17.11.1941
Neðri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

4. mál, húsaleiga

Sigurður Kristjánsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 48, þess efnis, að í fyrri mgr. 1. gr. frv. komi í stað orðanna „til eigin íbúðar“: til íbúðar fyrir sjálfan sig eða vandamenn sína, sem taldir eru í 2. málsgr. 9. gr. laga nr. 87 19. júní 1933 (ábúðarlög). — Í húsaleigul. er eigendum áskilinn þessi réttur, en hann fellur burt með þeirri breyt., sem nú stendur til að verði gerð á l. Leiga á húsi til annarra er mjög hliðstætt mál við leigu jarða. Og í ábúðarl. er ákvæði í 9. gr. um það, hvenær jarðeigandi má segja upp jarðnæði, sem annars er í lífstíðarábúð. Það stendur hér í 9. gr. þeirra l., sem ég ætla að lesa upp — með leyfi hæstv. forseta:

„Ekkja leiguliða hefur ábúðarrétt hans þar til hún giftist að nýju. Heimilt er þó landsdrottni að taka jörð eða jarðarpart úr lífstíðarábúð handa sjálfum sér, foreldri sinu, systkini, barni, stjúpbarni, tengdabarni eða kjörbarni, fósturbarni eða barni þeirra til ábúðar, nema landsdrottinn hafi fallið frá þessum rétti í byggingarbréfi.“

Mér virðist þetta vera mjög hliðstætt, og það er a. m. k. áreiðanlegt, að sökum þess, að það eykur í raun og veru ekkert húsnæðið í bæjunum, þó að skipt sé um leigjanda, þá er eðlilegt, að húseiganda sé þó áskilinn sá réttur, að hann megi frekar velja nánustu vandamenn sína til þess að leigja þeim heldur en óviðkomandi mönnum. Hans réttur er í raun og veru nógu lítill, þó að honum sé veitt þetta. Þegar l. upphaflega voru sett, þótti þetta ákvæði eðlilegt, og þess vegna var mönnum þá heimilað að segja upp húsnæði til þess að leigja það vandamönnum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja um þetta. Og sökum þess, að þessi breyt., ef brtt. mín væri samþ., raskar ekki neinu öðru í frv. en því, sem hún beinlínis er miðuð við, skv. því, sem ég hef tekið fram, vænti ég þess, að hv. d. sama hana.