11.11.1941
Neðri deild: 20. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

4. mál, húsaleiga

Frsm. (Jóhann G. Möller) :

N. hefur athugað þetta frv. og kallað á sinn fund stjórn Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur og einnig húsaleigun. hér í bænum. Það virðist svo, að ekki ríki mikil hrifning í húsaleigun. út af þessum brbl. um húsaleigu, sem gefin voru út í haust, og má með sanni segja, að þau séu ill nauðsyn. Ákvæði þeirra eru mörg hörð og koma sérstaklega hart niður á húseigendum. Ef til vill mætti mýkja þessi ákvæði eitthvað, og hefur n. athugað það, en samt hefur n. komizt að þeirri niðurstöðu, að eigi beri að hrófla við 1. að sinni, en aftur á móti sé sjálfsagt að nema þau úr gildi strax og þess er kostur, en n. álítur það ekki geta orðið fyrr en rýmkast um húsnæði í bænum, svo húsnæðisvandræðin réni að mestu leyti.

Eftir upplýsingum, sem n. hefur fengið um byggingar hér í bænum, þá eru þær allt að helmingi meiri en áður, og ætti þess vegna að rætast úr með húsnæði. N. leggur því til, að 1. falli úr gildi eftir næsta flutningsdag, nánar tiltekið 15. júní 1942.

Ekki mun þó vera öruggt nema svipuð ákvæði þurfi að setja eftir þann tíma, en gera má ráð fyrir, að þau geti orðið miklum mun vægari.

Ég sé svo enga ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en vil endurtaka, að n. álítur 1. þessi illa nauðsyn og að þau beri að afnema strax og þess er kostur.