04.06.1941
Efri deild: 71. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

134. mál, eyðing svartbaks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Mér finnst ef til vill ástæða til þess, að ég vitni eitthvað í þessu máli, þar sem ég var flm.l. þeim, sem nú eru í gildi og á að fresta með þessu frv., er nú liggur hér fyrir.

Ég vil þá fyrst minnast á það, að ég tel þetta frv. ekki alls kostar heppilegt. Það þarf að gera við það nokkrar breytingar. T. d. er það ekki rétt að skipa svo fyrir, að varpeigendur eigi eftirlitslaust að eitra hver hjá sér. Ég tel miklu réttara, að skipaður sé eftirlitsmaður í hverjum hreppi eða vissu svæði. Hreppsnefnd beri að velja manninn og sjá um, að eitrunin sé framkvæmd á þann hátt, sem getur orðið hættulítill eða hættulaus öðrum en þeim, sem fyrir eitrinu eiga að verða. (Forsrh.: Það er gert ráð fyrir því í frv., að fyrir þessu sé séð með reglugerð). Í öðru lagi tel ég verðlaunin óþarflega há. Ég hefði helzt viljað færa þau niður í eina krónu, eða eins og upphaflega var í frv. í Nd. tvö undanfarin þing. Því að það er yfirleitt erfitt að veiða svartbak, og hann er ekki skotinn til þess að vinna fyrir peningum, nema geysihátt væri í boði, heldur skjóta hann aðallega þeir, sem nota hann til refafóðurs. Þá getur það og dregið úr eitrun fyrir hann, ef það reynist góð atvinna að skjóta hann, en með skotum einum verður honum ekki eytt verulega. Þetta vildi ég, að væri athugað. Einnig getur það orðið nokkuð óþægilegt ákvæði, að sá hreppur, sem svartbakurinn er drepinn í, á að borga. Nú getur oft orðið þræta, þegar skotið er á hreppamörkum og skyttan ein er til frásagnar, sem getur hæglega ruglazt í þessu, þó að maðurinn sé allur af vilja gerður að segja satt. Ég tel réttara, að sýslan borgaði þetta ein.

Ég verð að segja það, að eins og ástatt er í þeirri sýslu, sem ég er í, tel ég lög þessi ekki nauðsynleg. Þar hefur verið komið á samþykkt, sem menn hafa unað vel við. Ráðh. staðfesti samþykktina, og eitrun hefur farið fram og þar með eyðing fuglsins með góðum árangri innan endimarka sýslunnar. En mér er sagt, að í næstu sýslu hafi borið meira á svartbak á síðustu árum, heldur en hann hafi minnkað, jafnvel þótt lagt hafi verið til höfuðs honum. (Forsrh.: Sumir sýslumenn neita að ganga frá reglugerð.) Ég er að koma að því: Ég sagði, að ég gæti unað við það, sem er, vegna framkvæmda í mínu héraði. En í nágrannasýslunni er tafið fyrir því, að samþykkt sé gerð um eitrun; vargfuglavarpið helzt þar við, og síðan flýgur fuglinn yfir til okkar, svo að eitrunin nær ekki að því leyti fullum tilgangi. Af þeirri ástæðu verð ég að vera með þessu frv. og tel, að það væri gagn, jafnvel í þeim héruðum, sem þegar hafa samþykktir hjá sér, því að samkv. því eru allir skyldir til að fara í herferð móti fuglinum, en nú ala sumir upp, en aðrir eitra. Af þessari orsök er það rétt, sem hv. frsm. sagði, að fuglinum virðist fjölga, þótt lög væru til um að eyða honum. En það kemur fram á þennan hátt, þegar sumir leggja kapp á að koma fuglinum upp, enda líka góðæri undanfarið; svo að varpið og uppeldi unga hefur gengið vel hjá fuglinum.

Áður en lögin frá 1936 voru sett, var mikið umtal heima hjá mér í héraði, hvernig ætti að bjarga varpinu. Var talað um að byrja á því, sem áður var gert, því að milli 1880 og 1890 var stofnað svokallað Vargafélag til þess að eyða vargfugli með skotum. En almenningur leit svo á nú, að þetta væri ógerningur og menn fengjust ekki til þess, og því þýðingarlaust að stofna slíkan félagsskap. Þess vegna var tekið það ráð að viðhafa eitrun. Það getur verið, að vargi þessum hafi fjölgað, síðan hætt var að eitra fyrir refi, eins og viða var gert áður. En þar, sem eitrun fyrir svartbak hefur verið tekin upp, þar sýna verkin merkin, með því að fuglinn liggur í hrúgum kringum hin eitruðu egg. En um hættuna, sem af eitrinu á að stafa, er það að segja, að það hefur nú þessi árin frá 1931 verið eitrað alls staðar þar, sem varp er í Dalasýslu úti um eyjar, og jafnvel eitthvað í landi, og hvergi nokkurs staðar orðið að nokkrum skaða á mönnum .eða skepnum eða öðrum fuglum en vargfuglum. Ég veit ekki til þess, að örn hafi nokkurn tíma orðið fyrir fjörtjóni, enda lifir hann mest á fiski, sem hann tekur. Ég held satt að segja, að allt of mikið sé gert úr þessari hættu af eitrun. Enda var búnaðarþingið, þar sem menn eru af öllu landinu, á allt öðru máli en að hér væri um hættu að ræða. Þar var samþ., að mig minnir með öllum atkv., að skora á Alþingi að lögbjóða eitrun í umflotnum hólmum og eyjum. Það getur verið heldur hættulegra á landi, en á þeim stöðum, sem aðrar skepnur ganga lítið um, tel ég enga hættu. Ég verð að segja, að hv. frsm. hefur stundum verið rökfastari heldur en þegar hann kom að því efni. Hann sagði meðal annars, að hrafninn væri það gáfaður, að hann þekkti, hvort eitur væri í ætinu (egginu) eða ekki; en þó taldi hann eina af hættunum, að hrafninn tæki eitruð egg og flygi með þau um heima og geima, léti þau síðan falla niður þar, sem aðrar skepnur færu um, og gætu eggin þá orðið þeim að tjóni.

Ég verð að segja, að þeir, sem þekkja framferði svartbaksins, eru yfirleitt ekki í vafa um, að hann eigi ekki rétt á sér og sjálfsagt sé að farga honum, náttúrlega á eins mannúðlegan hátt eins og hægt er. En ég vil segja, eins og hæstv. ráðh., að það er ekki mannúðlegra að vængbrjóta fugla með skotum og sjá þá síðan þvælast í flæðarmálinu dag eftir dag eða viku eftir viku heldur en þótt einnar mínútu krampateygjur svipti þá lífinu. Það hafa orðið ótrúlega mikil brögð að því, hvernig þessi fugl ræðst á æðarunga í Breiðafjarðareyjum, og þar með á þennan skemmtilega atvinnuveg, dúnræktina, sem ætti að stunda meira hér á landi en gert er. Svo hefur sagt bóndinn í Hrappsey, sem er ein af stærri dúneyjum, að eitt sumar sá hann komast til vaxtar aðeins tvo æðarunga, og í Langey var mér sagt, að bóndinn hefði ekki séð nema einn æðarunga komast upp það sumar. Þessir bændur horfðu á veiðibjölluna sitja um, þegar æðarfuglinn kom með ungana niður í flæðarmál, og tína þá upp hér um bil jafnóðum og þeir komu út á vatnið.

Svo er annar atvinnuvegur, sem veiðibjallan heggur skarð í, en það er laxveiðin. Það hefur verið lögð stund á að koma upp lax- og silungsveiði í ám; en meðan fjöldi svartbaka er við árósana og tínir upp smálaxinn og silunginn, þá truflar þetta veiðina geysimikið. Og ég sé ekki, hvaða hugsun ýmsir hv. þm. eru gripnir, að vilja endilega vægja sem mest þessum vargfugli og banna mönnum varnartæki til að vernda framleiðslu sína gegn hættulegum ágangi og drápi hans. Sannast að segja er það svo í þessu landi, að það veitir ekki af að styðja hverja nytsama framleiðslu, afurðirnar eru ekki svo miklar, a. m. k. þær, sem sveitirnar gefa af sér. Það hlýtur að vera einhver meira en lítill misskilningur á bak við hjá hv. allshn., að hún ber fram þessa rökstuddu dagskrá, sem virðist fela í sér bendingu til stj. að afturkalla staðfestingu á reglugerðum um eitrun fyrir þennan varg, sem leggst með svo grimmilegum hætti á framleiðslu landsmanna. Enn er það ótalið, að um allt land kveður meira og minna að því, að svartbakurinn ráðist á lömb, jafnvel stálpuð, og kvelur þau og drepur með því að rekja úr þeim garnirnar. Meira að segja veit ég, að sumir af þeim, sem hér sitja á þingbekkjum, hafa orðið á sínu fé fyrir erfiðum búsifjum af þeim fugli.

Að lokum þetta: Ég vildi gjarnan, að þessu frv. yrði ofurlítið breytt og síðan samþ.