09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (20)

1. mál, hervernd Íslands

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þm. fyrir það, hvað þeir hafa yfirleitt tekið vel í aðgerðir stj., sem hér eru til umr.

Það er ekkert undarlegt, þó að hv. þm. þurfi að spyrja um einstök atriði; mér kom það sízt á óvart, ég gerði mér það ljóst og stj. öll, fyrir þá sök, að það voru mörg atriði, sem komu upp í okkar hugum, þegar við höfum athugun á þessu máli.

Ég verð að biðja hv. þm. afsökunar á því, þó að mér kunni að sjást yfir einhverjar af þessum fyrirspurnum og aths.; því að þær eru orðnar nokkuð margar, og vil ég þó reyna að gera þeim stutt skil, eftir því sem mér er unnt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þær aths., sem komu fram af hálfu þm. Sósíalistafl. Þeir hafa deilt á stj. fyrir að hafa ekki kallað saman þing og fyrir að hafa gert þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, án þess að kalla fyrst saman þing. Þetta var uppistaðan í þeirra ræðum. Jafnframt hafa þeir lýst því yfir, að það hafi raunverulega enga þýðingu, hvaða afstöðu þingið tekur til þessa máls, því að þetta Alþingi sé ólöglegt.

Enn fremur hafa þeir deilt á stj. fyrir að hafa vikið frá hlutleysisstefnunni, en jafnframt leggja þeir fram till., þar sem gert er ráð fyrir þeirri breyt., að Rússlandi verði bætt við. Það er vitað mál, að hvort sem tvö eða þrjú af þessum stórveldum taka að hér þessa ábyrgð, þá leiðir af henni, að þessi ríki verða að hafa aðstöðu til að hafa herafla hér á landi, til þess að þau gætu fullnægt ábyrgðinni. Þetta væri því alveg sama hlutleysisbrotið, og þó fremur en það, sem hér er gert ráð fyrir. Annars verð ég að segja það, að þótt ég vonaði, að þingið sæi sér fært að samþ. gerðir stj., þá bjóst ég tæplega við, að þm. Sósíalistafl. yrðu þessari till. fylgjandi. Ég býst ekki við, að hann beri mikið traust til stj., það er gagnkvæmt, ég get sagt það fyrir mína hönd, að ég sæki ekki fast eftir trausti þessara hv. þm. Læt ég svo útrætt um það.

Það hafa komið fram nokkrar raddir, þó ekki í aðfinnsluformi, um það, að þingið hefði verið kallað saman. Ég lýsi ánægju minni yfir því, að hv. þm. hafa fallizt á þau rök, sem ég hygg, að séu rétt og sönn, að stj. gat ekki gert annað en það, sem hún gerði. Það var engum meira áhyggjuefni en stj. að verða að gera þetta án þess að geta fyrst ráðfært sig við þingið. Það er vitað mál, að ef eitthvað er framkvæmt án þess að spurt sé um það áður, þá mætir það meiri andstöðu en það, sem spurt er um. Þess vegna er það fyrsta regla þeirra, sem eru vanir slíkum framkvæmdum, að spyrja fyrir fram, ef þess er kostur. Þess vegna sótti stj. fast að fá þing kallað saman, áður en þessar ráðstafanir voru gerðar, og ég vil, að það sé staðfest í viðurvist meðráðh. minna, að það var ófrávíkjanlegt skilyrði og ekki hægt að hagga því, að þing yrði ekki kallað saman.

Það hafa komið fram, fyrst og fremst frá tveimur þm., hv. þm. Borgf. og hv. þm. V.- Sk., ummæli í þá átt, að þeir teldu, að raunverulega hefði stj. víkið frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið og yfirlýst var 1918 um algert hlutleysi. Ég skal ekki sérstaklega deila um það atriði. Þó virðist mér vafasamt, að hægt sé að segja, að stj. hafi vikið frá þeirri yfirlýstu hlutteysisstefnu, þó að hún hafi óskað eftir hervernd ríkis, sem eins og ég hef orðað það stendur utan styrjaldarinnar, þó að segja megi vissulega, að það ríki sé ekki hlutlaust, — því að hvaða ríki í veröldinni er hlutlaust í þessari styrjöld lengur? Ég sé ekki, að það sé að víkja frá yfirlýstri hlutleysisstefnu, þó að við, eins og hæstv. atvmrh. tók fram, skiptum á vernd þess ófriðaraðila, sem er hér nú, sem við að vísu höfum mótmælt, og fáum í staðinn vernd ríkis, sem stendur utan styrjaldarinnar. En ef Alþingi óskar þess, þá sé ég ekki betur en að það geti lýst yfir; ef það sér ástæðu til, eins og hv. þm. V.-Sk. tók fram, að þetta breyti á engan hátt yfirlýstri hlutleysisstefnu Íslands gagnvart stríðsaðilunum, og er það í samræmi við það, sem ég hef sagt í frumræðu minni um þetta mál. (GSv: Vill hæstv. forsrh. lýsa því yfir hér með?) Ég segi, ef þingið sér ástæðu til þess, en annars er þetta atriði, sem ríkisstj. þarf að ræða, áður en ég lýsi nokkru yfir af hennar hálfu.

Þá hefur það komið greinilega fram, að ef um það væri að ræða, að við með þessu hefðum vikið frá yfirlýstri hlutleysisstefnu, þá teldu þm., sem um það hafa rætt, það verulegu máli skipta, og að við hefðum þar breytt um stefnu í svo stórvægilegu atriði, að það orkaði mjög alvarlega tvímælis í utanríkispólitík okkar. Ég vil nú segja, að ég hygg, að fáir eða jafnvel engir þm. hafi verið því meira fylgjandi en ég, að hlutleysisstefnunni væri haldið. En ég hef reynt að gera mér það ljóst, að það er ekki afstaða mín, sem hefur breytzt, heldur að afstaðan í heiminum er gerbreytt og hefur gersamlega kollvarpazt á stuttum tíma, og það, sem við verðum að reyna að gera, bæði í þessum málum og öðrum, er að skilja þær breytingar og haga okkur samkvæmt þeim. Ég vil minna hv. þm. á, að fyrir nokkrum árum, þegar eitt herveldi, sem átti í ófriði, réðst á hlutlaust ríki, voru a.m.k. margir þeirrar skoðunar, að það hefði að nokkru leyti ráðið úrslitum fyrir það ríki, að það tapaði styrjöldinni, hversu geysilega andúð það vakti um víða veröld að ráðast fyrirvaralaust á hlutlaust ríki. Þannig var viðhorfið, þegar við gáfum okkar yfirlýsingu 1918. Þannig treystum við því, að það yrði í þessari styrjöld. En tímarnir hafa breytzt svo fljótt, að við höfum tæplega enn áttað okkur á, hvað breytingarnar eru stórkostlegar og skyndilegar.

Og svo vil ég vekja athygli hv. þm. á einu. Hvernig hefur þetta algerða hlutleysi reynzt, sem menn trúðu á og treystu? Hvernig reyndist hlutleysið í Noregi? Hvar er hlutleysi Hollands, Belgíu, Júgóslavíu, Rúmeníu, Danmerkur? Hvað á að halda lengi áfram að telja upp? Hvar er hlutleysi þessara ríkja, sem hefur dugað? Hvar er það lengur til í veröldinni? Við verðum að gera okkur það ljóst, sem bent hefur verið á af þeim, sem hafa athugað straumana í þessari stórpólitík, að hlutleysi smáríkjanna, eins og ég sagði í dag, er tæpast til, ef þau eru á áhrifasvæði einhvers herveldis, sem stendur í ófriði, og ef hægt er að nota þau, þá er það gert. Og vissulega má í þessu sambandi minna á, að þó að við höfum reynt að halda algerðu hlutleysi í þessari styrjöld, þá hefur það hlutleysi ekki heldur, þó að við höfum mótmælt komu brezku hersveitanna hingað til lands, verndað sjómenn okkar, og vitanlega er búið að gera svo mikið á hluta okkar af öðrum hernaðaraðilanum, og kannske reyndar báðum, með hernámi landsins, með því að skjóta niður skip okkar og myrða sjómenn okkar, að þótt engum detti í hug að svara í sömu mynt, með hernaðaraðgerðum, þá mundi engin þjóð, sem gæti varið sig, láta slíkt liðast. Við höfum verið lýstir í hafnbann þrátt fyrir hlutteysi okkar. Við erum þakklátir fyrir það, hvort sem við eigum það fjarlægðinni að þakka eða einhverju öðru, að ekki hafa verið gerðar árásir á landið sjálft. Það er líka það eina, sem eftir er skilið. Ég held þess vegna, að við verðum að gera okkur það ljóst, að það erum ekki við, sem höfum breytzt, heldur veröldin í kringum okkur, og við verðum að haga okkur samkvæmt því. Þetta eru aðeins staðreyndir, sem ég er að draga fram. Það eiga ekki sérstaklega að vera rök fyrir því, að við eigum ekki að vera hlutlausir svo lengi sem mögulegt er, en þegar við sjáum hlutleysið jafnlítils metið sem raun er á, þá geta verið önnur verðmæti, sem við verðum að taka meira tillit til. Það er vissulega rétt, eins og það var orðað, að með hlutleysi og afskiptaleysi af öðrum þjóðum vænti þjóðin hlutleysis af hendi annarra þjóða, en það er búið að sýna sig, að þetta er ekki regla lengur, því að það eru hagsmunir herveldanna, sem ráða. Og ég verð að segja það eins og það er, án þess að ég sé með nokkra yfirlýsingu í þá átt, að ég hef íhugað það mjög og ég er viss um, að hv. þm. hafa hver og einn gert það einnig, hvort, án þess að ég segi, að þeirri utanríkispólitík verði beitt, hlutleysisstefnan, eins og hún er frá 1918, verður raunverulega til í okkar utanríkispólitík og hvort sjálfstæði okkar verður ekki fyrst og fremst reist á því, að stórveldin beri ábyrgð á því, að við verðum sjálfstæð þjóð og réttur okkar ekki skertur; og það skyldi nú vera, án þess að ég ætli að fara inn á að ræða það mál, að það verði ekki stefnan, í staðinn fyrir stefnuna frá 1918. Og svo mikið er víst, og það verða menn að gera sér ljóst. sem íhuga þessa hlutleysisyfirlýsingu frá 1918, að hún er aðeins yfirlýsing okkar sjálfra, en það var ekki tekin nein ábyrgð á þessu hlutleysi og sjálfstæði af neinu stórveldi, og þær efasemdir voru vissulega til í hugum margra manna, hvort þessi einhliða yfirlýsing íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem stórveldin höfðu ekki viðurkennt, væri mjög mikils virði.

Það er verið að tala um, að áhætta okkar hafi aukizt v ið þetta, en um það er engu hægt að spá. Það er talað um, að hergögn verði flutt hingað og héðan til Englands, og auki það hættuna. Þetta er ekkert nýtt, því að vitanlegt er t.d., að Bretar eru að gera mikil hafnarvirki uppi í Hvalfirði, og brezkar útvarpsstöðvar hafa oft sagt frá því, að Bretar ætluðu að nota Ísland sem nokkurs konar brú austur yfir Atlantshaf. Þetta breytir því engu um vopnaflutninga austur, yfir Ísland. Og það er ekki líklegt, þó að engu sé hægt um það að spá, að Þjóðverjar vilji frekar gera árás á Bandaríkjaher hér á landi en þann her, sem þeir eiga þegar í ófriði við.

Þá hefur verið spurt um það, hvað felist í loforðum þeim, sem við höfum fengið frá forseta Bandaríkjanna varðandi hagkvæma verzlunarsamninga. T.d. hefur verið spurt, hvort ekki muni verða létt af innflutningshöftunum og umráðum Breta yfir gjaldeyri okkar samkvæmt samningum, sem við þá hafa verið gerðir um þetta. Ég get ekkert sagt um það enn, hvernig þessir verzlunarsamningar verða. Það tekur oft nokkrar vikur og jafnvel mánuði að ganga frá slíkum samningum, og það hefur lítið verið hægt að ræða þetta mál enn þá. En þær upplýsingar get ég gefið, sem flestum hv. þm. munu raunar vera kunnar, að hömlur þær, sem Bretar lögðu á gjaldeyrisnotkun okkar í Bandaríkjunum, stöfuðu af því, að við áttum ekki nægan Bandaríkjagjaldeyri fyrir þeim vörum, sem við hefðum þurft að fá þaðan. Ef ekki hefðu verið lagðar á þessar hömlur, hefði getað farið svo, að við hefðum keypt þar meira af vörum en dollarar voru fyrir, og hefðu þá Bretar orðið að láta okkur hafa dollara, en þeir voru sjálfir í vandræðum með þá. En án þess ég viti nokkuð með vissu eða geti nokkuð fullyrt, held ég, að notkun Bandaríkjahersins hér á íslenzkum peningum muni verða svo mikil, að ekki séu líkur til, að Íslendingar verði í vandræðum með dollara, og þá hverfa af sjálfu sér þær hömlur, sem Bretar hafa lagt á í þessu efni. Þá var spurt um það, hvort ekki væri hægt að flytja hinn bundna gjaldeyri, sem við eigum í Englandi, breyta honum í dollara og kaupa fyrir hann vörur frá Ameríku. Ég get ekkert um þetta sagt, en mér kæmi annars ekki á óvart, þó að ekki liði langur tími, þangað til við hefðum ærið mikið af Bandaríkjagjaldeyri, sem við þyrftum ekki að kaupa fyrir í bráð. Mér finnst sú litla reynsla, sem ég hef af því, hver verða muni peninganotkun Bandaríkjahermanna hér, benda til þessa.

Ég get því litlar upplýsingar gefið hv. þm. Borgf. um þessa verzlunarsamninga, en ég vona, að mér sé óhætt að segja, að hann þurfi ekki að kvíða því, að ekki náist sæmilegir samningar við Bandaríkin um sölu á ýmsum framleiðsluvörum okkar.

Þá komu nokkrar spurningar frá hv. þm. Dal. varðandi ýmis atriði, og er gott að hafa þær til að minna sig á, þegar til framkvæmda kemur. Ég er hv. þm. þakklátur fyrir þær og hef skrifað sumar þeirra hjá mér. En ég vænti þess, að hv. þm. sé ljóst, að ég get ekki svarað þeim öllum á þessu stigi málsins, enda virtist hann ekki búast við því. Viðvíkjandi því, hvaða skilning við leggjum í orðið „úrvalslið“, get ég tekið það fram, að þar er ekki átt við, að herinn sé sérstaklega vel hæfur til að berjast, heldur að hann komi svo fram í landinu, að við getum vel við unað. Skilyrði til þess eru svo víðtæk, að nokkur vafi þótti leika á um það, hvort hægt væri að setja þau fram í þessari orðsendingu, en í rauninni eiga hersveitir hernaðarþjóða alltaf að vera valdar. Að því er snertir spurningu hans um það, hvort tryggt væri, að þær væru af góðum ættstofni, þá skildi ég, við hvað hann átti, sem sé það, hvort tryggt væri, að þar væru ekki svokallaðir litaðir menn. Vegna innanlandsmála Bandaríkjanna þótti ekki viðeigandi að nefna þetta á nafn í sjálfri orðsendingunni, en ég get tekið það fram, að það hefur verið orðað við hlutaðeigendur, að átt væri við það, að litaðar hersveitir yrðu ekki sendar hingað, og sendiherra Breta taldi, að það kæmi ekki til mála. Ríkisstj. hefur tekið til athugunar nánari kröfur um þetta mál, hvort sem þær verða teknar til greina eða ekki.

Um lokun áfengisverzlunarinnar get ég ekkert sagt að þessu sinni. Þá var spurt, hvort hermannaskálar ættu að vera inni í bænum, eins og áður. Ríkisstj. hefur athugað þetta, og vill hún gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að þeir verði fluttir á burt, þó að erfiðara sé nú um vik en áður, þegar búið er að reisa þá inni í bænum. Það þótti ekki viðeigandi að gera þetta að skilyrði. En við segjum þeim auðvitað, að vegna húsnæðisvandræðanna geti þeir ekki vænzt þess að fá að búa í húsum landsmanna.

Um dómstólana er það að segja, að sjálfsagt er að taka það til athugunar, hvernig þeim skuli fyrir komið, og þykir mér ekki óeðlilegt, að oddamaðurinn sé tilnefndur af hæstarétti, en um þetta hefur ekkert verið ákveðið enn.

Ég get ekkert sagt um það, meðan engir verzlunarsamningar hafa verið gerðir, hvað felst í loforðinu um hagkvæm viðskipti. Hér kom fram spurning svipuð þeirri, sem hv. þm. Borgf. bar fram, um það, hvort ekki mundi hægt að breyta innieign okkar i sterlingspundum í dollara, en ég vil biðja menn að hugleiða, hvort mikill munur muni vera á brezkum og bandarískum gjaldeyri, svo sem nú er komið málum. Það er varhugavert að spá nokkru, en ég gæti trúað því, að svo færi, ef þetta ástand stendur lengi, að einhverjum þætti við eiga orðið nógu mikið af Bandaríkjagjaldeyri. En ég veit ekki, hverskonar peninga menn vilja þá eiga hér á landi, ef þeir vilja ekki krónur, ekki pund og ekki dollara. Þá er fátt eftir af myntum stórþjóða, nema þá rúblan og markið.

Spurningunni um kaup á skuldabréfum get ég ekki svarað á þessu stigi. Ég get ekki heldur svarað spurningunni varðandi umgengni hersins, því að ekki hefur unnizt tími til að ræða það mál við hlutaðeigandi aðila. En ég tel, að við eigum mest undir okkur sjálfum um það, hvernig þetta fer. Umgengnin við herinn er eitt mesta vandamálið, sem hér kemur til greina.

Ég hef nú reynt að leysa úr spurningum þeim, sem fram hafa komið, eins og ég hef getað. Og ég þakka þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls, fyrir það, hversu miklum skilningi afstaða ríkisstj. hefur átt að mæta hjá þeim.