17.11.1941
Neðri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

4. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Ég á till. á þskj. 47 ásamt hv. 4. landsk. Þarf ég ekki að ræða þessa till. mikið, því að málið var rætt ýtarlega við 2. umr. Við leggjum til, að heimilt sé að taka til afnota fyrir heimilislaust fólk það húsnæði, sem fjölskyldur hafa umfram 20 gólfflatarmetra fyrir hvern fjölskyldulim. Þessi skömmtun kæmi skv. þessu aðeins til greina, þegar um lúxusíbúðir væri að ræða, og er þetta ekki nema sanngjarnt, þegar þess er gætt, að aðrir húseigendur hafa einnig verið sviptir að nokkru leyti ráðum yfir húsnæði sínu. Enda ætti þeim auðvitað að vera það þægilegast af öllum, þar sem þeir hafa gnægð húsnæðis. Þessi brtt. okkar fer fram á það að bæta nokkuð verulega úr húsnæðisvandræðunum og líka hitt, að láta ráðstafanir gagnvart húseigendum koma réttlátar niður heldur en nú er.