29.10.1941
Neðri deild: 8. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

4. mál, húsaleiga

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 1. þm. Rang. frekar en ég hef þegar gert, en út af almennum umr. um nauðsyn á yfirdómstigi vil ég taka fram, að ef menn álíta, að í því felist aukið réttaröryggi, er sjálfsagt að taka það til athugunar, þótt ég hins vegar álíti, að það sé vafasamt, að svo sé. Og ef menn kvarta nú undan því, að seint gangi með úrskurði hjá húsaleigunefnd, þá munu þeir dragast enn lengur hjá yfirdómstiginu.

Út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. um, hvort ekki sé hægt að koma fram ábyrgð á hendur húseigendum, ef þeir gerðu ekki tilraun til þess að losa sig við setuliðsmenn, sem byggju í húsum þeirra, vil ég segja, að það má vel vera, að það sé hægt. Hins vegar óttast ég, að ef „samspil“ er á milli húseiganda og setuliðsmanna, væri auðvelt að koma því svo fyrir, að húseigandi yrði ekki refsiskyldur, þótt setuliðsmenn sætu áfram.

En sjálfsagt er að athuga, hvað unnt er að gera í því efni.