18.11.1941
Efri deild: 16. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

25. mál, ábyrgð rekstrarláns fyrir Landsbankann

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Hv. þm. er nú málinu eins kunnugur og ég. — Í sambandi við viðskiptasamninga á milli ísl. ríkisstj. og Bandaríkjastjórnar hefur orðið meiri dráttur en búizt var við. Það hefur dregizt, að samningum lyki og kæmu til framkvæmda þau atriði, sem snerta umráð okkar yfir amerískum gjaldeyri. N. í Bandaríkjunum hefur því eindregið lagt til, að til bráðabirgða verði tekið lán, 2 millj. dollara, sem henni hefur verið gefinn kostur á úr svo nefndum Stabilization Fund, og n. leggur áherzlu á það, að þessi heimild verði veitt, þó að ekki sé þar með sagt, að mikið þurfi að nota af slíkum lánum. Það er gert ráð fyrir 1½% vöxtum á ári hverju af því, sem nota þarf af láninu. Ríkisstj. vill mæla með því við Alþ., að það veiti henni heimild til þess að ábyrgjast slík lán fyrir Landsbankann.