09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (14)

1. mál, hervernd Íslands

Pétur Ottesen:

Á þessum fundi liggur fyrir till. til þál. um það, að Alþ. fallist á það samkomulag, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert við forseta Bandaríkja Norður-Ameríku um það, að Bandaríkjunum sé falin hervernd Íslands, meðan núverandi styrjöld stendur. Og í grg. fyrir þessari þáltill. eru svo tekin upp þau atriði, sem farið hafa á milli ríkisstj. og forseta Bandaríkjanna, auk þess sem upp í þessa grg. er tekið sem fylgiskjal það, sem farið hefur á milli ríkisstj. Íslands og sendiherra ensku stj. hér á landi í sambandi við þetta mál.

Út af þessari þáltill. og þeim samningi, sem hér hefur verið gerður, með mjög óvenjulegum hætti á mælikvarða okkar Íslendinga og engan veginn í samræmi við það stjórnskipulag, sem við búum við hér í þessu landi, þá vildi ég segja nokkur orð um þetta mál, áður en það kemur til endanlegrar atkvgr., sem eftir öllum málavöxtum verður væntanlega áður en langt um liður.

Ég verð að segja það, að mér virðist ákaflega alvarlegt og stórt spor stigið, þegar horfið er frá hlutleysisstefnu þeirri, sem við höfum fylgt, og í stað þess að mótmæla harðlega hertöku landsins, eins og gert var, þegar Bretar komu hingað í þeim erindum, að hver fa nú að því að fela öðru herveldi hervernd hér á landi. Ég verð að segja, að það er ekkert að undra, þótt slík stefnubreyt., sem verður til á rúmum hálfum mánuði, komi nokkru róti á hugi manna. Það er ekkert að undra, þó að menn staldri við og þurfi dálítinn tíma til þess að gera sér grein fyrir því, hvað hér sé í raun og veru að gerast. Gera sér grein fyrir því, hvaða breyt. hefur hér orðið á viðhorfinu á þessum stutta tíma og hvert sé stefnt. Það er ekkert að undra, þó að menn leiði hugann að því, hvað geti verið rétt í þessum málum og hvað rangt, og hvað það geti verið, sem hér er um að ræða. Sjálfstæðisþrá Íslendinga og sjálfstæðishugsun þeirra er frá öndverðu byggð upp á því að sýna í allri sinni ráðabreytni og viðskiptum við aðrar þjóðir algert hlutleysi og afskiptaleysi af þeirra högum öllum. Þetta er vitanlega gert í vændum þess, að þá komi okkur til handa sams konar aðstaða frá öðrum þjóðum, sem nærri okkur standa og við þurfum að hafa mök við og viðskipti. 1918, þegar Íslendingar fengu viðurkenningu á sjálfstæði sínu, var það yfirlýsing Íslendinga út um gervallan heim, að þeir lýstu yfir ævarandi hlutleysi. Þetta hefur verið lítið á sem eiginlega þann eina styrk fyrir þessa þjóð, sem ber engin vopn, þann eina styrk okkar í viðskiptum og sambúð við aðrar þjóðir. Að sama brunni bar, þegar England fór fram á það eigi alllöngu eftir að stríðið skall á, að Íslendingar leituðu til þeirra og óskuðu eftir hervernd af þeirra hálfu. Þetta bar að á þeim tíma, sem Alþ. sat, og var það mjög eindreginn og sameiginlegur vilji Alþingis og ríkisstj. að vísa alveg gersamlega á bug öllum tilmælum, sem gengu í þessa átt. Það var sem sé ná, eins og 1918, litið á hlutleysi af okkar hálfu sem okkar eina styrk í viðskiptum við aðrar þjóðir.

Þegar svo Englendingar gerðu herferð til landsins og hertóku það, þá fylgdi ríkisstj. mjög fram þeirri ákvörðun, sem Alþ. fyrr og síðar hefur tekið í þessu efni, og mótmælti harðlega hernámi landsins. Slíkt hið sama má segja, að fram kæmi í sambandi við svipaðar óskir annars herveldis, er ríkisstjórninni höfðu borizt og til umræðu komu á síðasta þingi, að þetta mál átti engan hljómgrunn frekar en verið hefur að undanförnu.

Nú virtist það vera svo, að Englendingar, sem hertóku landið og fengu þessar viðtökur hjá ríkisstj., skildu ákaflega vel þessa aðstöðu Íslendinga. Þeir skildu það, að þetta var einasta vopn þessarar fámennu og varnarlausu þjóðar, að lýsa yfir hlutleysi sínu og algerðu þátttökuleysi í þeim hildarleik, sem þá var hafinn og háður hefur verið síðan. Íslendingar hafa því ekki viljað gera upp á milli stríðsaðila og óskað þess eins að vera út af fyrir sig í friði fyrir allri ágengni og áreitni af þeirra hálfu, hverjir sem þeir voru. Það verður ekki annað sagt en að Englendingar hafi sýnt fullan skilning á þessari aðstöðu íslenzku þjóðarinnar. Og þeim væri gert rangt til, ef sagt væri, að þeir hefðu í nokkru látið þessa afstöðu ríkisstj. bitna á okkur í þeim viðskiptum, sem við höfum við þá átt síðan, bæði á verzlunarsviðinu og líka í þeirri sambúð, sem við höfum við Brezka setuliðið í landinu. Það er að vísu svo, að við hefðum að ýmsu leyti kosið verzlunarsamninga við þá á annan veg og okkur hagkvæmari en raun varð á. Og hið sama er í rauninni að segja um ýmsa liði í framkvæmdum þessara samninga. T.d. hefur sá seinagangur, sem hefur verið á uppfylling sumra samningsatriða, verið okkur mjög bagalegur. En þegar lítið er til þess ástands, sem við vorum í, og þeirrar nauðsynjar, sem var fyrir hendi um það, að samningar tækjust einmitt við England um verzlun og viðskipti, þá er ekki hægt annað að segja en að þetta hafi til þessa farið úr hendi eins og vænta mátti eftir öllum atvikum. Það hefur að vísu í framkvæmd þessara samninga verið bagalegur seinagangur á ýmsum hlutum. En þegar litið er til þess, í hvað mörg horn Englendingar þurfa að líta og við hvað þeir eiga að etja, þá verður engan veginn annað sagt en að frá okkar hálfu megi eftir atvikum telja sæmilega við unandi. Þetta vildi ég nú láta koma fram hér í sambandi við það, sem gerðist að því er snertir mótmæli Íslendinga gegn því, að erlent hervald settist að í þessu landi og gerði hér hernaðarráðstafanir, tæki þannig landið að þessu leyti til sinna afnota.

Þessu næst er að athuga það, hvers vegna við Íslendingar viljum endilega kosta kapps um það að halda uppi sem okkar varnarmerki hlutleysisstefnunni. Hvers vegna höfum við Íslendingar litið á hlutleysisyfirlýsinguna í raun og veru sem hyrningarstein og grundvöll undir sjálfstæði þjóðarinnar? Og hvers vegna er það, sem við mótmælum hertökunni á sínum tíma? Það var vitanlega af því, að Íslendingar litu svo á, að með því að erlendur her sezt að hér á landi og notar landið í þarfir hernaðarframkvæmda, dragast Íslendingar nær stríðinu heldur en annars hefði verið, og að þetta fæli í sér aukna hættu fyrir því, að Íslendingar yrðu fyrir barðinu á þeim hernaðarátökum, sem háð eru hér allt í. kringum okkur, á landi, á sjó og í lofti. Við höfum þá sem sé ekki misst trúna á eitt af frumskilyrðum sjálfstæðis íslenzku þjóðarinnar, en það er hlutleysið.

En nú er það komið á daginn, að straumhvörf hafa orðið í þessu efni, og bera þeir samningar, sem hér liggja fyrir af ríkisstj. hálfu, ljósan vott um það. Þetta ber þannig að, að ríkisstj. berst sá vandi að höndum að verða, að því er virðist með sáralitlum fyrirvara, að taka fullnaðarákvörðun, — ákvörðun, sem fellur á þá lund, að ríkisstj. telur sig tilneydda að falla frá sinni eigin stefnu í þessu máli og þeirri bjargföstu stefnu þessarar þjóðar, sem við höfum fylgt að undanförnu og alveg fram á síðustu stund. Og ég verð að segja, að ég get ekki litið öðruvísi á en að þessi skyndilegu straumhvörf, sem hér hafa gerzt, séu skýr bending um mikilvægi þessa máls og ekki síður um það, hversu ríkt hafi verið gengið eftir alveg skýrum, ótvíræðum og afdráttarlausum svörum af hendi ríkisstj., þar sem ríkisstj. virðist ekki gefast tími til þess að byggja þessi svör sín á þeim lýðræðisgrundvelli, sem allt okkar fyrirkomulag og stjórnskipulag er byggt á. Fyrst núna eftir á getur ríkisstjórnin leitað samþykkis Alþingis í þessu máli, og ætla ég, að þetta sé í fyrsta skipti í stjórnarfarssögu okkar Íslendinga, sem svo mikilsvert mál ber þannig að.

Nú vil ég taka það fram mjög skýrt, og þá meðal annars í tilefni af ummælum, sem féllu hér áðan, að okkur stuðningsmönnum ríkisstj. dettur vitanlega engan veginn í hug, að hún hafi gert annað í þessu máli en það, sem henni, innan þeirra þröngu takmarka, sem henni voru sett, leizt ráðlegast og þörf landsins krafðist eins og ástatt var. Mér dettur ekki í hug að bera neinar brigður á, að það hafi verið fullkomin sannfæring ríkisstj., að þetta val hennar hafi verið það eina ráðlega eftir atvikum, til þess að forðast aðra meiri hættu, sem gæti að okkur steðjað, og að því er virðist hefur verið augljóst, að mundi að okkur steðja. Með þessu er þó engan veginn um það sagt, hvort hæstv. ríkisstj. hefur raunverulega ratað réttu leiðina og tekið þann kostinn, sem var líklegastur eins og ástatt var til lífsframdráttar fyrir þessa þjóð, sem nú heyir sína erfiðu baráttu inni í hringiðu þeirra stórkostlegu hernaðarátaka, sem eru nú að gerast á nóttu og degi hér allt í kringum strendur þessa lands. Það er alls ekki víst. Það er mín skoðun, að fráhvarf frá hlutleysisstefnunni er okkur undir öllum kringumstæðum óhagstætt og stórhnekkir fyrir litla og vopnlausa þjóð, sem í framtíðinni verður að byggja sjálfstæði sitt á því, að sú stefna sé í heiðri höfð.

Ég vil hins vegar engan veginn neita því, að þær aðstæður hafa verið hér nú, er ríkisstjórnin tók þessa ef til vill örlagaríku ákvörðun, að nauðsyn hefur brotið lög í þessu efni, að svo hart hafi verið knúið á okkar bæjardyr og ríkt og ósveigjanlega eftir gengið, að svörin féllu á þennan en ekki annan veg, að þetta hafi orðið að gera af lífsnauðsyn, til að bægja frá okkur bráðri hættu, sem eftir því, sem atvikin nú lágu til, varð eigi með öðru móti gert.

Hins vegar er sjálfsagt, að við leitumst við að gera okkur sem ljósasta grein fyrir því, hver aðstaða okkar verður eftir að þetta spor hefur verið stigið. Á því máli eru tvær hliðar. Önnur snýr að þeim hernaðaraðilanum, sem Bretar eiga í höggi við. Hernám Breta á landinu á sínum tíma var vitanlega í því augnamiði gert að styrkja aðstöðu sína með því í stríðinu. Þessu hernámi var mótmælt af hálfu Íslendinga. Hvaða áhrif hefur það á aðstöðu þessa hernaðaraðila, að nú hefur annað herveldi, Bandaríkin, sem að vísu er ekki enn sem komið er beinn þátttakandi í stríðinu, tekið að sér hervernd landsins, ekki gegn mótmælum okkar, heldur eftir ósk okkar?

Það er vitað, að hervernd Bandaríkjanna á Íslandi, sem felst í hagnýtingu á þeirri hernaðaraðstöðu, sem lega landsins veitir í stríðinu, felur í sér mjög mikinn hernaðarstuðning við Breta og þá stefnu í alþjóðamálum, sem Bretar og Bandaríkjamenn berjast sameiginlega fyrir.

Hvaða áhrif getur þetta haft á hernaðaraðgerðir hér á þessum slóðum? Bandaríkin eru enn sem komið er ekki beinn þátttakandi í stríðinu, en hins vegar er það vitað, að þeir neyta nú sífellt í vaxandi mæli allrar orku þjóðarinnar til að framleiða hergögn og annað, er koma má að haldi fyrir Englendinga í stríðinu. Það er því mjög hætt við því, að af hálfu Þjóðverja verði, úr því sem komið er, lítill greinarmunur á því gerður, hvort Bandaríkin séu talin beinn eða óbeinn þátttakandi í stríðinu. Það er þess vegna mjög hætt við því, að svo geti farið, að það verði haldlítið fyrir okkur, að það út af fyrir sig veiti okkur ekki mikið öryggi, að við höfum falið hlutlausri þjóð hervernd landsins.

Það er vitanlega alveg hulið móðu óvíssunnar, hvaða áhrif þetta kann að hafa á örlög Íslendinga. Það er hins vegar hætt við því, að bein afskipti og hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna hér í álfu, einmitt hér, svona nærri ófriðarstöðvunum, geti leitt til átaka, sem Ísland fer þá tæplega varhluta af. Þau átök gat vitanlega að borið án þess að þeir kæmu til, enda höfum við engan veginn farið varhluta af hernaðaraðgerðum þess styrjaldaraðilans á siglingaleiðum milli Íslands og Englands, sem mundi álíta, að væri verið að skáka sér með þessu.

En engan veginn getum við verið óhultir fyrir því, að koma Bandaríkjahers hingað með þessum hætti feli í sér nýja og aukna hættu fyrir okkur.

Þetta er skuggahliðin á málinu.

En hvað getur nú, úr því að svona er komið, þessi nýi samningur falið í sér til hagsbóta fyrir Íslendinga framar því, sem við annars hefðum getað vænzt eins og ástatt er? Þá hlið málsins ber að sjálfsögðu að athuga gaumgæfilega, hvað það er, sem okkur hefur fallið í skaut með þessum samningi, sem komið gæti á móti þeirri öryggisskerðingu, sem í því felst, að horfið er frá yfirlýstri hlutleysisstefnu. Það er vitanlega út af fyrir sig mikilsvert atriði, hvernig ríksstjórninni hefur tekizt um þennan þátt samningsins.

Hér ber fyrst að líta á þá yfirlýsingu, sem bæði Bretland og Bandaríkin hafa gert um að viðurkenna til fulls sjálfstæði landsins, vinna að því eftir stríðið, að Ísland fái þá sömu sjálfstæðisviðurkenningu hjá þeim þjóðum, sem þessi tvö stórveldi geta beitt áhrifum sínum við.

Þetta er mjög mikilsvert atriði. En samkvæmt stefnu þessara ríkja í alþjóðamálum, sem bæði berjast fyrir rétti smáþjóðanna, samkvæmt marggefnum yfirlýsingum um það efni, þá verður því engan veginn haldið fram, að það sé ekki á fullum rökum reist, þó Íslendingum sé það ekki sársaukalaust að verða að kaupa þessa yfirlýsingu svo ærnu verði sem það er að hverfa frá yfirlýstri hlutleysisstefnu.

Þá kem ég að atriði, sem ég óska, að hæstv. ríkisstj. gefi hér upplýsingar um, eftir því. sem hún hefur aðstöðu til, en það er hin viðskiptalega hlið málsins. Skömmu eftir komu Englendinganna hingað í fyrra voru gerðir við þá verzlunarsamningar, sem eru útrunnir nú, en nýir samningar við þá hafa ekki fengizt staðfestir. Það er orðið Íslendingum til óhagræðis að fá ekki úr því skorið, hvort slíkir samningar takast eða ekki. Það eru að byrja síldveiðar fyrir Norðurlandi og er uppgripaafli hér við Faxaflóa, en það er ekki hægt að nota sér hann, af því að ekki hefur tekizt að fá samninga um sölu á honum. Það er auðsætt, að eins og komið er, er beðið eftir, að úr leysist um sölu afurðanna eftir opinberum leiðum. Nú sé ég í yfirlýsingu Breta í sambandi við það stórmál, sem hér er á dagskrá, að þeir lofa því, að þeir muni ekki draga úr, heldur fremur auka verzlunarviðskipti við Ísland. Ég vil nú heyra það af munni hæstv. ríkisstj., hvers vænta má í þessu efni.

Um Ameríku er það vitað, að hún hefur verið okkur lokuð að því er snertir sölu ísl. afurða, eða því sem næst. Af þeirra hálfu hefur verið um mjög lítil kaup að ræða, aðeins eitthvað af meðalalýsi og lítils háttar af síld. En nú, þegar við verðum að kaupa mest af okkar nauðsynjum af þeim, veltur að sjálfsögðu mikið á því, hversu vel tekst um viðskiptasamninga við þá. Það er kunnugt, að á einhverjum stærsta þætti útflutnings okkar, síldarlýsinu, er þar svo hár innflutningstollur, að ekki er hægt að selja þangað. Hvað felst í yfirlýsingu Bandaríkjastj. um verzlunarsamninga okkur til handa? Það er mikilsvert atriði fyrir okkur, að vel takist, og ég vænti, að eitthvað í þá átt felist í þessum samningi. Ef hæstv. ríkisstj. hefur aðstöðu til að gefa svör við þessu, óska ég eftir þeim.

Þá tel ég og réttmætt að ræða um það, hvað komið sé áleiðis um, að Englendingar slaki á eða sleppi þeirri miklu íhlutun, sem þeir hafa haft um notkun alls erlends gjaldeyris hér. Mér virðist leiða af sjálfu sér, að sú íhlutun á alveg að hverfa, því að annars væri sú breyt., sem á er orðin, harla óeðlileg. Eins væri æskilegt, ef ríkisstj. gæti gefið upplýsingar um, hvort við Íslendingar megum eiga von á að geta notað eitthvað af þeim rúmum 100 millj. kr., sem við eigum inni í enskum bönkum, til innkaupa á nauðsynjum frá Bandaríkjunum. Hér hefur verið kyrrstaða að því er snertir skipastól landsmanna. Okkur hefur verið fyrirmunað að auka skipastólinn, og ég vildi fá að vita, hvort við getum nú fengið til ráðstöfunar eitthvað af fé okkar til að kaupa fyrir í Bandaríkjunum það, sem Englendingar geta ekki selt okkur. Þetta er beinn þáttur í lífi og tilveru þjóðarinnar nú og í framtíðinni, að ekki þurfi að verða hrörnun á þeim tækjum, sem þjóðin verður að nota til að afla sér lífsframfæris. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði, og það ætti að mega fullkomlega vænta þess, að þessi samningur feli í sér nokkra lausn á þessu máli.

Ég býst nú ekki við því, að ég hafi talað svo ákveðið um það, sem hér hefur gerzt, að ekki sé ástæða til að spyrja, hvaða afstöðu ég ætli, samkvæmt þessu, að taka til þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir.

Ég hef lýst þeirri hættu, sem ég tel, að í henni geti falizt fyrir okkur Íslendinga, og svo því, að undir venjulegum kringumstæðum mundi engri ríkisstjórn hafa haldizt það uppi að fara eins bak við þing og þjóð og hér hefur verið gert. Það eru aðeins þær kringumstæður, sem hér eru fyrir hendi, er geta réttlætt, að slíkt sé gert.

Ég vil taka það fram, að ég lít með fullri viðurkenningu til þeirrar aðstöðu, sem ríkisstj. var í, þegar hún varð að taka þær ákvarðanir, sem hún hefur gert. Ég geri ráð fyrir, að ég og aðrir, sem þykir þessi kaleikur beizkur, hefðu eigi talið fært að fara aðra leið í þessu máli en þá, sem farin var af ríkisstjórninni. Og eins og ástandið er hér nú, vil ég engan veginn gerast svo nærgöngull við hæstv. ríkisstj. að kryfja hana sagna fram yfir það, sem hún telur sér skynsamlegt að færa hér opinberlega fram. Ég mun líka með tilliti til þess að nokkru leyti marka mína afstöðu til þessa máls, og þess vegna ekki gera þær kröfur í þessu efni, sem málefni standa til, að gerðar væru undir eðlilegum kringumstæðum.

Það hefur verið mjög brýnt fyrir okkur Íslendingum, i sambandi við stríðið og þær kringumstæður, sem við höfum komizt í, að okkur riði mikið á að standa saman. Ég vil mjög taka undir þetta, því þó við séum smáir og orkum lítils, þá er það samt nokkuð undir okkur sjálfum komið, hvernig okkur skolar út úr þessum hildarleik. En þó samstarfið eigi að vera gott, megum við engan veginn týna niður allri gagnrýni, og þá að sjálfsögðu grípa í taumana, ef komið er út í óvænt efni. Þetta verðum við að gera okkur ljóst.

Með tilliti til þess, að engu verði um þokað við það, sem hér hefur verið gert, verð ég að líta svo á, að í raun og veru sé ekki annað fyrir okkur að gera en að samþ. þáltill. þá, sem hér liggur fyrir. En hitt þætti mér mikils virði, að ríkisstj. gæti gert nánari grein fyrir því, sem horfir til hagsbóta í verzlunarviðskiptum við þessi 2 ríki, því það er vitanlegt, að afkoma okkar byggist að verulegu leyti á því, hvernig viðskiptasamninga okkur tekst að fá við þessi ríki.

Ég bíð nú þess að fá svör hæstv. ríkisstj. við þessu, eftir því sem hún telur sér fært. Ég get vel búizt við því, að hún hafi ekki á reiðum höndum svör við einstökum atriðum, en ég verð að segja það, ef ekki fæst sú úrlausn, sem ég hef talað um að því er snertir viðskipti við England og Bandaríkin, að þá tel ég okkur Íslendinga líka að þessu leyti mjög grátt leikna með þessum samningi.