11.11.1941
Neðri deild: 20. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

4. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Eftir því sem mér skilst, er það álit hv. allshn., að þessi 1. séu of hörð gagnvart húseigendum og af þeim ástæðum sé það nauðsynlegt, að þau séu felld úr gildi sem allra fyrst. Ég vil nú segja, að mér finnst það nokkuð einkennileg tilfinningasemi hjá þeirri hv. n., ef hún hefur alls ekki munað eftir því, þegar hún fjallaði um þessi l., að ástandið í húsnæðismálunum hefur verið of hart, þannig að fjöldi fjölskyldna hefur ekkert húsnæði nú sem stendur. Hér í Reykjavík skiptir það tugum fjölskyldna, sem hefur orðið að leysa upp nú af þeim ástæðum. Sumar þeirra hefur orðið að senda burt úr bænum, t. d. austur á Þingvöll. Aðrar fjölskyldur hefur orðið að leysa þannig upp, að konunum og börnunum hefur orðið að koma fyrir hjá fjölskyldufólki, en fjölskyldufaðirinn hefur svo getað fengið að hírast einhvers staðar á öðrum stað. Þetta ástand er hér í Reykjavík vegna þess að Sjálfstfl., gegnum meiri hluta bæjarstjórnar, hefur um síðasta áratugs skeið algerlega bannað að gera nokkurn tíma nokkurn skapaðan hlut í húsnæðismálum Reykjavíkur. Hann hefur haft hvert tækifærið af öðru til þess að byggja húsnæði fyrir íbúa þessa bæjar, en hann hefur heldur kosið að borga 300 þús. kr. á ári fyrir fólk, sem bærinn hefur orðið að sjá um, heldur en að koma upp viðunandi íbúðum fyrir þetta fólk. Ástandið hefur verið þannig, að l., sem þingið hefur sett fyrir 12 árum, hafa verið þverbrotin til þess að hægt væri að leigja út kjallaraholur, sem dæmdar hafa verið óhæfar til íbúðar, vegna þess að þær hafa verið í eign manna, sem fylgja Sjálfstfl. Ég álít þess vegna ekki, að hér hafi verið sett l., sem séu of hörð fyrir húseigendur. Og ef lagt er til að afnema þessi 1. eftir ákveðinn tíma, áður en séð er fyrir, að ástandið hafi batnað í húsnæðismálunum, þá verður sú stefna til þess að viðhalda því ástandi í húsnæðismálunum, sem er alveg óþolandi fyrir Reykvíkinga og aðra íbúa þessa lands. Ég get því ekki skilið, hvernig hv. allshn. hefur getað orðið sammála um að leggja til annað eins og þetta. Það, sem frekar hefði þurft, var, að komið hefðu till. fram frá n. til þess að ráða bót á húsnæðisvandræðunum. Ég held, að í fyrsta lagi hefði n. átt að tala við þá, sem sérstaklega hafa með það að gera að sjá þeim fyrir húsnæði, sem húsnæðislausir eru. Ég sé, að n. hefur kallað til viðræðna við sig húsaleigunefnd og stjórn Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur, en n. hefur ekki séð ástæðu til að rannsaka sjálf núverandi ástand í húsnæðismálum Reykjavíkur, það ástand, sem er hér í bænum á þessu sviði eftir 10 ára sleifarlag á stjórn þessara mála. Ég get skilið, að stjórn Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur hafi komið fram með þá hlið málsins, sem húseigendum og hagsmunum þeirra við kom. Ég get líka skilið, að hv. allshn. hafi e. t. v. komizt að þessari niðurstöðu. sem í nál. getur um, að fella þessi ákvæði húsaleigul. úr gildi eftir ákveðinn tíma, við það að hlusta í húseigendur útmála það, hversu skelfilegt það sé að geta ekki notað þessar eignir betur en þeir geti eftir þessum l. En hv. allshn. hefði átt einnig að hlusta á þær fjölskyldur, sem ekkert þak eiga yfir höfuðið hér í bænum og er sundrað vegna þess að ómögulegt er að fá húsnæði handa þeim. Og n. hefði átt að skyggnast eftir, hvernig stendur á þessu og hverjum þetta er að kenna. Ég get hugsað mér, að ef slík l. sem þessi héldust einhvern tíma, gerðu þeir, sem stjórna eiga þessum málum hér í Reykjavík, eitthvað meira í húsnæðismálunum en raun hefur borið vitni hingað til.

Ég hélt því fram við 1. umr. þessa máls, að það, sem vantað hefði í sambandi við þetta mál, væri framkvæmd 1. Þá var upplýst, að ég held, að það væru 64 íbúðir, sem brezka setuliðið hefði hér í bænum. Samkvæmt 1. þessum er þeim bannað að hafa á leigu íbúðir í bænum. Og það var líka upplýst af hæstv. félmrh., að þessir menn, sem leigja setuliðinu, væru brotlegir við 1. En engin gangskör var að því gerð að losa þessar íbúðir til afnota fyrir Íslendinga. Hvers vegna hefur n., sem tekið hefur þetta mál til athugunar og að sjálfsögðu vill hafa hugmynd um, hvernig ástandið sé í húsnæðismálunum, ekki spurt stjórn Fasteignaeigendafélagsins að því, þegar hún hafði tækifæri til að tala við hana, hvernig stæði á þeim einkennilega þegnskap að brjóta l. til þess að bola Íslendingum burt úr íbúðarhúsnæði bæjarins og leysa upp og flytja burt úr bænum heilar fjölskyldur svo tugum skiptir, til þess, svo sem kunnugt er, að leigja Bretum íbúðirnar í staðinn? Ég held, að þessi n. hefði átt að athuga ástandið í húsnæðismálunum hér og það, hvers vegna l., sem hér hafa verið sett um það efni, eru ekki framkvæmd. Nefndin kvartar ekki yfir því í nál sínu, að húsaleigulögin hafi ekki verið framkvæmd, heldur því, að þau leggi kvaðir á húseigendur. Það er ekkert tekið fram um það í nál., hvernig húseigendur hafi gegnt þessum kvöðum. Svo segir hv. frsm. allshn., hv. 6. þm. Reykv., að n. hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að líkindi mundu til þess, að 15. júní 1942 mundu húsnæðisvandræðin vera horfin að verulegu leyti. Hann sagði sem sé, að þau rénuðu að verulegu leyti, og lagði svo til, að 1. yrðu numin úr gildi á þessum tíma. Ég get ekki séð, hvaða ástæðu n. hefur til þess að koma fram með slíka till. Á síðasta ári held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að hafi verið byggt minna í Reykjavík heldur en nokkurn tíma áður. Hvað hefur n. gengið út frá, að þyrfti að byggja margar íbúðir í ár? 400? Mig minnir, að um 200 íbúðir hafi verið byggðar á síðasta ári; vil þó ekki fara nákvæmlega út í tölur í því sambandi. En bezt væri að hafa tölur viðvíkjandi þessu. Ég held, að það hefði átt að rannsaka þetta. En þó að byggt væri í ár meira heldur en nokkru sinni áður, býst ég samt ekki við, að þessi tvö ár verði að meðaltali normal-ár í því efni. Það, sem byggt hefur verið á ári hverju, hefur aldrei bætt úr skortinum á húsnæði hér í Reykjavík með því að fullnægja þörfinni á auknu húsnæði, heldur hefur það orðið í hæsta lagi til þess, að skorturinn ykist ekki að verulegum mun. Ég hygg, að byggingarnar í ár og í fyrra geri ekki meira en að hamla á móti því, að ástandið versni í íbúðarmálunum í bænum, þannig að það sé eftir það jafnslæmt og það áður var. Enn fremur er setuliðið í sumum íbúðum bæjarins, og einnig er fólksstraumur til bæjarins meiri nú en nokkru sinni áður. Það er því talað alveg út í bláinn af hv. allshn., — því að hún hefur ekki heldur komið fram með neinar tölur —, að húsnæðisvandræðin, sem hér eru nú í Reykjavík, muni hafa rénað að verulegu leyti 15. júní 1942. Ég hygg, að það, sem við eigum fram undan á næstunni, sé erfiðari aðflutningar til landsins, og að það sé þess vegna afar tæpt að byggja á því, að eftir eitt og hálft missiri verði orðin breyt. á til bóta í húsnæðismálunum svo mikil, að hægt sé að fella úr gildi þessi 1. Mér virtist hæstv. félmrh. ganga út frá þessu sama, að Það sé ekki nema út í bláinn að vera að tiltaka einhvern vissan dag, þegar l. þessi eigi að falla úr gildi. Ég álít þess vegna þessa till., sem hv. allshn. ber hér fram, alveg ófæra.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því í sambandi við þetta, — þá að það kunni að fara svo, að það verði ekki til neins, — að það virðist vera óþarfi að fella það úr íslenzkum l., að ekki megi leigja erlendu setuliði. Nú kunna menn kannske að segja, að Bretarnir muni verða farnir burt af landinu um þetta leyti næsta ár, þó að menn viti það náttúrlega ekki, og ameríska setuliðið muni ekki sækjast eftir húsnæði hér í bænum. Herstjórnin ameríska hefur lýst yfir því, að ameríska setuliðið muni ekki sækjast eftir þessu húsnæði, en mun hafa gert það vegna húsnæðisvandræðanna. En ef rétt reynist, að 15. júní 1942 hafi vandræðin í þeim efnum rénað verulega, þá getur svo farið, að amerísku liðsforingjana langi til að hafa eigin íbúðir hér í bænum alveg eins og þá brezku. Ég álít einnig þess vegna alveg óþarft að setja það í l., að það eigi að fella þau úr gildi eftir vissan tíma. Aðeins eitt gæti réttlætt slíkt, og það er það, ef hæstv. Alþ. sýndi í verkinu, að það gerði eitthvað til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum, t. d. með því að tryggja byggingarefni til þess að koma upp íbúðarhúsum. Hins vegar vitum við, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur haft á orði að byggja 100 bráðabirgðaíbúðir, en þegar til framkvæmdanna kemur, virðist ekki eiga að byggja nema helminginn af því. Þessar úrbætur virðast mjög gufa upp, þegar til framkvæmdanna kemur.

Hins vegar vil ég ítreka það, sem ég tók fram við 1. umr. málsins, að hvað húseigendur snertir koma þessi 1. kannske illa við smærri húseigendur. En gagnvart þeim húseigendum hér í bæ, sem eiga stærst hús og hafa bezt húsnæði fyrir sjálfa sig, eru þessi l. ekki ströng, enda eru þau ekki miðuð við þá. Það er ekki verið að neinu leyti að ganga á rétt þeirra manna hér í bænum, sem lengi hafa búið í stórum íbúðum, lúksusíbúðunum. Hins vegar hefur réttur þeirra húseigenda verið þó nokkuð þrengdur, sem yfirleitt hafa leigt út.

Ég tilkynnti við 1. umr., að hv. 4. landsk. og ég mundum koma með brtt. viðvíkjandi þessum l. Nú hefur þetta mál komið hér inn í hv. d. með afbrigðum, þannig að mér hefur ekki unnizt tími til að flytja brtt. áður. En brtt., sem ég vildi flytja, fer fram á að gefa bæjarstjórnum landsins heimild til þess að skammta húsnæði, þannig að þar, sem eru yfir 20 gólfflatarfermetrar á mann, sé leyfilegt að taka íbúðir handa húsnæðislausu fólki. Fyrir þá, sem talað hafa hér sérstaklega um það, að með þessum l. sé þrengt að rétti húseigenda, vil ég vekja athygli á því, að það er aðeins einn hluti þeirra, sem þrengt hefur verið að. En ef á að þrengja að þeim yfirleitt, ættu „villu“-eigendurnir alveg eins að geta þrengt að sér eins og aðrir húseigendur. Ég býst líka við, að afleiðingin af því að samþ. það ákvæði, sem ég gat um, að ég ætlaði að koma fram með till. um, mundi verða sú, að fjöldinn af þeim mönnum, sem sú málsgr. mundi ná yfir, mundi af sjálfsdáðum leigja út það, sem þeir gætu misst af húsnæði, heldur en að láta bæjarstjórnirnar taka það húsnæði til ráðstöfunar handa húsnæðislausu fólki.

E. t. v. væri réttara að fresta brtt. mínum til 3. umr. Það kemur í sama stað niður, og er e. t. v. betra að hafa þær prentaðar, En ég vildi minnast á þær um leið og við afgr. málið við þessa umr.

Það er engum blöðum um það að fletta, að á tímum eins og nú eru verður að þrengja að rétti manna á ýmsan hátt. Það er óhjákvæmilegt á styrjaldartímum að svipta menn að meira eða minna leyti umráðarétti yfir því, sem er þeirra eign; það getur orðið lífsskilyrði fyrir þjóðina, ef hún á að geta lifað. Og það eru ekki þungar búsifjar, sem efnaðir menn verða fyrir, þó að þeir séu knúðir til þess að stækka ekki við sig húsnæði, meðan annað eins neyðarástand ríkir í húsnæðismálum eins og nú er. Prinsipielt er það alveg rétt, að það er skerðing á eignarréttinum. En ég held, að það sé skerðing á eignarréttinum, sem þeir, sem fyrir verða, næstum megi þakka fyrir að sleppa með, eins og á stendur. Það er regla, sem verður að gilda í svona kringumstæðum, að einstaklingshagsmunirnir verði að víkja fyrir almenningsheill. En það er eftirtektarverð táknmynd þess, hvað hagsmunir einstakra, fámennra stétta eiga öfluga fulltrúa hér innan þingveggjanna, að slíkar till. koma fram eins og þær, sem hér koma fram frá hv. allshn., en um leið koma engar till. fram viðkomandi þessum l. til úrbóta fyrir þá, sem húsnæðislausir eru. Enginn efast um það, að þrengt er að kosti húseigenda. En þeim er um það að kenna, sem hafa hindrað það, að nægilegt húsnæði væri til t. d. hér í Reykjavík. Þegar stjórn Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur kvartar yfir þessum l. við þingn., þá ætti hún fyrst og fremst að snúa sér til bæjarstjórnar Reykjavíkur. En af hverju hefur sú bæjarstjórn ekki viljað byggja á undanförnum árum? Af því að hún hefur viljað hjálpa til með það að halda uppi húsaleigunni í Reykjavík. Þannig er keðjan í þessu máli öllu saman. Það er sjálfskapað viti, sem hér er um að ræða. Þeir, sem ráðið hafa mestu í Sjálfstfl., hafa gegnum fulltrúa sína í bæjarstj. getað hindrað það, að hér hafi verið farið eins að og í öðrum höfuðborgum Norðurlanda, að byggt sé fyrir fólkið. Og þegar svo styrjöld kemur og ekki er hægt að byggja um tíma, þá verður að grípa til þeirra óyndisúrræða að svipta eigendur að nokkru leyti yfirráðarétti yfir sínum eigin íbúðum. Út úr þessum vítahring er aðeins hægt að losna á þann hátt að byggja verulega mikið og losna þannig úr þeim húsnæðisvandræðum, sem hafa verið hér um áratugs skeið og jafnvel lengur. Ég held þess vegna, að sú till., sem hér liggur fyrir frá hv. allshn., stefni algerlega í ranga átt. Ég mun hins vegar freista þess að fá fram brtt. þá, sem ég lýsti áðan.