09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, hervernd Íslands

Ísleifur Högnason:

Eins og komið hefur fram í ræðum nokkurra þeirra, sem á undan hafa talað, snýst málið ekki um það, hvort þessi samkoma leggur samþykki sitt á samninginn eða ekki. Því er yfirlýst af hæstv. atvmrh., að málið snúist um traust eða vantraust á stj. Ég er á sama máli. Og ég greiði hiklaust atkv. gegn málinu, því ég tel ástæður stj. fyrir því að gera þetta upp á sitt eindæmi ekki vera nægilegar. Henni bar skylda til að kalla saman þing. Það hefur og komið í ljós síðan, að stj. hefur leynt þingið mikilsverðum atriðum í málinu. Ég skírskota hér til ræðu Churchill, þar sem hann segir, að málið snúist um það að fá sjóleiðina stytta milli Bretlands og Bandaríkjanna. Þetta sjónarmið hefur og áður komið á dagskrá í blöðunum. En það er augljóst mál, að ekkert yrði okkur hættulegra en að hér yrði millistöð fyrir hergagnaflutninga. En ríkisstj. hugsar ekki á þann veg. Þeir hugsa ekki um mannslífin, þessir háu herrar, heldur virðast þeir hugsa í pundum og dollurum.

Mér hefur komið til hugar, að athugandi væri sú úrlausn að veita Bandaríkjunum leyfi til flutninga að og frá landinu á einhverjum sérstökum stöðum á landinu. Þær þjóðir, sem nú eiga í styrjöld og hugsa mest um mannslífin, — á ég þar sérstaklega við Sovét-Rússland —, hafa gert það sem sínar fyrstu ráðstafanir að flytja fólkið burtu af vígstöðvunum. Þeir hafa flutt 31/2 millj. frá Bessarabíu. Það skal enginn ganga þess dulinn, að þótt Þjóðverjar svíki öll sín loforð við aðrar þjóðir, þá efna þeir það loforð að láta vopnin tala hér á landi.

Þá er það hér eitt atriði, sem ég tel mjög athyglisvert. Í bréfi forsrh. til forseta Bandaríkjanna er það tekið fram sem eitt af skilyrðunum, að Bandaríkin lofi að hlutast ekki til um stjórn Íslands, hvorki meðan herafli þeirra er í landinu né síðar. Í loforðum .þeim, sem Bretar gáfu okkur, þegar þeir hertóku landið, var það skýrt tekið fram, að þeir lofuðu að hlutast ekki til um innanríkismál. Það getur ekki ver ið tilviljun ein, að ríkisstj. hugsar eingöngu um sjálfa sig. Það er áreiðanlega engin tilviljun, hvernig þetta er orðað. Þetta orðalag gefur meira að segja ákveðinn grun um, að ríkisstj. hafi ekki verið svo ókær þau afskipti, sem Bretar höfðu um okkar mál. Á ég þar sérstaklega við brottnám ritstjóra Þjóðvíljans. Við þm. sósíalista fögnum því, að Bretar hafa lofað að skila mönnunum aftur. En í þessu sambandi vildi ég minnast á annað. Íslenzkir dómstólar hafa dæmt tvo menn fyrir landráð. Og það var ljóst, að þeir voru dæmdir í fangelsisvist eingöngu vegna þess ástands, sem var í landinu. Nú gerum við þá kröfu, að íslenzka stj. reynist ekki verri en Bretar og láti þessa menn lausa. Ég veit, að alþýðan mundi virða það nokkurs, ef ríkisstj. sleppti þessum mönnum. Og ég þykist raunar vita, að alþýðan muni gera þá kröfu, að þessum mönnum verði sleppt.

Ein af ástæðum brezku herstjórnarinnar fyrir því að fá hervernd Bandarikjanna til handa Íslandi var talin sú, að fækka þyrfti liðinu hér. Eftir síðustu fregnum að dæma virðist þetta alls ekki vera meiningin, því þar kemur fram, að ekki sé ætlunin að taka þetta lið burt. Mótsagnirnar í öllum málflutningi um þetta mál gefa mér vissu fyrir því, að það er óforsvaranlegt af okkur að staðfesta þennan sáttmála til að styrkja ríkisstj. deginum lengur.