20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

4. mál, húsaleiga

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég vissi alltaf, að hæstv. félmrh. mundi kveinka sér undan brtt. minni, og er það ekki nema von, þegar hann stendur að þessum brbl. En ræða hans var alveg byggð á misskilningi, því að þótt þess sé getið í húsaleigul., að áfrýja megi til æðri dómstóla, þá þýðir það engan veginn það, að dómstólarnir ákvarði neitt um það, sem húsaleigun. hafa gert. Það, sem þeir gera, er að rannsaka málavöxtu.

En það, sem húsaleigun. eða nefndir, sem úrskurða í húsaleigumálum, hafa ákveðið með sínum fullkomna löglega rétti um það, hvað fram skuli fara í einu eða öðru, það taka dómstólarnir yfirleitt ekki til meðferðar, heldur hitt, hvort þessar n. hafi farið löglega að. Og það er misskilningur hjá hæstv. félmrh., ef hann heldur, að það sé eingöngu kallað mat, sem ákveður um upphæð á húsaleigu. Svo er ekki, heldur er þar einnig átt við úrskurði um það, hvernig skuli fara með húsnæði, svo sem það, hver skuli hafa réttinn til að nota það, en einnig, hver leigumálinn skuli vera. En það síðast talda er það auðveldasta viðfangs af þeim málum, sem til úrskurðar geta komið, með því að í raun og veru er það lögfest, hver leigumálinn sé. Og þó að menn hafi komið þessum málum til dómstólanna, þá er það um mat og ákvæði um upphæðina að segja, að í því sambandi úrskurða dómstólarnir aðeins um það, hvort löglega hafi verið að farið hjá þeim n., sem úrskurðina hafa fellt, og þeir leiðrétta því aðeins upphæðina, ef ekki hefur verið löglega að farið. En um allar aðrar ákvarðanir um húsnæði er það að segja, að þeim telja dómstólarnir sér ekki skylt að breyta, heldur samþ. þeir það, sem n. hafa gert, svo framarlega að þær hafi farið löglega að. En yfirmatsnefnd hefði skyldu — ekki aðeins rétt, heldur skyldu — til þess að rannsaka allar aðfarir og ákvarðanir húsaleigun. og breyta þeim eftir vild. Hér er því ekki verið að skapa það dómstig, sem áður sé til. Hins vegar er sjálfgefinn rétturinn til að vísa þessum málum til dómstólanna, þó að það hafi verið minnzt á þann rétt hér í þessum 1., eins og til að milda það fyrirkomulag að hafa ekki það yfirdómstig, sem menn eiga fyllsta rétt á að hafa í þessum málum.

Í annan stað er þess að geta, sem hæstv. félmrh. bar fram, að hér í Reykjavík væri þessu vel fyrir komið. Ég tel það vel farið, að húsaleigun. hér er svo skipuð, að í henni eru menn með fullkomna lögfræðiþekkingu, og þeir, sem í n. eru, eru vanir lögfræðilegum úrskurðum. En það var einmitt með þetta fyrir augum, að boðið var upp á, að þetta ákvæði um yfirmatsn. í þessu efni gilti aðeins um þær n. utan Reykjavíkur, sem færu með húsaleigumál, því að þar var framkvæmd þessara mála ábótavant. Það er svo, því miður, um landið þvert og endilangt, að þar eru þessar n. víða ekki skipaðar neinum manni með lögfræðiþekkingu, og því er mjög hætt við því, þó að þetta séu annars góðir menn, að þeir verði fyrir ýtingi og áróðri, þar sem þeir hafa ekki löfræðiþekkingu að styðjast við. En yfirmatsn. í slíkum málum er ætlað að vera algerlega óháðum og þeim ekki ætlað að þurfa að taka tillit til neins annars á hverjum stað en þess, sem er sanngjarnt og löglegt.

Nú höfum við, sem berum fram þessa brtt. á þskj. 77, til þess að færa frv. til sama forms sem það hafði áður, ekki viljað fara lengra út í að breyta því, því að brtt. er fullnægjandi. Ef hún verður samþ., gildir sú lagabreyt. fyrir Reykjavik einnig, og það er enginn ágalli, þó að maður geti hins vegar sagt, að það sé ekki mest þörf á því að láta slíka breyt. gilda vegna Reykjavíkur. En hv. þingmenn vildu ekki gera mun á Reykjavík og öðrum stöðum á landinu í l., þannig að þetta ákvæði, ef samþ. verður, gilti ekki fyrir Reykjavík.

En svo er þessu algerlega umhverft, því að nú á yfirmatið eftir frv. aðeins að gilda um það atriði, sem ekki þarf að hafa þetta yfirmat um, húsaleiguna, og enginn hefur óskað eftir ákvæði um yfirmat um, enda þótt hér í Reykjavík hafi verið áfrýjað úrskurðum húsaleigun. Húsaleigan sjálf er það atriði, sem minnst er um deilt, vegna þess að það vita allir, hver leigan á að vera, samkvæmt þeirri löggjöf, sem er í gildi þar um, og viðbótarákvæðum síðar, svo sem ákvæðum um hækkun eftir vísitölubreyt., og ég fullyrði, að við það munu allir sætta sig að fara eftir þeim 1. og viðbótarákvæðum. Það er ekki til neins að vera að elta það, þó að menn vilji ekki una því, sem verður eftir 1. að standa. Og það er skiljanlegt um þá, sem verða fyrir barðinu á þessum l. að því leyti sem húsaleiguupphæðina snertir. En hér er aðeins verið að bera blak af þeim, sem verða fyrir úrskurðum n., en eiga að hafa húsnæðið. Þess vegna vil ég alvarlega skora á hv. þdm. að halda fast við það, sem þeir áður hafa samþ. og er það eina, sem að haldi kemur.