09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, hervernd Íslands

*Ásgeir Ásgeirsson:

Nokkrir hv. þm. hafa haldið því fram, að hæstv. ríkisstj. hafi horfið af lýðræðisbrautinni í þessu máli. Ég mun ekki kvarta um þann hlut, því að ég sé ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. hefði átt að ræða um þetta við þingið, áður en herinn var hingað kominn. Ef við hefðum ástæðu til að kvarta um þetta, þá hefði þingið í Bandaríkjunum ekki síður ástæðu til þess. Þegar um er að ræða hernaðaraðgerðir, er ekki hægt að bera málin undir alla þjóðina. Hingað eru komnir Bandarkjamenn í stað Breta. Það er ekkert úrslitaatriði að því er hlutleysi okkar snertir, hvort hér eru Bretar eða Bandaríkjamenn, og er hlutleysi okkar ekki minna, þó að Bandaríkjamenn séu hér, nema síður sé. Má sýna fram á það, að það sé meira hlutleysi að hafa hér Bandaríkjamenn en Breta.

Stjórnin skýrði frá, að það væri rétt, að þetta væri gert með okkar samþykki, en ef þingið lítur öðruvísi á þetta mál, þá er samningurinn ekki lengur í gildi.

Raunar mun þetta hafa verið aðalíhugunarefnið fyrir stjórnina, og stjórnin hefur ekki gripið fram fyrir hendurnar á þinginu um þessar ákvarðanir. Þingið á eftir að taka sínar ákvarðanir, sem ekki eru jafngildar ákvörðunum stjórnarinnar, en gilda endanlega, og ef menn eru sannfærðir um það, að stjórnin hafi hér komið úr höndum okkar vörnum okkar hlutleysis, þá eiga menn vitanlega að greiða atkv. á móti þessari till. Það er hægt að fá nýja stjórn í. staðinn fyrir þá stjórn, sem nú er, en ef þetta, sem kallað er hlutleysi, er úrslitaatriði, þá eiga menn að fórna stjórninni og halda þessu hlutleysi, sem sumir telja vera hyrningarstein okkar framtíðar.

Það er fávizka,. eins og sumir hafa sagt, að þetta mál varði líf eða dauða stjórnarinnar. Sumir segja, af því að ég er fylgjandi stj., þá er ég með þessu, en aðrir segja, af því að ég er á móti stj., þá er ég á móti þessu. Þetta mál á að meta út af fyrir sig, án tillits til stj. Þingið er ekki eins máttlaust á þessari stundu um þetta efni eins og sumir vilja láta í veðri vaka. Stjórnin hefur gripið eins lítið fram fyrir hendur þingsins eins og hún mögulega gat.

Ef þessi till. er felld, þá kemur upp sama ástand og áður, að hér er allt gert með mótmælum þings og þjóðar, skv. því, en að vísu eru nú komnir Bandaríkjamenn í staðinn fyrir Breta. (PO: Komnir eftir ósk stjórnarinnar.) Já, en ef þjóð og þing mótmælir, þá er það það, sem gildir. En þetta hlutleysi, sem hér er af sumum kallað fjöregg þjóðarinnar og hyrningarsteinn sjálfstæðisins frá því 1918, er allt komið undir því, að það séu til voldug stórveldi, sem kunna að meta það. Hlutleysi er enginn hlutur, sem andar í lausu lofti og ekki þarf annað en að veifa til þess að fjandsamleg öfl víki. Ég treysti engum þm. til að skilgreina það hlutteysi, sem árásarþjóðir nútímans mundu sætta sig við.

Ég hef heyrt skilgreiningar hér í kvöld, en þær hafa náð til ríkja, sem nú er búið að brjóta fyrir allan rétt.

Ég ætla ekki að vera að telja upp þessi ríki, vegna þess hve mörg þau eru, en einmitt þessi ríki, sem alla tíð hafa andað í hlutleysinu og hafa sagt, að þau vildu ekkert samstarf, enga vernd, eru nú öll í nauðungarstarfi við árásarþjóðirnar.

Mér finnst það næstum broslegt, að við nú á þessu stigi stöndum og veifum þessu vopni, jafnbitlaust og það hefur reynzt á s.l. árum. Sannleikurinn er sá, að menn hanga í orði, sem hafði aðra þýðingu áður en þetta stríð hófst. Ég vildi óska þess, að það gæti fengið sömu þýðingu aftur, en skilyrðin til þess eru sigur lýðræðisríkjanna.

Þetta orð, hlutleysi, hefur svo misjafna merkingu, að menn deila um það, hvort þjóð, sem ekki er í stríði, sé hluttaus eða ekki. Má deila um það endalaust, hvaða merkingu það hefur nú á tímum, en slíkar deilur hafa enga þýðingu, fyrr en búið er að endurreisa það hugarfar, sem vill virða það nokkuð.

Það er ekki nóg, að við lýsum yfir hlutteysi og segjum, að við höfum sögulegan rétt og okkar sjálfstæða þjóðerni. Það þurfa að vera til þjóðir, sem víðurkenna hlutleysið og vilja eitthvert tillit til þess taka, og framtíð okkar er komin undir því, að þær þjóðir haldi velli og séu mikils megnugar, sem vilja viðurkenna þennan rétt og þessar kröfur okkar.

Ég tel það fullkomið svar við öllum umr., sem hér hafa verið haldnar um hlutteysishlið þessa máls, þar sem hæstv. atvmrh. sagði, að við hefðum breytt til og í staðinn fyrir að vera herteknir af stríðsþjóð, hefðum við fengið vernd hlutlausrar þjóðar.

Þetta tel ég fullkomið svar við þeim umr., þó að ég játi, að þær fari að sumu leyti lengra en þessi samningur og till. gefa tilefni til, þá liggja öll rök þessa máls miklu dýpra en þetta.

Til þess að taka rétta afstöðu í máli sem þessu, þarf að gera sér ljóst, hvað er að ske í kringum okkur. Það hafa orðið margs konar breytingar. Við sáum það í síðustu styrjöld, að vopnin höfðu tekið svo miklum breytingum, að ófriðurinn var kominn upp að ströndum okkar, og það hefði kannske ekki þurft öll þessi 20 ár til þess að valda því, að vopnin yrðu svo fullkomin, að þau mundu umkringja allt landið.

Enn hefur reynslan orðið sú. Breytingarnar á vopnunum hafa svipt okkur þessari einangrun, sem við höfðum áður. En það var ekki einangrunin ein, sem var okkar ágæta vopn. Ég tel rétt að segja nú, þegar Bretar eru að fara, að þó að við vitnum í hlutleysið frá 1918 og fyrr og síðar, þá er það ekki það eitt, sem við höfum lifað á, en á því, að okkar eyja er í hafi, sem er verndað og friðað af friðsömum þjóðum.

Án brezka flotans og Bandaríkjaflotans, vil ég segja, að lengi vel hefur ekki verið jafnmikið sjálfræði hér á landi eins og raun varð á í áratugi og jafnvel aldir. Þess vegna eigum við ekki að veifa einhverjum orðum eða yfirlýsingum. Við skulum vera í þeim kröftum, sem liggja þarna á bak við, og nú sjáum við þá betur en nokkurn tíma áður. Nú eru þeir að starfa, nú eru þeir að verja frelsi Atlantshafsins og um leið frelsi okkar Íslendinga.

Ég tel þetta ná töluvert lengra en þessi till. gefur tilefni til, en ég sé ekkert á móti því, að þetta komi hér fram á þessari stundu.

Hér hefur verið sagt í kvöld, að þetta mál sé svo erfitt viðfangs, að við megum ekki tala opinskátt um það, en við skulum bara nota þetta málfrelsi og þingræði, sem við höfum enn þá, til þess að tala frjálst þessa síðustu mánuði eða ár, ef eitthvað léttir síðar.

Ég sé ekki, að í þessu máli sé neinn sá þáttur, sem við getum ekki talað um nú, eftir að aðalbreytingarnar hafa farið fram, að Bandaríkjaflotinn er kominn hingað til landsins. Þeir, sem eru lýðræðissinnar í þessu landi, líta kannske svo á, að okkar land eigi eitthvað undir því, hvernig lýðræðisríkjunum gengur í þessari viðureign. Einn maður hér í deildinni þorði að tala um, — að hvaða hættu, sem þetta fæli í sér, væri ekkert við það að athuga; ef við gætum fengið Bandaríkin til að lofa Rússum meiri hjálp á austurvígstöðvunum.

Ég hygg, að við, sem teljum okkur lýðræðismenn, ættum að lyfta höfðinu og segja okkar meiningu. Lýðræðið er ekki svo meinlaus skepna, að það verji sig ekki, þegar á það er ráðizt.

Við erum hér í Atlantshafinu, þar sem lengi hefur ríkt friður, en það hefur alls ekki verið vegna þess, að það hafi ekki verið jafnmikil hætta á ferðinni hér og víða annars staðar, ef hafið hefði ekki verið verndað um langan tíma af friðsömum og sterkum ríkjum.

Ef okkar menning væri t.d. slavnesk eða mongólsk og landið væri í Svartahafinu, þá væri eðlilegt að leita fyrst og fremst verndar hjá Rússlandi, en við verðum að átta okkur á þessu, að menning okkar er ekki mongólsk eða slavnesk og landið liggur ekki í Svartahafi.

Við erum norræn þjóð, og skyldastar okkur af öllum þjóðum eru engil-saxneskar þjóðir, eða þær þjóðir, sem hafa mótazt af engil-saxneskri menningu, og nú er svo komið, að við höfum fengið yfirlýsingu þessara sterku engil-saxnesku þjóða, að þær skuli gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að verja okkar land.

Þetta hefði einhvern tíma þótt einhvers virði, þó að ástandið hefði ekki verið eins og það er nú í dag í heiminum.

Auk vopnanna, sem hafa tekið breytingum og breytt okkar aðstöðu, þá hafa líka að undanförnu komið upp nýjar stefnur í heiminum, sem ekki eru líkar neinu því, sem var að verkum í álfunni í síðasta stríði. Í síðustu styrjöld áttust við þjóðir, sem voru þó að ýmsu leyti áþekkar í hugsunarhætti, en nú virðist munurinn á hugmyndinni um menninguna vera orðinn jafnmikill og munurinn á svörtu og hvítu. Ég skal ekki fara út í það nánar, en við skulum bara líta á þennan mun.

Þegar Bandaríkin sendu yfirlýsingu um það til forsrh. Íslands, að þau væru reiðubúin að taka að sér vernd Íslands, ef Íslendingar vildu samþykkja það, þá fékk ísl. stjórnin tíma til svars og til þess að leggja þetta fyrir þingið, og þingið getur fellt allt, sem stjórnin hefur gert, og gagnvart einhverri svartri eða dökkri framtíð getur það fyllilega dugað sem afsakanir.

Berum nú saman þessar aðferðir. Það er kannske byrjað á því að sýna stríðsmyndir um það, hvernig sé farið með þær þjóðir, sem eitthvað mögla, og svo sé vakið upp kl. 2 til 3 um nóttu og ráðherrar reknir fram úr rúmum sínum og sagt: Nú skulum við semja um þá vernd, sem við látum ykkur í té. — Þá er þessi munur þannig, að mér finnst, að við getum ekki kvartað út af hlutskipti okkar hér á landi.

Það er að vísu rétt, að við höfum áður mótmælt því, að her settist að hér í landinu, og það var í samræmi við þær helgu hugmyndir, sem lifðu nokkuð fram eftir þessu stríði, og var það eðlilegt á þeirri tíð, þó að allir hafi ekki verið jafnsannfærðir um það, að þau mótmæli væru sjáfstæð. Við skulum bara líta á Bandaríkin, sem við erum nú að semja við. Eru þau samkvæm sjálfum sér? Þau hafa fyrir ekki mjög löngum tíma samþykkt lög um fullkomið afskiptaleysi, um að láta skip sín ekki sigla til ófriðarlanda. Nú er þetta allt horfið hjá þessari þjóð, sem ekki langaði í stríð, og hvað er það, sem veldur því? Gæti ekki verið, að þarna sé einhver orsök, sem væri ástæða til fyrir okkur Íslendinga að opna augun fyrir? Hefur ekki ýmislegt skeð á tveimur árum, sem hefur opnað augun á mönnum, svo að þeir sjá, að það verður nú að hafa aðrar aðferðir en áður hafa verið hafðar?

Það munu margir öfunda okkur af því, að við skulum vera sennilega eina þjóðin í Norðurálfu, sem enn á kost á því að taka ákvarðanir um það, hvort við viljum samstarf við aðra þjóð, sem er okkur sterkari, eða hvort við neitum því og segjum: „Það leitar enginn á mig, ef ég sýni hlutleysi.“

Það er ekki hægt að segja, að eðli þessarar styrjaldar hafi ekki verið komið greinilega í ljós, þegar við tökum nú þessar ákvarðanir, og þó að sú ákvörðun, sem við tökum nú, verði jákvæð eins og ákvarðanir stjórnarinnar, þá er það ekkí heldur í fyrsta sinn, sem við tökum jákvæðar ákvarðanir hér í þinginu. Við höfum gert hér yfirlýsingu gegn einræðinu og árásum, þegar Rússar réðust á Finnland, og hvort það á að gilda svo miklu minna, þegar ráðizt er á Norðmenn og Dani og fjölda annarra smáþjóða, að við gleymum því, hvað þingið var þá einhuga, þá veit ég ekki, hverju það á að gegna. Þá yfirlýsingu, sem við gerðum þá, má alltaf nota gegn okkur af hverri þeirri einræðisþjóð, sem kærir sig um að finna átyllu gegn aðgerðum þings og stjórnar hér á landi. Það hefur komið fram hvað eftir annað, að það er alveg sama, hvaða smáþjóð það er, árásarþjóðirnar leika þær alltaf eins og þeim sjálfum sýnist og telja, að sé í samræmi við sína eigin hagsmuni. Við getum þess vegna verið miklu rólegri . nú, þegar við tökum þessar ákvarðanir, þegar við tökum eftir því, að það finnast alltaf einhver skjöl, og við skulum sjá, að það munu áreiðanlega finnast skjöl hér á landi á sínum tíma, ef þarf að finna einhverja átyllu.

Ég tel, að stjórnin hafi í þessu máli farið þá leið, sem hún varð að fara. Stjórnir verða á svona tímum stundum að taka ákvarðanir án þess að bera sig saman við marga menn, áður en aðalákvörðunin er tekin, og þessi ákvörðun er tekin út frá þekkingu stjórnarinnar á hugarfari og hagsmunum ísl. þjóðarinnar, og ég hygg, að stjórnin hafi dæmt rétt.

Nú er það okkar að dæma . um það, hvort stjórnin hefur dæmt rétt um hugarfar og hagsmuni okkar þjóðar, og ég hef haldið því fram, að hvort sem við lítum á hugarfar þjóðarinnar eða hagsmuni, þá komumst við að sömu niðurstöðu. Sem betur fer þarf hér enginn klofningur að verða úr því, því að það á allt samleið, og svo er líka það, að þó að það sé vitanlega sjálfsagt að viðurkenna, að hér er einnig að ræða um hagsmuni Breta og Bandaríkjanna, þá er ekki skylda að loka augunum fyrir því.

Í þessum umr., sem hér hafa farið fram í kvöld, hefur enginn fundið að þeirra stefnu í þessum ófriði, eða kennt þeim um þann ófarnað, sem nú ríkir í heiminum. Í rauninni ber öllum saman um það, að við höfum sömu hagsmuni og þessi tvö stórveldi, og hvað er þá verið að hugsa um?

Mín skoðun er, að stjórnin hafi gert rétt. Við höfum nú allt það öryggi, sem ein smáþjóð getur haft á þessum erfiðu tímum. Það eru vafalaust erfiðleikar framundan, það getur orðið mjög langt stríð, og það getur líka ef til vill bara orðið nokkur ár, en við skulum bara líta vel í kringum okkur, þegar erfiðleikarnir steðja að.