13.03.1941
Sameinað þing: 5. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

Slysfarir á sjó - sjómannaminning

forseti (HG):

Mikil tíðindi og voveifleg hafa gerzt síðustu vikur og daga. Þá 26 daga, sem liðnir eru síðan Alþingi hófst, hafa 40 manns farizt í sjó, auk 10 manna, er drukknað hafa fyrr á árinu, og annarra slysfara. En 53 sjómenn fórust síðastl. ár, og er sú tala stórum hærri en meðaltal undanfarinna ára.

Skýrsla Slysavarnafélags Íslands um manntjón á sjó síðan Alþingi hófst er á þessa leið :

Febr. 19. Tók stórsjór út 3 menn af m.b.

„Hjördís“ frá Ísafirði, 2 drukknuðu.

Febr. 27. Fórst m.b. „Hjörtur Pétursson“ frá Siglufirði með öllu, og drukknuðu þar 6 menn. Febr. 28. Fórst b.v. „Gullfoss“ með öllu, og drukknuðu þar 19 menn.

Marz 6. Fórst opinn bátur í brimlendingu í Vík í Mýrdal með 7 mönnum. Einn bjargaðist, 6 drukknuðu.

Marz 7. Fórst einn maður af m.b. „Olga“ frá Vestmannaeyjum, er sigldur var í kaf af ljóslausi skipi.

Marz 11. E.s. „Fróði“ varð fyrir árás þýzks kafbáts, að því er talið er, 180 sjómílur vestur af Vestmannaeyjum. 5 skipverjar af 11 voru skotnir til bana, einn særður. Hinir björguðust á bátnum til Vestmannaeyja.

Enn fremur féll Þórarinn Pálsson í marzmánuði út af flutningaskipi á leið frá Englandi til Íslands. Náðist líkið og var flutt til Vestmannaeyja.

Skýrslan er stutt og gagnorð. En hún greinir frá ægilegri baráttu. Baráttu hraustra manna við skynlaus máttarvöld lofts og lagar. Baráttu, sem er einn þáttur í daglegri starfsemi sjómannanna okkar. Oftast lánast þeim með hugprýði og karlmennsku að vinna sigur. Hverja þrekraun þeir sigrar kosta, veit sá einn, sem reynir. En oft, of oft, megnar enginn mannlegur máttur að afstýra slysum og líftjóni. Svo hefur farið nú.

Sjómennirnir okkar eru títt nefndir stríðsmenn íslenzku þjóðarinnar. Vissulega heyja þeir stríð. Ekki við aðrar þjóðir til tortímingar lífi og eignum. Þeir berjast við náttúruöflin fyrir björg og brauði. Sjórinn er örlátur og stórgjöfull, þegar vasklega er eftir sótt. En hann er líka ósjaldan stórhöggur.

„Mik hefir marr

miklu ræntan,

grimmt es fall

frænda at telja“

Svo kvað Egill. Og ótaldir eru þeir Íslendingur, sem eins hefðu mátt mæla öll þau ár, sem siðan eru liðin. Og íslenzka þjóðin öll finnur „opið og ófullt standa sonarskarð“, er særinn vann henni nú.

Íslenzku stríðsmennirnir, sjómennirnir, hafa eigi stundað mannvíg. Þeir hafa stundað mannbjörg. Mörgum hundruðum mannslífa hafa þeir bjargað, síðan styrjöldin hófst. Báðir ófriðaraðilar hafa þann veg notið hjálpfýsi þeirra, áræðis og öruggrar sjómennsku. Er því þungt til þess að hugsa, að til viðbótar ógnum vatns og vinda eru nú komnar ógnir vopna og vítisvéla. Öflin, sem styrjöldinni valda og ráða því, hversu hún er háð, virðast okkur því nær jafnskynlaus og hin blindu öfl náttúrunnar, jafngrimmlynd og gersneydd mannlegum tilfinningum.

Þess er skammt að minnast, að íslenzkir sjómenn björguðu sem tugum þýzkra skipbrotsmanna norður í hafi. Nú hafa útlendir — að því er talið er, þýzkir — sjóliðar skotið á varnarlaust fiskiskip íslenzkt, því nær í heimahöfum, grandað 5 af sjómönnum og laskað skipið svo, að tvísýnt mátti telja um líf og björgun hinna. Vígahrammur styrjaldarinnar hefur þegar seilzt til okkar. Við höfum nú orðið að greiða vopnaskattinn fyrsta. Hann féll á sjómennina ofan á skattinn til Ægis.

Orð eru fánýt. Við fáum lítið að gert. Tjón þjóðarinnar verður ekki metið í tölum né bætt manngjöldum. Hún hefur goldið mikið afhroð. Mennirnir, líf þeirra og starf, er hennar dýrasta eign. Og þó er missirinn stærstur og sárastur fyrir fjölskyldur og ástvini:

„Sleit marr bönd

minnar ættar

snaran þátt

af sjálfum mér“

Feður og mæður, sem hafa látið sonu sína, konur og börn, sem hafa misst menn og feður, hafa ekki aðeins verið svipt ástvinum og fyrirvinnu. Þau hafa misst snaran þátt úr sínu eigin lífi, verið lostin harmi- og hugraun eins og skáldið forðum við sonarmissinn.

Við hryggjumst með þeim og vottum þeim okkar innilegustu hluttekningu.

Að svo mæltu bið ég háttvirta þingmenn að minnast hinna látnu sjómanna með því að rísa úr sætum.

[Allir þm. stóðu upp.]

V. Minning Þorleifs Guðmundssonar.

Á 24. fundi í Sþ., 6. júní, áður en gengið væri til dagskrár, mælti