10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

134. mál, eyðing svartbaks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal vera stuttorður um þetta mál eins og endranær. Ég get tekið það fram, að allshn. hafði rætt við mig um þessar brtt., sem hér liggja fyrir. Við 2. umr. lýsti ég því yfir, að ég teldi verðlaunin fyrir það að drepa hvern svartbakinn of há, og eins, að ekki væri heppilega skipt niður greiðslunni fyrir að skjóta svartbakinn. Úr þessu hefur hv. allshn. bætt með 1. og 4. till. á þskj. 697, og get ég vel unað við þá úrlausn, enda var það gert í samráði við mig. Um 3. till. vil ég segja það, eins og hv. frsm. tók fram, að hún er alveg sjálfsögð, og þarf ekki að orðlengja um hana. Um 2. brtt. vil ég segja það, að ég álít, að þetta innskot, sem þar er sett, verði yfirleitt til óþæginda og erfiðleika, ef það næði fram að ganga. Ég álít nauðsynlegt að hafa hreint og beint boð eða skipun um það frá löggjafanum að eyða svartbaknum í varplöndunum, því að það er náttúrlega unnið fyrir gíg, þó að einstakir menn fari að eyða svartbaknum í sínum löndum, ef aðrir menn ala hann upp í varplöndum sínum. Ég verð að lýsa því yfir, að ég er andvígur 2. brtt. n., af því að ég tel, að hún sé til skaða fyrir frv. En ég hef þegar gefið yfirlýsingu (við 2. umr.) um það, að ég tel 1. og 4. brtt. til bóta, og tel nauðsynlegt að fá þær fram, og þess vegna verð ég að fylgja þeim við atkvgr., og einnig þeirri 3., sem er sjálfsögð brtt.