringumstæðum að nota þessa aðferð til eyðingar dýra.

Samkv. l. frá 1936 hafa verið settar sýslusamþykktir um eyðingu svartbaks, og a. m. k. í einni þeirra er heimilað að eitra fyrir hann. Ég skal ekkert um það segja, hvort nægileg er sú heimild í l. frá 1936 til þess að setja slíkt ákvæði, en staðfesting ráðuneytisins á samþykktinni hefur fengizt. Ég tel því, að þar, sem svo hagar til, að lítil hætta sé að nota eitrun til þess að eyða svartbak, sé það opin leið skv. l. frá 1936 að setja slíka heimild í sýslusamþykktir. Þess vegna erum við í allshn. á móti þessu atriði frv., og það er ekki ástæða til að halda langa ræðu um þessa ómannúðlegu aðferð, sem hér á að beita, en ég skýt máli mínu til tilfinninga manna. Til sönnunar því, að þessi aðferð verður ekki varin, eru einmitt ummæli, sem tekin eru upp í nál., þess manns, sem virðist vera aðalhöfundur frv., að stryknin sé mjög hættulegt eitur. En ekkert er á móti því, að varpeigendur, þeir sem vilja vinna að hagsmunum sínum, reyni sjálfir að eyða svartbak eftir beztu getu. En eins og ég sagði í gær viðvíkjandi frv. um friðun æðarfugls, þá hef ég litla trú á, að atvinnugrein, sem þarf hinnar mestu natni og umhirðu við, verði bjargað með ströngum lagaboðum, heldur byggist það á innri hvöt þeirra, sem stunda þessa atvinnugrein. Því tel ég umrædda aðferð heppilegri heldur en að vera að setja lög, sem ef til vill reynast misjafnlega vinsæl. Ég held, að málinu sé enginn ógreiði ger með till. allshn. Ég sé ekki annað en að þeir, sem trúa á eitrið, geti þá farið að dæmi Dalamanna og fengið það staðfest í sýslusamþykkt.

Önnur atriði frv. geta þeir og tekið upp, nema þeir geta ekki tekið fé úr ríkissjóði í þessar þarfir eins og þeim sýnist. Það má vera, að þetta mál um aukning og eflingu æðarvarps í landinu snerti ríkissjóð töluvert, en það snertir mest þá, sem þessa atvinnu stunda, og afkoma varpsins fer auðvitað eftir aðbúnaði öllum, hvort hann er góður eða hvernig um varpið er hirt.

Ég hygg, að ég muni ekki þurfa miklu fleiri orð um þetta að segja, því þau rök, sem ég hef fært fyrir máli mínu, eru glögg og sýna á engan hátt óvilja í garð þeirra, sem vernda vilja varplöndin, því það tel ég réttmætt. Við í allshn. erum algerlega mótfallnir því, að fuglum eða nokkrum dýrum sé eytt með eitri. Þó er sá möguleiki fyrir þá, sem telja eitrun lífsspursmál, að fara eftir lögunum frá 1936. Þeir geta gert allt, nema þeir fá ekki úr ríkissjóði meira til höfuðs svartbaknum en ákveðið er í þeim lögum. Ég vil gera ráð fyrir, að hv. deild geti fallizt á að afgreiða mál þetta með rökstuddri dagskrá, svo sem allshn. leggur til.