09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (5)

1. mál, hervernd Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Áður en ég kem að máli því, sem liggur fyrir fundinum, vil ég tilkynna hv. þm., að öll 1., sem síðasta Alþ. samþykkti, hafa verið staðfest í ríkisráðinu.

Alþingi hefur verið kvatt saman til þessa aukafundar vegna mikilsvarðandi atburða, sem þjóðinni hafa að höndum borið. Eins og yður er kunnugt, háttvirtu alþingismenn, komu Bandaríkjahersveitir til landsins síðastliðinn mánudag, og að kvöldi þess dags gaf forseti Bandaríkja Norður-Ameríku út yfirlýsingu, svo sem ráðgert hafði verið, um þessa herflutninga, og skýrði jafnframt opinberlega frá því samkomulagi, sem gert hefur verið milli ríkisstjórnar Íslands og forseta Bandaríkjanna um hervernd Íslands. Ríkisstjórnin taldi nauðsynlegt, þótt Alþingi hefði þá enn ekki komið saman til fundar, að ég flytti af hennar hálfu stutt ávarp í útvarpið, þar sem ég gerði þjóðinni grein fyrir samkomulaginu við Bandaríkin, að Bandaríkjaher væri kominn til landsins, og læsi jafnframt upp orðsendingar, sem farið höfðu milli mín af hálfu ríkisstjórnar Íslands og forseta Bandaríkjanna. Þetta gerði ég klukkan 10 síðastliðið mánudagskvöld, en gat þess þá jafnframt, að ríkisstjórnin mundi gera nánari grein fyrir samningum þeim, sem gerðir hafa verið, aðdraganda þeirra og þeim rökum, sem til þess liggja, að ríkisstjórnin tók þá á kvörðun, sem yður er kunn og ég kem síðar að. Enn fremur gat ég þess, að ríkisstjórnin mundi hér á þessum vettvangi gera grein fyrir því, hvers vegna ekki var unnt að kalla Alþingi saman til funda fyrr en gert hefur verið.

Eins og oss öllum er í fersku minni, var Alþingi slitið 17. júní síðastl. Það var sjö dögum síðar, eða 24. júní síðastl., að brezki sendiherrann í Reykjavík óskaði eftir samtali, sem hann taldi mjög aðkallandi og mikilsvert. Þetta samtal fór fram hinn sama dag. Efni þessa samtals var í aðalatriðum þess efnis, að aðstæður í styrjöldinni hefðu gerbreytzt þá síðustu dagana, og að brezku hersveitanna, sem hér væru, væri þörf annars staðar. Þær mundu því verða fluttar héðan alveg á næstunni að meira eða minna leyti. Brezki sendiherrann lagði jafnframt áherzlu á, að Ísland væri svo þýðingarmikið í þeirri styrjöld, sem nú geisar, að það gæti undir engum kringumstæðum verið óvarið. Hann vakti athygli á þeirri yfirlýsingu forseta Bandaríkjanna, að hann yrði að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja öryggi vesturhvelsjarðar, og ein af þeim ráðstöfunum væri að aðstoða við hervernd Íslands meðan stórveldastyrjöldin varir. Forseti Bandaríkjanna væri því fús til að senda hingað til lands, þegar í stað, hersveitir frá Bandaríkjunum til þess að auka vernd Íslands og síðar takast á hendur þessa vernd i stað hinna brezku hersveita, sem nú dvelja hér á landi. — Hins vegar mundi forsetinn ekki telja sér þetta fært, nema tilmæli kæmu til hans frá íslenzku ríkisstjórninni. Brezki sendiherrann kvað ríkisstjórn sína hafa falið sér að ræða þetta mál við forsætisráðherra Íslands og leggja á það hina ríkustu áherzlu, að íslenzka ríkisstjórnin bæri fram áður nefnd tilmæli við forseta Bandaríkjanna, og að mál þetta væri svo aðkallandi, að svar væri nauðsynlegt allra næstu daga.

Ég kem síðar að því, hvernig ríkisstj. svaraði þessari málaleitun og hvaða rök hún telur liggja til þess svars, er hún veitti, en það, sem ég tel mér af hálfu ríkisstj. skyldast að gera fyrst af öllu grein fyrir hér, frammi fyrir hinu háa Alþingi, er, hvers vegna það var ekki þegar kvatt saman til funda til þess að ræða þetta mál, áður en nokkur svör væru veitt. Ég veit, að þér, háttvirtu alþingismenn, getið sett yður í þau spor vor ráðherranna, að oss var ekki ljúft að taka ákvörðun í þessu mjög mikilsverða máli, án þess að kalla Alþingi saman til funda og óska eftir, að það léti í ljós vilja sinn um, hvað gera skyldi. Ég átti því á ný samtal við sendiherrann um nauðsyn þess að kalla Alþingi saman til funda, en hann taldi það útilokað og færði til þess rök, er ég tel sterk og kem brátt að. Enn áttum við fjórir ráðherrarnir samtal við sendiherrann um þetta atriði,1) og var svar hans á sama veg. — Ég held, að þetta verði bezt skýrt með því að taka orðrétt upp kafla úr samtali brezka sendiherrans við mig 24. f. m. Samtalið afhenti sendiherrann mér jafnframt skriflega. Þessi kafli er þannig:

„... Ég býst ekki við, að mér verði gefið svar í dag, en ég bið yður um að gera svo vel að láta mig fá að vita um ákvörðun yðar eins fljótt og mögulegt er. ... Það er mjög mikilvægt, að eins lítill tími og mögulegt er fari til spillis. … Það er mjög ábyrgðarmikil ákvörðun, sem þér verðið að taka í þessu máli, og þér munuð að sjálfsögðu óska þess að ráðgast við hina ráðherrana í ríkisstjórninni, en eins verð ég að krefjast, og það er, að hvorki þér né starfsbræður yðar gefi út neina opinbera yfirlýsingu um þessa orðsendingu mína og láti hana ekki berast út fyrir veggi ráðherraherbergisins. Ástæðan fyrir þessu er auðskilin. Ef almenningur fengi vitneskju um þetta, eða málið yrði rætt opinberlega, er nærri vist, að fregnir um það mundu berast til Þýzkalands, og mundi það nærri því áreiðanlega hafa í för með sér, að óvinirnir réðust á landið og á ameríska herliðið meðan það væri enn úti á sjó. Þér getið engan veginn óskað þess, að slíkt komi fyrir, og get ég sagt yður, að ég hef ekki nefnt þetta mál á nafn við neinn, nema nánustu starfsmenn mína, og það aðeins við tvo þeirra.“

Ég vona, að hið háa Alþingi geti verið ríkisstjórninni sammála um það, að þótt sú ábyrgð væri mikil, sem hún tók á sig með því að svara málaleitun sendiherrans, án þess að ráðfæra sig við Alþingi, hefði sú ábyrgð verið stórum meiri, og ég þori að segja þyngri en svo, að ríkisstjórnin gæti tekið hana á sínar herðar, að kalla Alþingi saman til funda til þess að ræða þetta mál, eins og á stóð. Þess vegna, og eingöngu vegna þess, valdi ríkisstjórnin þá leið, sem ein var fær og yður er kunn, að svara án þess að ræða málið á Alþingi. En Alþingi var kvatt saman jafnskjótt og fært þótti vegna hættunnar.

Það er eftirtektarvert, eins og ég sagði áðan, að það var sjö dögum eftir að Alþingi var slitið, að þetta vandamál bar að höndum, og alla næstu daga og oft fram á nætur sat ríkisstjórnin á stöðugum fundum til þess að ræða þessi mál. Sömu dagana og kosningabaráttan átti að standa allra hæst, og sama daginn og kosningar áttu að fara fram, ef þeim hefði ekki verið frestað, varð ríkisstjórnin að ráða fram úr þessu vandamáli.

Þó að ríkisstjórnin tæki ein þá ákvörðun, sem tekin var, og beri ábyrgð á henni, óskaði hún þess við hæstvirtan ríkisstjóra, að hann, vegna þess hve sérstakt og mikilvægt það málefni er, sem ræða varð og taka ákvörðun um, stjórnaði þeim fundum, sem haldnir voru til að ræða málið. Taldi hæstvirtur ríkisstjóri það eðlilegt, að sú málsmeðferð yrði við höfð eins og á stóð, og varð því fúslega við þeim tilmælum.

Eftir að tilmæli sendiherrans höfðu verið rædd svo ýtarlega sem föng voru á, tók ríkisstjórnin ákvörðun og svaraði í aðalatriðum, og eftir

1) Fjmrh. var ekki viðstaddur i það sinn.

nokkra viðræðufundi ríkisstjórnarinnar og brezka sendiherrans varð orðsendingin til forseta Bandaríkjastjórnar á þann veg, sem skýrt hefur verið frá í útvarpi og blöðum.

Vil ég þó leyfa mér að lesa orðsendinguna upp orðrétta í íslenzkri þýðingu, eftir að sú þýðing, sem og aðrar þýðingar, er ég síðar les, hafa verið bornar mjög nákvæmlega saman við hina ensku texta:

„Orðsending forsætisráðherra Íslands til forseta Bandaríkja Ameríku.

Í samtali þann 24. júní skýrði brezki sendiherrann frá því, að þörf væri fyrir brezka herliðið á Íslandi annars staðar. Jafnframt lagði hann áherzlu á, hve afar mikilvægt það væri, að Ísland væri nægilega vel varið. Hann dró einnig athygli að yfirlýsingu forseta Bandaríkjanna þess efnis, að hann yrði að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þjóða þeirra, sem á vesturhvelinu eru, — og væri ein af þeim ráðstöfunum sú, að veita aðstoð til að verja Ísland —, og að forsetinn sé því reiðubúinn til að senda hingað tafarlaust herlið frá Bandaríkjunum til að auka og koma síðar í stað brezka hersins hér. En að hann áliti, að hann geti ekki farið þessa leið, nema samkvæmt tilmælum íslenzku ríkisstjórnarinnar.

Eftir vandlega íhugun á öllum aðstæðum og með tilliti til núverandi ástands, fellst íslenzka ríkisstjórnin á, að þessi ráðstöfun sé í samræmi við hagsmuni Íslands og er þess vegna reiðubúin til að fela Bandaríkjunum vernd Íslands með eftirfarandi skilyrðum:

(1) Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa bur tu af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.

(2) Bandaríkin skuldbinda sig enn fremur til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og að beita öllum áhrifum sínum við þau ríki, er standa að friðarsamningunum, að loknum núverandi ófriði, til þess, að friðarsamningarnir viðurkenni einnig algert frelsi og fullveldi Íslands.

(3) Bandaríkin lofa að hlutast ekki til um stjórn Íslands, hvorki meðan herafli þeirra er hér í landinu né síðar.

(4) Bandaríkin skuldbinda sig til að haga vörnum landsins þannig, að þær veiti íbúum þess eins mikið öryggi og frekast er unnt, og að þeir verði fyrir sem minnstum truflunum af völdum her naðaraðgerða, og séu þær gerðar í samráði við íslenzk stjórnarvöld að svo miklu leyti, sem mögulegt er. Vegna fólksfæðar Íslands og hættu þeirrar, sem þjóðinni stafar þar af leiðandi af návíst fjölmenns herafla, verður einnig að gæta þess vandlega, að einungis úrvalslið verði sent hingað. Hernaðaryfirvöldunum ætti einnig að vera gefin fyrirmæli um að hafa í huga, að Íslendingar hafa ekki vanizt vopnaburði öldum saman og að þeir eru með öllu óvanir heraga, og skal umgengni herliðsins gagnvart íbúum landsins hagað í samræmi við það.

(5) Bandaríkin taka að sér varnir landsins, Íslandi að kostnaðarlausu, og lofa að bæta hvert það tjón, sem íbúarnir verða fyrir af völdum hernaðaraðgerða þeirra.

(6) Bandaríkin skuldbinda sig til að styðja að hagsmunum Íslands á allan hátt, sem í þeirra valdi stendur, þar með talið að sjá landinu fyrir nægum nauðsynjavörum, tryggja nauðsynlegar siglingar til landsins og frá því og að gera í öðru tilliti hagstæða verzlunar- og viðskiptasamninga við það.

(7) Íslenzka ríkisstjórnin væntir þess, að yfirlýsing sú, sem forseti Bandaríkjanna gefur í þessu sambandi, verði í samræmi við þessar forsendur af hálfu Íslands, og þætti ríkisstjórninni það mikils virði að vera gefið tækifæri til að kynna sér orðalag yfirlýsingar þessarar, áður en hún er gefin opinberlega.

(8) Af hálfu Íslands er það talið sjálfsagt, að ef Bandaríkin takast á hendur varnir landsins, þá hljóti þær að verða eins öflugar og nauðsyn getur frekast krafizt, og einkum er þess vænzt, að þegar í upphafi verði, að svo miklu leyti sem unnt er, gerðar ráðstafanir til að forðast allar sérstakar hættur í sambandi við. skiptin. Íslenzka ríkisstjórnin leggur sérstaka áherzlu á, að nægar flugvélar séu til varnar, hvar sem þörf krefur og hægt er að koma þeim við, jafnskjótt og ákvörðun er tekin um, að Bandaríkin takist á hendur varnir landsins.

Þessi ákvörðun er tekin af Íslands hálfu sem algerlega frjáls og fullvalda ríkis, og það er álítið sjálfsagt, að Bandaríkin viðurkenni þegar frá upphafi þessa réttarstöðu Íslands, enda skiptist bæði ríkin strax á diplomatiskum sendimönnum.“

En jafnframt átti ég samtal við sendiherra Bretaveldis um þau atriði málsins, er við koma sambúð og viðskiptum Íslendinga og hins brezka veldis, og afhenti honum samtímis þar um skriflega orðsendingu til brezku ríkisstjórnarinnar. Sú orðsending er þannig, einnig í nákvæmri íslenzkri þýðingu:

„Orðsending frá forsætisráðherra Íslands til brezka sendiherrans í Reykjavík.

Íslenzka ríkisstjórnin vill fyrir hönd Íslands setja fram eftirfarandi skilmála að því er snertir Bretland:

1) Bretland skuldbindur sig til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og sjá til þess, að ekki verði gengið á rétt þess í friðarsamningunum né á nokkurn hátt að ófriðnum loknum.

2) Bretland skuldbindur sig til að hverfa burtu héðan af landinu með allan herafla sinn jafnskjótt og flutningi Bandaríkjaliðsins er svo langt komið, að hernaðarlegur styrkur þess er nægilegur til að verja landið, enda verði vörnum landsins þannig hagað á meðan á skiptunum stendur, að þær verði aldrei minni en þær eru nú.

3) Að því er snertir verzlunar- og viðskiptasamband Bretlands og Íslands, þá þiggur ríkisstjórn Íslands þakksamlega það boð brezku ríkisstjórnarinnar, að hún muni ekki draga úr, heldur fremur auka stuðning sinn við viðskipti Íslands jafnframt því, sem hún muni styðja hagsmuni þess að öðru leyti. Íslenzka ríkisstjórnin vill um leið vekja athygli á því, að hinar breyttu aðstæður hljóti óhjákvæmlega að leiða til endurskoðunar á brezk-íslenzka verzlunarsamningnum og að breytt verði ýmsum skuldbindingum af Íslands hálfu samkvæmt þessum samningi, einkum greinunum um eftirlit með innflutningi og gjaldeyri.

4) Það eru ákveðin tilmæli íslenzku ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórn Bretlands láti undireins lausa og sendi heim til Íslands alla þá íslenzka ríkisborgara, sem eru í haldi í Bretlandi og teknir hafa ver ið höndum og fluttir þangað.

5) Í öðru tilliti er það álitið sjálfsagt, að Bretland breyti ekki að neinu leyti yfirlýsingu þeirri um frelsi og fullveldi Íslands, sem það hefur þegar gefið, og að bæði ríkin haldi áfram að skiptast á diplomatiskum sendimönnum, enda álítur íslenzka ríkisstjórnin það bezt, að þeir sendimenn, sem nú eru, verði látnir vera áfram að svo stöddu.“

Endanleg svör við þessum orðsendingum móttók ríkisstjórnin hinn 1. júlí síðastliðinn. Leyfi ég mér að lesa hér upp íslenzka texta orðsendingar forseta Bandaríkjanna til forsætisráðherra Íslands:

„Orðsending forseta Bandaríkjanna í Ameríku til forsætisráðherra Íslands:

Ég hef tekið á móti orðsendingu yðar, þar sem þér tilkynnið mér, að íslenzka ríkisstjórnin fallist á, eftir að hafa íhugað vandlega allar aðstæður og að með tilliti til núverandi ástands sé það í samræmi við hagsmuni Íslands, að sendar séu þangað Bandaríkjahersveitir til aukningar og síðar til að koma í stað brezka herliðsins, sem þar er nú, og að íslenzka ríkisstjórnin sé þess vegna reiðubúin að fela Bandaríkjunum varnir Íslands með eftirfarandi skilyrðum:

1) Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa burtu af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.

2) Bandaríkin skuldbinda sig enn fremur til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og að beita öllum áhrifum sínum við þau ríki, er standa að friðarsamningunum, að loknum núverandi ófriði, til þess, að friðarsamningarnir viðurkenni einnig algert frelsi og fullveldi Íslands.

3) Bandaríkin lofa að hlutast ekki til um stjórn Íslands, hvorki meðan herafli þeirra er í landinu né síðar.

4) Bandaríkin skuldbinda sig til að haga vörnum landsins þannig, að þær veiti íbúum þess eins mikið öryggi og frekast er unnt, og að þeir verði fyrir sem minnstum truflunum af völdum hernaðaraðgerða, og séu þær gerðar í samráði við íslenzk stjórnarvöld að svo miklu leyti sem mögulegt er. Vegna fólksfæðar Íslands og hættu þeirrar, sem þjóðinni stafar þar af leiðandi af návist fjölmenns herafla, verður einnig að gæta þess vandlega, að einungis úrvalslið verði sent þangað. Hernaðaryfirvöldunum ætti einnig að vera gefin fyrirmæli um að hafa í huga, að Íslendingar hafa ekki vanizt vopnaburði öldum saman og að þeir eru með öllu óvanir heraga, og skal umgengni herliðsins gagnvart íbúum landsins hagað í samræmi við það.

5) Bandaríkin taka að sér varnir landsins, Íslandi að kostnaðarlausu, og lofa að bæta hvert það tjón, sem íbúarnir verða fyrir af völdum hernaðaraðgerða þeirra.

6) Bandaríkin skuldbinda sig til að styðja að hagsmunum Íslands á allan hátt, sem í þeirra valdi stendur, þar með talið að sjá landinu fyrir nægum nauðsynjavörum, tryggja nauðsynlegar siglingar til landsins og frá því og að gera í öðru tilliti hagstæða verzlunar- og viðskiptasamninga við það.

7) Íslenzka ríkisstjórnin væntir þess, að yfirlýsing sú, sem forseti Bandaríkjanna gefur í þessu sambandi, verði í samræmi við þessar forsendur af hálfu Íslands, og þætti ríkisstjórninni það mikils virði að vera gefið tækifæri til að kynna sér orðalag yfirlýsingar þessarar, áður en hún er gefin opinberlega.

8) Af hálfu Íslands er það talið sjálfsagt, að ef Bandaríkin takast á hendur varnir landsins, þá hljóti þær að verða eins öflugar og nauðsyn getur frekast krafizt, og einkum er þess vænzt, að þegar í upphafi verði, að svo miklu leyti sem unnt er, gerðar ráðstafanir til að forðast allar sérstakar hættur í sambandi viðskiptin. Íslenzka ríkisstjórnin leggur sérstaka áherzlu á, að nægar flugvélar séu til varnar, hvar sem þörf krefur og hægt er að koma þeim við, jafnskjótt og ákvörðun er tekin um, að Bandaríkin takist á hendur varnir landsins.

Þér takið enn fremur fram, að þessi ákvörðun sé tekin af Íslands hálfu sem algerlega frjáls og fullvalda ríkis, og að það sé álitið sjálfsagt, að Bandaríkin viðurkenni þegar frá upphafi þessa réttarstöðu Íslands, enda skiptist bæði ríkin strax á diplomatiskum sendimönnum.

Mér er það ánægja að staðfesta hér með við yður, að skilyrði þau, sem sett eru fram í orðsendingu yðar, er ég hef nú móttekið, eru fyllilega aðgengileg fyrir ríkisstjórn Bandaríkjanna og að skilyrða þessara mun verða gætt í viðskiptunum milli Bandaríkjanna og Íslands. Ég vil enn fremur taka það fram, að mér mun verða ánægja að fara fram á samþykki Samveldaþingsins (Congress) til þess, að skipzt verði á diplomatiskum sendimönnum milli landa okkar.

Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnar Bandaríkjanna að ganga í lið með öðrum þjóðum á vesturhveli jarðar til að verja nýja heiminn gegn hvers konar árásartilraunum. Það er skoðun þessarar ríkisstjórnar, að það sé mikilvægt, að varðveitt sé frelsi og sjálfstæði Íslands, vegna þess, að hernám Íslands af hálfu ríkis, sem sýnt hefur, að það hefur á stefnuskrá sinni augljós áform um að ná heimsyfirráðum og þar með einnig yfirráðum yfir þjóðum nýja heimsins, mundi strax beinlínis ógna öryggi allra þjóða á vesturhvelinu.

Það er af þessari ástæðu, að ríkisstjórn Bandaríkjanna mun, samkvæmt orðsendingu yðar, strax senda herafla til að auka og síðar koma í stað brezka herliðsins, sem þar er nú.

Þær ráðstafanir, sem þannig eru gerðar af hálfu ríkisstjórnar Bandaríkjanna, eru gerðar með fullri viðurkenningu á fullveldi og sjálfstæði Íslands og með þeim fulla skilningi, að amerískt herlið eða sjóher, sem sendur er til Íslands, skuli ekki á nokkurn hinn minnsta hátt hlutast til um innanlandsmálefni íslenzku þjóðarinnar, og enn fremur með þeim skilningi, að strax og núverandi hættuástandi í millíríkjaviðskiptum er lokið, skuli allur slíkur herafli og sjóher látinn hverfa á brott þaðan, svo að íslenzka þjóðin og ríkisstjórn hennar ráði algerlega yfir sínu eigin landi.

Íslenzka þjóðin skipar virðulegan sess meðal lýðræðisríkja heimsins, þar sem frjálsræðið og einstaklingsfrelsið á sér sögulegar minningar, sem eru meira en þúsund ára gamlar Það er því enn þá betur viðeigandi, að um leið og ríkisstjórn Bandaríkjanna tekst á hendur að gera þessa ráðstöfun til að varðveita frelsi og öryggi lýðræðisríkjanna í nýja heiminum, skuli hún jafnframt, samkvæmt orðsendingu yðar, verða þess heiðurs aðnjótandi að eiga á þennan hátt samvinnu við ríkisstjórn yðar um varnir hins sögulega lýðræðisríkis, Íslands.

Ég sendi þessa orðsendingu til ríkisstjórna allra hinna þjóðanna á vesturhvelinu, svo að þær fái vitneskju um, hvað um er að vera.“

Svör sendiherra Breta við orðsendingunni til brezku ríkisstjórnarinnar voru, að brezka ríkisstjórnin féllist á hana í öllum atriðum, og hef ég fengið þau svör staðfest með bréfi, sem er þannig í íslenzkri þýðingu:

„8. júlí 1941.

Herra forsætisráðherra,

Þegar ég ræddi við yður þau 24. júní*) um það, að Bandaríki Ameríku tækju að sér varnir Íslands, svöruðuð þér mér því, að samþykki íslenzku ríkisstjórnarinnar væri háð eftir farandi skilmálum að því er snertir Bretland:

1) Bretland lofar að víðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og að sjá til þess, að ekki verði gengið á rétt þess í friðarsamningunum né á nokkurn annan hátt að ófriðnum loknum.

2) Bretland lofar að hverfa burtu héðan af landinu með allan herafla sinn jafnskjótt og flutningi Bandaríkjaliðsins er svo langt komið, að hernaðarlegur styrkur þess er nægilegur til að verja landið, enda verði vörnum landsins þannig hagað á meðan á skiptunum stendur, að þær verði aldrei minni en þær eru nú.

3) Að því er snertir verzlunar- og viðskiptasambönd Bretlands og Íslands, þá þiggur ríkisstjórn Íslands þakksamlega það boð brezku ríkisstjórnarinnar, að hún muni ekki draga úr, heldur auka stuðning sinn við viðskipti Íslands, jafnframt því, sem hún muni styðja hagsmuni þess að öðru leyti. Íslenzka ríkisstjórnin vill um leið vekja athygli á því, að hinar breyttu aðstæður hljóti óhjákvæmilega að leiða til endurskoðunar á brezk-íslenzka viðskiptasamningnum, og að breytt verði ýmsum skuldbindingum af Íslands hálfu samkvæmt þessum samningi, einkum greinunum um eftirlit með innflutningi og gjaldeyri.

4) Það eru ákveðin tilmæli íslenzku ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórn Bretlands láti undir eins lausa og sendi heim til Íslands alla þá íslenzka ríkisborgara, sem eru í haldi í Bretlandi, teknir hafa verið höndum og fluttir þangað.

*) Hér verð ég að geta þess, að þessi samtöl fóru fram 27. og 28. júní.

5) Í öðru tilliti er það álitið sjálfsagt, að Bretland breyti ekki að neinu leyti yfirlýsingu þeirri um frelsi og fullveldi Íslands, sem það hefur þegar gefið, og að bæði ríkin haldi áfram að skiptast á diplomatiskum sendimönnum, enda álítur íslenzka ríkisstjórnin það bezt, að þeir sendimenn, sem nú eru, verði látnir ver a áfram að svo stöddu.

Ég hef þegar skýrt yður munnlega frá, samkvæmt fyrirlagi ríkisstjórnar minnar, að hún samþykkir þessa skilmála, og mér er ánægja að staðfesta þetta bréflega hér með.“

Ég hef nú, háttvirtir alþingismenn, gert yður nákvæma grein fyrir aðdraganda þessa máls, hvers vegna ekki var unnt að kalla Alþingi saman til funda, hvernig máli þessu lauk með samkomulagi um að Bandaríkin takist á hendur með tilteknum skilyrðum her vernd Íslands, meðan stórveldastyrjöldin varir, og að Bretar gangast jafnframt undir viss skilyrði gagnvart Íslandi í sambandi við þetta mál.

Ég er nú kominn að þeim kafla greinargerðar minnar; þar sem ég af hálfu ríkisstjórnarinnar mun færa fram nokkur rök fyrir því, hvers vegna hún taldi það rétt að gera það, sem hún hefur gert og var öll algerlega á einu máli um.

Sá kostur, sem vér Íslendingar mundum helzt hafa kosið og kjósum oss til handa, hefur verið og er að fá að lifa í voru landi óáreittir af öllum hernaðaraðgerðum annarra þjóða. Þetta höfum vér lengi vonað, að mætti takast, og þennan kost teljum vér svo miklu betri en alla aðra, að við hann þola engin önnur úrræði neinn samanburð.

En vér höfum orðið þess varir, þannig að ekki verður um það villzt, að Ísland er hernaðarlega svo mikilvægt, að þessar heitustu óskir vorar eru óframkvæmanlegar. Þessa staðreynd verðum vér að sjá og skilja.

Vegna þess hvað Ísland er þýðingarmikið í þeim ófriði, sem nú geisar, er það augljóst, að hernaðarleg afskipti af landinu verða ekki umflúin, — að herveldi taki sér hér bólfestu og hafi landið undir sinni vernd. Þetta gildir ekki aðeins Ísland. Það hefur komið í ljós á óyggjandi hátt, að smáríki, sem hafa hernaðarlega þýðingu, og það eins þótt þau hafi tiltölulega sterkar hervarnir, geta ekki, eða réttara sagt fá ekki að vera án herverndar einhvers stórveldis í þessari styrjöld.

Þessi afleiðing núverandi styrjaldar nær einnig til vor, — hjá hernaðarlegri vernd einhvers stórveldis verður, af þeim ástæðum, sem nú voru greindar, ekki komizt.

Af ummælum sendiherra Breta er auðsætt, að brezka ríkisstjórnin telur svo aðkallandi þörf fyrir brezku hersveitirnar annars staðar en hér á landi, að hún hefði talið óhjákvæmilegt að flytja þær að meira eða minna leyti héðan og veikja með því varnir sínar á Íslandi. Með því telur íslenzka ríkisstjórnin, að hættan á hernaðarlegum átökum á Íslandi og kringum það hefði aukizt verulega. Veik vörn virðist bjóða hættunni heim. En með því að ekki virðist verða komizt hjá hervernd fyrir þetta land, liggur í augum uppi, að því sterkari sem þær varnir eru, því minni megi telja líkur til þess, að til hernaðarátaka komi í landinu eða kringum það, og þess vegna sé sterk hervernd sá bezti kostur, sem vér Íslendingar eigum um að velja, svo sem málum er nú háttað.

Ísland er eyland í Atlantshafi; það er, eins og það er orðað, á áhrifasvæði þeirra stórvelda, sem sterkust eru á þessu hafi, Bretlands og Bandaríkjanna. Bretland telur sig, samkvæmt yfirlýsingu brezka sendiherrans, verða að draga úr hervörnum sínum hér á landi. Af því er auðsætt, að það sjóveldi eitt, sem getur veitt okkur sterkasta hervernd, þann bezta kost, sem okkur er eftir skilinn, eru Bandaríkin. Af þessum ástæðum tók ríkisstjórnin þá ákvörðun, sem ég hef gert grein fyrir, að fela Bandaríkjunum hervernd Íslands, og hún leggur á það áherzlu, sbr. 8. lið orðsendingarinnar, m.a., að herverndin sé nægilega sterk.

Ríkisstjórnin telur, að þessi ákvörðun sé, eins og hún og segir í orðsendingunni, í bezta samræmi við hagsmuni Íslands, eins og nú er komið.

Það hlaut einnig að ráða miklu um þá niðurstöðu, sem í þessu máli varð, að með því að fela Bandaríkjum Norður-Ameríku hervernd Íslands, er hún í höndum stórveldis, sem ekki er í styrjöld, í stað Englands, sem er aðili í ófriðnum, hernam landið fyrir rúmu ári, hefur dvalið hér síðan, en flytur nú her sinn burt af landinu.

Það má enn fremur taka það fram, að Ísland hvorki getur né óskar þess að hafa annað en sem vinsamlegasta sambúð og viðskipti við þessi tvö stórveldi, Bandaríkin og Bretland. Þessi stórveldi eru bæði reynd að langri vináttu og vinsamlegum samskiptum við íslenzku þjóðina. vegna legu landsins er það, eins og ég áðan sagði, áhrifasvæði þeirra og á, svo sem nú er komið, eins mikið og nokkurt annað land undir því, að þessi vinsamlegu viðskipti geti haldizt.

Ríkisstjórnin taldi, að jafnhliða því, sem hún fól Bandaríkjunum hervernd Íslands, væri nauðsynlegt að setja fram skilyrði, sem markaði skýrt, á hvaða forsendum samkomulagið um herverndina er reist.

Ég vík hér að þeim skilyrðum, sem sett voru fram gagnvart stjórn Bretlands. Ríkisstjórnin taldi nauðsyn að fá það staðfest, að þótt samkomulag væri gert við Bandaríkin, féllu ekki niður né á nokkurn hátt yrði dregið úr þeim loforðum, sem brezka ríkisstjórnin hefur gefið íslenzku ríkisstjórninni í sambandi við hernám landsins. Þetta hefur brezka ríkisstjórnin staðfest, og þá m.a., að Bretland muni halda áfram hér eftir sem hingað til að styðja viðskipti Íslands og jafnframt styðja hagsmuni þess að öðru leyti. Þetta muni frekar aukið en úr því dregið. — Þá er á það bent af Íslands hálfu, að breyta þurfi nokkrum atriðum í brezk-íslenzka viðskiptasamkomulaginu, einkum greinum um eftirlit með innflutningi og gjaldeyri.

Enn lofar Bretland því að flytja herafla sinn héðan, því að það þótti mikilsverta að herir beggja þjóðanna dveldu ekki í landinu lengur en nauðsyn bæri til.

Af Íslands hálfu er þess og eindregið óskað, að ríkisstjórn Bretlands láti undireins lausa og sendi heim til Íslands þá íslenzka ríkisborgara, sem nú eru í haldi í Bretlandi, og hefur sendiherra Breta í sérstöku samtali við mig í gær á ný staðfest, að orðið verði við þeirri ósk.

Enn fremur lofar Bretland, auk þess að staðfesta þá yfirlýsingu, sem það hefur áður gefið um frelsi Íslands og fullveldi, að skuldbinda sig til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og sjá til þess, að ekki verði gengið á rétt þess í friðarsamningum né á nokkurn hátt að ófriðnum loknum.

Hefur íslenzka ríkisstjórnin þannig loforð þessara tveggja miklu stórvelda um fullt frelsi og fullveldi Íslands nú, og einnig við þá friðarsamninga, sem gerðir verða að ófriðnum loknum.

Þá er að lokum svo ákveðið, að Ísland og Bretland haldi áfram að skiptast á diplomatiskum sendimönnum, og það verði hinir sömu menn að svo stöddu. Telur ríkisstjórnin það mikilsvert.

Þau loforð, sem gefin hafa verið af hálfu Bandaríkjanna, hafa verið birt. Þau munuð þér, háttvirtir alþingismenn, hafa grandskoðað og athugað efni þeirra.

Þessi loforð eru efnislega mikilvæg. Og jafnt og vér höfum fyllilega treyst og treystum loforðum Bretlands, treystum vér loforðum Bandaríkjanna. Bæði þessi stórveldi leggja mikla áherzlu á orðheldni í loforðum og samningum milli þjóða, og þau hafa sýnt, að þau virða þessa reglu engu síður í samskiptum sínum við smáþjóðir.

Brezki herinn var óvelkominn til þessa lands, allur her var og er oss mjög ógeðfelldur í landi voru. Vér vonuðum að fá að lifa hér óáreittir. Vér vissum það, að Bretar eru ein af fremstu menningarþjóðum veraldar, en í sannleika sagt væntum vér þess þó engan veginn, að dvöl hersins í landinu og sambúð hans við þjóðina yrði jafnvandræðalítil almennt og raun hefur orðið á. En nú get ég sagt það, þegar hinar brezku hersveitir eru að fara héðan, að ég tel, að með framkomu hinna fjölmennu brezku hersveita hafi brezka þjóðin enn einu sinni sýnt það, hvað drenglund og prúðmennska er henni almennt í blóð borin. Og ég er viss um, að þetta verður lengi munað meðal hinnar íslenzku þjóðar.

Vér Íslendingar treystum því, að framkoma hersveita hins volduga menningarríkis í Vesturálfu verði þannig, að íslenzka þjóðin megi vel við una, jafnframt því, sem brýna verður það fyrir sérhverjum góðum Íslendingi að haga svo framkomu sinni allri við herinn, að hvorki skorti á prúðmennsku né virðulega drenglund. Það er skylda okkar gagnvart hersveitum þess stórveldis, sem hefur tekið að sér hervernd landsins. En engu síður en áður ber þó að gæta þess, að öll mök við þennan her, öll afskipti af honum framar því, sem nauðsynleg samskipti og eðlileg krefjast, eru til hins verra.

Á þessum stað ræði ég ekki þessa hlið málsins nánar. En sambúð hersins og þjóðarinnar, hvernig þeirri sambúð tekst að haga, er eitt allra mikilsverðasta atriðið í sambandi við þetta mál. Hér er stórt verkefni, sem ríkisstjórn, blöð, útvarp, íslenzk kirkja, stofnanir og félög þurfa að hafa samtök um, að fari sem bezt úr hendi. Það getur vissulega skipt ekki litlu máli fyrir þjóðina, hvernig hér til tekst.

Háttvirtu alþingismenn! Á undanförnum árum hefur næsta oft þurft að taka alveg óvenjulegar og mikilvægar ákvarðanir. Þó var mér og er það ljóst, að ákvörðun í þessu máli er alvarlegri og þýðingarmeiri en ef til vill nokkur önnur, sem íslenzk ríkisstjórn hefur tekið. Ég get fullvissað ykkur um, að ríkisstjórnin íhugaði þetta mál og athugaði gaumgæfilega frá öllum hliðum, áður en hún veitti þau svör, er ég hef skýrt yður frá. Það er hvert orð valið eftir aðstæðum og meint, þegar ríkisstjórnin segir í orðsendingu sinni til forseta Bandaríkjanna: „Eftir vandlega íhugun á öllum aðstæðum og með tilliti til núverandi ástands fellst íslenzka ríkisstjórnin á, að þessi ráðstöfun sé í samræmi við hagsmuni Íslands, og er þess vegna reiðubúin til að fela Bandaríkjunum vernd Íslands.“

Ég get sagt það fyrir sjálfan mig, og ég hygg fyrir hönd allra ráðherranna, að í huga sjálfs mín voru engar efasemdir né eru um það, eftir vandlega íhugun, að ákvörðunin, sem tekin var, er sú eina, sem ég get varið fyrir sjálfum mér, og þá jafnframt frammi fyrir yður og þjóðinni.

Ríkisstjórnin átti þess að sjálfsögðu kost, þegar brezku hersveitirnar færu héðan að meira eða minna leyti, svo sem yfirlýst var, að þær mundu gera, að losna við nokkuð af her úr landinu og veikja þá jafnframt að sama skapi varnir allar og vernd, með því að neita afdráttarlaust,. að her frá Bandaríkjunum kæmi hingað. Eins og nú er komið, treysti ríkisstjórnin sér ekki til, af þeim rökum, er ég hef rakið, að bera ábyrgð á þessu. Hún taldi ekki rétt fyrir þjóðina að víkja á bug boðinni hervernd Bandaríkjanna, meðan á styrjöldinni stendur.

Ríkisstjórnin er sannfærð um það og treystir því, að ákvörðun sú, sem hún hefur gert, sé i meira samræmi við hagsmuni þjóðarinnar og velferð en hin leiðin, sem ég áðan nefndi og var annað úrræðið af tveimur, sem hún átti um að velja.

Ég vil vænta þess, að hið háa Alþingi geti, eftir að hafa kynnt sér alla málavöxtu, fallizt á aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessu máli.