09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (12)

1. mál, hervernd Íslands

Héðinn Valdimarsson:

Ég skil, að hv. ríkisstj. hefur haft erfiða aðstöðu, þegar svars var krafizt svo fljótt um svo mikilvægt mál sem þetta er. Ég hélt því fram, að tímann bæri að nota þannig, að Ísland kæmi úr stríðinu óháð öllum, og það gerði síðasta Alþ. í raun og veru. En hitt vildi ríkisstjórnin ekki taka gott og gilt, að hlutleysisyfirlýsingin frá 1918 væri nóg, En hún var nógu gild. Það, sem nú aftur á móti hefur gerzt, er röskun á jafnvægi í heiminum, og menn sjá af reynslu, að yfirlýsing lítillar þjóðar um hlutleysi er ekki tekin gild.

Ísland hefur ekki óskað eftir hervernd, en við verðum að haga okkur eftir heiminum eins og hann er í kringum okkur. Ég álít því, að ríkisstj. hafi tekið þann kostinn, er vænstur var. — Eins og lýst hefur verið í r æðum á undan, þá er okkur tryggð hervernd stórveldis, og ef við eigum ekki að lenda undir járnhælnum, þá er þetta eina ráðið. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh., hvort ekki muni eitthvað losna um innflutningshömlur þær, sem verið hafa í sambandi við brezku samningana, og hvort ekki verði auðveldara að afla dollara. (Forsrh.: Þetta er tekið fram í skilyrðunum.) Það er rétt, en ég hélt, að ef til vill héldist sama ástandið eitthvað áfram.

Svo er annað atriði, að nú hlýtur að stríðinu loknu að tryggjast vinsamlegt samband í alþjóðatengslum með þessum samningum. Munurinn á því, að Bandaríkin taka við Íslandi, er aðeins sá, að þau eru raunverulega ekki í stríði við Þjóðverja, en þau leggja til hergögn í þarfir Breta og bandamanna þeirra, og ég hygg, að með komu Bandaríkjahers, þá verði árásahættan ekki minni, heldur meiri, því Þjóðverjar hafa lýst okkur á hernaðarsvæði og þeir hafa sýnt, að þeir muni engu hlífa. Sjómenn okkar hafa verið myrtir af völdum hins grimmúðlega kafbátahernaðar, þegar þeir hafa verið að heyja baráttuna fyrir lífi þjóðar sinnar. Þjóðverjar hafa enn fremur lýst yfir, að þeir þoli enga samninga milli Íslands og Bandaríkjanna, og við getum því búizt við aukinni hættu. En hvernig sem það er, þá höfum við nú þá vernd, sem við þurfum, og ég vona, að við fáum haldið menningu okkar, siðum og tungu og göngum með óskertan hlut frá borði í þeim hildarleik, sem nú er háður. Ég hef svo ekki meira um þetta að segja, en það er Monroe-kenningin, sem hefur teygt sig hingað til landsins okkar. Ég mun, er þar að kemur, greiða atkvæði með þessari ráðstöfun.