29.10.1941
Neðri deild: 8. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

4. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Í sambandi við þessi húsaleigul. vil ég í fyrsta lagi bera fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. Í 2. gr. er svo kveðið á, að óheimilt sé að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum íbúðarhúsnæði, og í næstu málsgr. segir, að leigusamningar, sem gerðir hafi verið fyrir gildistöku þessara 1., en óheimilir væru eftir ákvæði l. málsgr., séu ógildir. Þetta ákvæði virðist mér vera sett til að tryggja, að eingöngu innanhéraðsmönnum verði leyft að taka á leigu húsnæði. En nú er vitanlegt, að milli 60 og 70 íbúðir eru leigðar setuliðsmönnum, sem verða ekki skoðaðir öðruvísi en sem utanhéraðsmenn. Ég vil spyrja, hvort það sé ekki á móti þessum l., að þessir menn haldi þessum íbúðum, og hvort þau nái ekki yfir þá húseigendur, sem hafa leigt þessum mönnum íbúðarhúsnæði. Eftir bókstaf l. getur maður ekki skilið það öðruvísi en svo, að leigusamningar, sem erlendir setuliðsmenn gerðu, áður en þessi l. öðluðust gildi, séu úr gildi fallnir. Og hvernig stendur þá á því, að húseigendum skuli haldast uppi að brjóta þannig þessi 1.? Ég kom með fyrirspurn um þetta í blaði því, er ég stjórna, þegar eftir útkomu þessara l., og ég hef líka talað um þetta við lögfræðing, sem er vel inni í þessum málum, og hallaðist hann að minni skoðun, en blöðin hafa ekki fengizt til að kveða upp úr um skoðun á þessu. Ég vil því vona, að a. m. k. hér á Alþ. fáist svar við því, hvað stj. meinar með þessu, en eins og kunnugt er, er það a. m. k. ein af orsökunum til húsnæðisvandræðanna hér í Reykjavík, hversu mikið húsnæði erlenda setuliðið hefur á leigu. Ég fer ekki út í það, sem er grundvallarástæðan til húsnæðisvandræðanna, sem er bókstaflega það, að síðustu 10–20 árin hefur ekki verið hirt um að byggja eins og hefur þurft, og svo rammt kveðið að því, að 1., sem Alþ. setti fyrir 10–12 árum um að útrýma öllu kjallaraíbúðum í Reykjavík, hafa ekki verið framkvæmd betur en svo, að nú eru hér í Reykjavík þrisvar sinnum fleiri kjallaraíbúðir en þegar þessi 1. gengu í gildi.

Af því að talsvert hefur verið talað um, hvers vegna stj. á síðasta augnabliki hafi farið að setja l. eins og þessi, þá vil ég minna á, að á síðasta reglulegu Alþ. var vakið máls á því hér á þingi, hver nauðsyn væri á að setja 1. til að bæta úr húsnæðisvandræðum þeim, sem auðsjáanlega væru fram undan. Þá flutti hv. 1. landsk. þm. frv. í Ed. um bráðabirgðaráðstafanir til þess að tryggja mönnum húsnæði. Þar var lagt til, að hægt væri að skammta húsnæði, þannig að þeir, sem hefðu óþarflega mikið húsnæði, væru skyldir til að láta nokkuð af því. Þar var enn fremur ákvæði um, að óheimilt væri erlendum setuliðsmönnum að taka íbúðir á leigu. Um þetta var ekki hirt, en ef Alþ. hefði sýnt þá forsjálni að athuga þetta mál þá, hefði hæstv. stj. ekki þurft að grípa til þessara bráðabirgðal. nú. Þá hefði verið ráðið fram úr brýnustu augnabliksþörfunum og a. m. k. á ekki óheppilegri hátt en gert er með þessum l.

Á það var minnzt við fyrri hl. þessarar umr., ég held, að það hafi verið hv. 1. þm. Rang., að ólíkt hefði verið aðhafzt, þegar knúið var á dyr sveitafólksins af hálfu kaupstaðarbúa í vor, en nú væru bæjarbúar að útiloka utanhéraðsmenn frá að fá húsnæði hér í Reykjavík. Þessu með utanhéraðsmennina hefur nú verið svarað, en hitt vil ég minnast á, að það kom fram rödd í þinginu, reyndar ekki í þessari hv. d., í fyrra, þegar verið var að ræða um að tryggja konum og börnum bæjanna húsnæði úti um sveitirnar, að vissar vistarverur, sérstaklega skólar, væru allt of góðar handa konum og börnum kaupstaðanna. Til allrar hamingju voru þessi rök ekki endurtekin í þessari d. og enginn maður hér, sem með þeim vildi standa. Hitt er sannleikur, að sams konar hugsunarháttur og er á bak við þetta hefur komið fram í kaupstöðunum af hálfu sumra þeirra, sem mest og flottast hafa húsnæðið. Það hefur verið staðið á móti því, að stóríbúðir auðmannaheimilanna væru skertar til þess að bæta úr stærstu vandræðunum, vegna þess að þessar íbúðir væru of fínar fyrir alþýðuna. Í stað þess fær maður að upplifa það, að fram úr þessu sé ráðið á þann hátt, að konum sé kúldrað niður austur í Valhöll, en karlmönnum í sóttvarnarhúsið, sumir hafa komizt til kunningja sinna og láta þar fyrirberast án þess að geta haft nokkurt heimilislíf. Ég vil nú spyrja þá, sem réttilega gagnrýna þessa eigingirni auðmannanna í Reykjavík í sambandi við þetta mál: Hvernig stendur á því, að Framsfl. hefur aldrei komið fram með till. um að skammta húsnæði? Það er til lítils að tala fagurlega á móti eigingirni auðmannastéttarinnar og renna svo, þegar á hólminn er komið.

Ég held því, að það, sem þarf að gera við þessi brbl., sé að bæta inn í þau ákvæðum um skömmtun húsnæðis. Ýmislegt fleira þarf þar að lagfæra, en þó sérstaklega þetta. Býst ég við, að við 2. umr. muni þm. Sósíalistafl. flytja brtt. í þá átt.