04.06.1941
Efri deild: 71. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

134. mál, eyðing svartbaks

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er nú kannske að bera í bakkafullan lækinn að ræða meira um þetta mál. Ég skal undirstrika, að hv. frsm. n. hefur gert ýtarlega grein fyrir afstöðu hennar til málsins almennt. Það er svo um þetta mál eins og sum önnur, þó að það sé ekki mjög stórt, að það er til nokkuð, sem heitir „princip“, sem menn geta lengi togazt á um. Mér er fyllilega ljóst, að um þetta mál eru nokkur átök, og ef til vill verður allshn. í einhverjum minni hl. í hv. d., þar sem á móti stendur hæstv. forsrh., sem líka er landbrh., og hv. 5. landsk., sem sækir þetta mál nokkuð fast, þótt á annan hátt sé.

Ég get ekki að því gert að minnast nokkuð á forsögu málsins. Ég held, að þetta mál hafi verið fyrst sýnt á þinginu 1935, af hv. þm. Dal. Eins og allir muna, var í frv. — fleiri en einni gr. — ákveðin eitrun. Í stuttu máli urðu móttökur þm. þær, að málið dagaði uppi í Nd. við 1. umr. Og það er alveg tvímælalaust, að málið fékk ekki meiri byr fyrir þessa eitrun, sem þm. voru á móti. Og hvað skeði svo? Ég hygg, að hv. þm. Dal. hafi lært það ef reynslunni, að ekki var hyggilegt að bera málið fram í svipuðu formi og áður, því að árið eftir kemur hann með frv., og var nú engin eitrun á ferð. Útkoman varð sú, að Alþ. féllst á það frv. eins og það lá fyrir. Nú skal þess getið, að ef til vill þótti mörgum þm. ekki nógu ljóst kveðið á um, hvaða aðferð skyldi nota við eyðingu svartbaks. Þetta kom sérstaklega fram í Nd., því að tveir eða þrír þm. vilja setja í frv., að eitrun skuli bönnuð. En samkv. umr., sem þá fóru fram, er ekki talið nauðsynlegt að setja þetta ákvæði inn í l., vegna þess að eitrun sé þar hvergi leyfð. 8. landsk. þm. þáverandi, Sigurður Einarsson, sagði að síðustu: „Ég skal viðurkenna, að óþarfi er að vera að slást á móti þessu; það er hvergi nefnd eitrun í frv., svo að það er tómt mál að vera að tala um þetta atriði.“ Að mínu viti fer svo frv. gegnum þingið, að eitrun er ekki leyfð.

Nú kem ég að því atriði, að ég vildi óska, að hæstv. landbrh. mætti vera að koma úr hliðarherbergi og hlýða á mitt mál. Ég vildi gjarnan beina fyrirspurn til hans, og þá um leið til hv. 5. landsk., sem er sýslumaður. Ég hef lítillega lýst því, að þingið gengur svo frá málinu 1936, að af hálfu þm. er talið, að ekki sé leyfð eitrun samkv. frv., sem samþ. var þá. En svo er gefin út reglugerð í febrúar 1937, og er sú í 3 greinum. Segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Svartbak má einnig eyða með eitri.“ Það stendur síðar í reglugerðinni, að hún sé samin af sýslunefnd Dalasýslu, — og sennilega þá hv. 5. landsk. Nú vil ég spyrja þessa lögfræðinga: Er heimilt að setja það ákvæði í reglugerð, sem ekki á stoð í lögunum sjálfum, sem reglugerðin er byggð á? Mér hefur sagt prófessor við Háskóla Íslands, að það sé ekki hægt að setja ákvæði í reglugerð, sem ekki hefur stoð í l. Ef ætlun mín skyldi reynast rétt, að eitrunin hefði ekki stoð í l. frá 1936, þá er það ólöglega gert að eyða svartbaknum með eitri. Hæstv. ráðh. segir, að þetta hafi verið gert um áratugi. Ef svo er, þá hefur það sennilega verið gert án allrar lagaheimildar. Ef ég man rétt, þá var aðeins heimilt að eyða refum með eitri. (Forsrh.: Má ég gera fyrirspurn? Í hvaða l. er það bannað?) Hvort það á að byggja á því „negatíva“ í lögum eða því „pósitíva“, því verða lögfræðingarnir að svara. Ég hélt, að það yrði að vera eitthvað „pósitívt“ í lögum til þess að hægt væri að byggja á þeim reglugerð; en náttúrlega gefa lögfræðingarnir sínar skýringar, og það er þá gott fyrir eftirkomendurna að heyra svörin.

Það hefur nú ærið margt verið talað um skaðsemi svartbaksins, og ber ég ekki brigður á það. En bæði hv. þm. Dal. og deildin yfirleitt taldi árið 1936 alveg nægilegt að eyða honum með skotum og öðru, sem menn telja ekki mjög ómannúðlegar aðferðir. En nú er því haldið fram, að skotin komi ekki að notum, en þó sagði hv. þm. áðan, að menn gerðu mikið að því að skjóta þennan fugl, af því að hann væri tilvalið refafóður. Þetta skil ég mætavel. (ÞÞ: Ekki, að þeir gerðu mikið að því að skjóta, heldur skjóta þeir fuglinn aðeins til refafóðurs.)

Nú hefur það skeð í nágrannasýslu við þennan hv. þm., samkv. því, sem ráðh. upplýsti, að sýslumaður neitar að setja samþykkt eða reglugerð samhljóða þeirri, sem gildir í Dalasýslu. Af hverju? Finnur hann ekki stoð í l., eða er það af mannúðarhugsun? Það kunna að verða fleiri sýslumenn, sem hugsa líkt. Og svo segir hæstv. forsrh. bara: Við lögbjóðum þessum trúnaðarmönnum þjóðfélagsins og skipum þeim, að þeir skuli eitra.

Árið 1936 er leitað umsagnar stjórnar Náttúrufræðifélagsins um frv., sem telur þetta ómannúðlegt og hættulegt öðrum dýrum, eins og erni og val, af þeim fuglum, sem eru friðaðir. Og dr. Finnur Guðmundsson, sem hefur verið við þetta riðinn, kemst þannig að orði, þegar hann talar um eitrun, með leyfi hæstv. forseta: „Ég álít, að ekki komi til mála að slaka nokkuð til á friðun þeirra (þ. e. arnarins og fálkans) fyrst um sinn, enda eru þessar tegundir víðast á landinu orðnar svo sjaldgæfar, að tjón af þeirra völdum hlýtur að vera hverfandi.“ En það er ekki upplýst nema slík eitrun þýði það að eyða val og erni. Og það er ekki langt síðan talið var af náttúrufræðingum, að tíu arnarhjón væru til í landinu. Hitt vitum við líka, að þegar eitrað var í heilum byggðarlögum, eyddust svo hundarnir, að vart var til smalahundur á nokkrum bæ á heilum svæðum. Kettir eru nú kannske ekki eins nauðsynleg húsdýr, en þeir eyddust mjög mikið líka. Ég hygg, að það hafi dregið mjög úr því, að eitrað væri fyrir refi, að svo nauðsynleg húsdýr sem hundarnir eru hrundu niður af eitrinu. Þegar nú um er að ræða, að Alþ. fyrirskipi að eyða fuglategund einni með eitri, þá er ég ekki svo fróður, að ég geti fullyrt, hvort komið geti til greina, að örn og valur eða jafnvel svanir verði fyrir líftjóni með því að snerta við þessu eitri. En mér virðist ekki ómögulegt, að svo geti farið, að verið sé með þessari eitrun að taka með annarri hendinni það, sem gefið er með hinni. Þetta vildi ég, að kæmi fram frá mínu sjónarmiði. Og ég verð að vitna í stj. Náttúrufræðifélagsins frá 1936, sem var þessu algerlega mótfallin. Nú upplýsir hæstv. ráðh. að vísu, að stjórn þessa sama félags sé búin að skipta um skoðun. Ég er ekki nógu fróður til þess að geta rökrætt við þessa háu herra. En ég vil benda hv. dm. á annað, sem er þessu skylt. Hér á árunum var af þáverandi dýralækni landsins, Magnúsi Einarssyni, mótmælt að flytja inn erlenda hrúta. Hann lagði mikinn þunga á sínum tíma á þetta atriðl. Og svo eru það nýir menn, sem koma og segja: „Það er ekkert í veginum að drepa svartbakinn á eitri.“ Þetta segja þessir vísu menn, þó að Bjarni Sæmundsson legði fast á móti því. Ég veit ekki, hvort þetta eru meiri vísindamenn en Bjarni Sæmundsson. Svona getur þetta stangazt aftur og fram, en ég hygg, að reynslan verði sú, að hinir nýju fræðimenn verði ekki betri en hinir eldri.

Það hefur nokkuð verið gerð grein fyrir því, hvað það er raunverulega, sem veldur minni dúntekju. Hún er athyglisverð greinin, sem Jónas í Öxney skrifaði um þetta mál í Tímann fyrir nokkru. Þar talaði bóndinn af reynslunni. Ástæðan er minni umhirða um varpið en áður var. Ég var hér fyrir skömmu að lesa í æviminningum eftir einn merkisprest um það, hvernig honum tókst að skapa og auka æðarvarp. Ætli það hafi ekki þá verið til veiðibjalla eins og nú? Nei, það er umhyggjan, sem gerði það að verkum, að það gat þrifizt. Svo er líka hitt, sem dr. Finnur kemur réttilega inn á, að árferði hefur mikil áhrif á dúntekjuna. Árið 1928 er hæsta ár um 40 ára skeið í dúntekju, hvað sem hefur valdið því.

Þetta er svo illa upplýst mál, þrátt fyrir þessa vísindalegu ritgerð, að raunar finn ég mig ekki mann til þess að greiða atkv. um það, hvort fara skal inn þá braut að eyða svartbaknum með eitri. Það liggur ekkert fyrir, sem sannar það, að fuglinn kveljist ekki. Enn fremur er það óupplýst, hvort hræ af skepnu, sem hefur drepizt af eitri, geti ekki orðið öðrum að tjóni. Því hefur verið kastað fram, að það sé meira að segja engin hætta að éta þetta eitraða kjöt. Ég vissi þess dæmi, þegar eitrað var með þessu sama eitri fyrir refi, að þá komust hross í það og drápust af því. Svo að þau rök, sem fram eru borin hér, að það sé nú sannað mál, að þetta sé ekkert hættulegt, eru enn þá léttvæg í mínum augum. Það er líka óupplýst, hvað okkur tekst að útrýma miklu af svartbak með eitri.

Þetta, sem ég nú hef fram tekið, eru meginrökin fyrir því, að ég er andvígur því að útrýma svartbaknum með eitrun. Og þetta er nokkurn veginn í samræmi við mína afstöðu 1936. Ég er líka með einni undantekningu í samræmi við alla mína flokksmenn, þó þetta mál sé ekki flokksmál. Það hefur einhvern veginn viljað svo til, að þeir hafa allir hallazt á móti þessari aðferð við eyðingu dýra og hallast að öðrum mannúðlegri aðferðum. Dýraverndunarfélagið segir, að þessi aðferð sé ekki samboðin okkar siðmenningu. Og ég veit ekki betur en Dýraverndunarfélag Íslands hafi sýnt það í verki, að það sé félag, sem óhætt sé að taka fullt tillit til í þessum málum. Fyrir n. hefur legið bréf um þetta mál frá þessu félagi, og n. getur ekki annað en gert þessi orð að sínum, hvað svo sem líður hagsmunum einstakra kjördæma, hvort heldur það er kjördæmi hæstv. forsrh. eða önnur. Mér er sagt, að úr þessu kjördæmi sé það sótt mjög fast að koma þessu máli fram. Og reynslan er sú, að þessi kjördæmamál eru einhver þau erfiðustu og viðkvæmustu, sem menn geta talað um. Það er eins og dómgreind manna sljóvgist, þegar um slík mál er að ræða.