29.10.1941
Neðri deild: 8. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

4. mál, húsaleiga

Sveinbjörn Högnason:

Þegar þetta mál var hér síðast til meðferðar, gerði ég nokkrar almennar aths. við það, sérstaklega um framkvæmd málanna eins og hún hefur verið hjá húsaleigunefnd. Hæstv. félmrh. taldi sig hafa svarað þessu að nokkru leyti síðast, en ég álít, að því hafi ekki verið svarað nema út í hött. Ég lagði fram spurningar, sem hann svaraði mjög óákveðið. Ég benti á það misrétti, sem væri í þessari lagasetningu, sem hann hefur komið með sem brbl., þar sem bannað er að leigja utanhéraðsmönnum húsnæði, en á hinn bóginn var á síðasta reglulegu Alþ. komið með l., sem heimiluðu að taka leigunámi allt nothæft húsnæði í sveitum landsins til þess að koma Reykvíkingum og öðrum kaupstaðarbúum þar inn. Ég vil nú endurtaka þær spurningar, sem ég kom með til hæstv. félmrh. síðast, svo að þar fari ekkert milli mála og hann skilji rétt, hvað ég hef átt við í þessu efni.

Hæstv. ráðh. taldi, að það væri rétt hjá mér, að húsaleigun. væri settur ákveðinn frestur til þess að kveða upp úrskurði sína, það væru 14 dagar, en mér skildist, að hún væri ekki skyldug til að taka tillit til þess, hún gæti haft til þess ýmsar ástæður. Ég vil þá spyrja: Getur hún þá ekki skotið heilum atriðum hjá sér, lagt þau alveg til hliðar? Og mér skilst, að hún geri það að miklu leyti. Hæstv. ráðh. sagði, að n. væri heimilt að víkja frá settum reglum eftir vild. Mér skildist, að það skipti engu máli, þó að fresturinn væri framlengdur áfram og áfram, en þá eru þetta gersamlega gagnslaus 1., ef á þannig að fara eftir þeim eftir eigin geðþótta n. og hafa svo engan annan aðila til að skjóta málunum til, eins og hv. síðasti ræðumaður talaði um, því að það virtist vera aðaláhugamál hans að fá einhvern yfirdómstól.

Ég nefndi dæmi síðast um vinnubrögð húsaleigun. og gæti nefnt mörg fleiri. Ég veit um mál, þar sem n. úrskurðaði út 3 fjölskyldur og gerði það ekki fyrr en 3. okt., tveimur dögum eftir flutningsdag. M. a. voru sjúklingar í húsinu. Þetta fólk varð að flytja í lélegan sumarbústað, og það varð úrskurðað út fyrir mann, sem hefur 3 hús til einkaumráða. Eitt af þeim var þetta hús, og svo átti hann tvö önnur, annað þeirra uppi í Mosfellssveit. Til hvers er að setja l., ef þetta getur gengið? Til hvers er að setja l., ef á að framkvæma þau svona og svo enginn yfirdómstóll til að áfrýja til? Við þessu vil ég fá svör, skýr og afdráttarlaus.

Þá spurði ég hæstv. félmrh., hvort n. væri ekki skyldug til að fylgja 1. um að gefa út úr skurðina innan ákveðins tíma. Hann svaraði því á mjög tvíræðan hátt. Í öðru lagi spurði ég, hvort n. ætti ekki að úrskurða eftir því ástandi. sem fyrir hendi var, þegar sagt var upp, eða eftir einhverju öðru ástandi, sem hægt er að skapa, meðan málið er dregið vikum saman. Við þessu fékk ég ekki heldur neitt svar. Það skilst mér, að sé ekkert lítið atriði, hvort húsaleigun. á að byggja á þeim ástæðum, sem fyrir hendi eru, þegar sagt er upp, eða hvort á að bíða eftir því, að húseigandi skapi alveg nýjar ástæður. Við þessu fékk ég engin svör hjá þessum hæstv. ráðh., sem á að hafa yfirumsjón með eins stórfelldu atriði og þessu, hvernig á að framkvæma það. Til hvers á að leita, ef ráðherra getur ekki leyst úr spurningum?

Þá er eitt atriði enn í húsaleigul., sem ég verð að spyrja um. Mikið er um það hér í Reykjavík, að húseigendur leigja ekki notendum húsnæðisins beint, heldur einhverjum, sem fengið hefur húsnæðið á leigu og leigir síðan öðrum til notkunar, ýmist heila íbúð eða einstök herbergi út frá íbúð sinni. Er ekki heimilt, ef húseigandi óskar, að segja upp þessum milliliðum? Eða er það á hinn veginn, að óheimilt sé að segja upp milliliðunum, en þeir geti sagt upp hinum, sem þeir hafa framleigt? Þetta hefur orðið ágreiningsefni, og ég veit mörg alvarleg dæmi til þess. Ég vildi mjög gjarnan óska eftir greinilegum svörum eða þá, ef lagaákvæði skortir, að skýrar reglur yrðu settar um þetta á einhvern hátt, þar sem heimilað yrði að segja upp milliliðum, en hindrað, að milliliðirnir geti hrakið sjálfa leigjendurna úr húsnæði án saka. Það er óneitanlega hart, ef húseigandi og hinn eiginlegi leigjandi eiga ekki að fá að ráða málum sínum fyrir milliliðum. Ég tel nauðsynlegt, að það komi fram, áður en málið fer ti1 n., hvort talið er, að þetta eigi að haldast eins og er eða reisa beri skorður við því.

Ég tel ýmislegt fleira við húsaleigul. mjög athugavert, en sé ekki ástæðu til að ræða það, fyrr en n. hefur fjallað um málið.