17.11.1941
Neðri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

4. mál, húsaleiga

Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. félmrh. telur sig ekki geta mælt með brtt. minni á þskj. 48, sökum þess að með samþykkt hennar væri opnuð leið til þess að húseigendur söfnuðu í sín hús vandamönnum sínum, sem væru búsettir utan bæjar, og tækju þannig húsnæði frá mönnum, sem búsettir væru í bæjunum, sem þessum 1. er ætlað að rýmka um húsnæði fyrir.

Sökum þess að þetta var eina ástæðan, sem hæstv. félmrh. færði fram fyrir því, að hann gæti ekki mælt með brtt. minni, og vegna þess að ég hygg, að þetta sé eina ástæðan fyrir því, þykir mér gott að geta upplýst það, að þessi afstaða kemur bara af gleymsku hæstv. ráðh., því að í hans eigin brbl. og því frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt í 2. gr. girt fyrir þetta, því að sú gr. hefst með þessum orðum, — með leyfi hæstv. forseta:

„Húseiganda er óheimilt að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum íbúðarhúsnæði.“

Þetta er upphaf 2. gr. frv., en mín brtt. á við 1. mgr. 1. gr. og raskar á engan hátt 2. gr. frv.

Þess vegna geri ég ráð fyrir, að hæstv. ráðh. geti fallizt á brtt. mína að þessu upplýstu.

Út af ummælum hæstv. félmrh. um brtt. á þskj. 46, frá hv. þm. V.-Sk. og hv. 1. þm. Rang., vildi ég segja það, að það er að sönnu alveg rétt, að slíkt fyrirkomulag mundi að einhverju leyti seinka úrskurðum. En það er engin leið að komast hjá því yfirleitt, að mál tefjist við það að fá rétta niðurstöðu. Og það er ekki næg ástæða til að vera á móti þessari brtt., að slík breyt. á 1. kynni að tefja úrskurði og mundi gera það sennilega oft eitthvað lítils háttar. Hitt er aðalatriðið, að rétt niðurstaða fáist. Ég held, að það hafi verið ég, sem fyrst hreyfði því hér í hv. d., að nauðsynlegt væri, að hægt væri að áfrýja úrskurðum húsaleigun. Og ég get ekki séð, að það verði forsvarað í svona miklu hagsmunamáli, að vikið sé frá svo sjálfsagðri og algildri reglu að mega skjóta málum til annars úrskurðar, ef menn telja úrskurð rangan og skaða sig að verulegu leyti. Þar af leiðandi sé ég ekki, að það sé hægt fyrir hæstv. Alþ. að synja um þetta öryggi fyrir þá menn, sem þessi miklu hagsmunamál snerta. Og ég vildi vænta þess, að hv. þdm. sæju sér fært að vera einnig með þessari brtt.