31.10.1941
Neðri deild: 9. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

10. mál, vatnalög

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Ég er flm. að þessu frv. ásamt hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. Seyðf. Frv. er samið af hreppsnefnd Hólshrepps í Norður-Ísafjarðarsýslu. En í grg., sem því fylgir, hafa misprentazt gæsalappir, sem ekki áttu að vera, enda eru þær nokkurs konar fölsun á grg. frv., þó meinlausar séu.

Um þetta mál þarf ekki annað að taka fram heldur en það, sem í grg. stendur. Er skiljanlegt, hversu mikla þýðingu vatnsveita mundi hafa á allt heilbrigðisástand bæjarbúa, þar sem engin vatnsból eru nema brunnar, að undanteknum litlum læk, sem oftast þornar á sumrum. Þorpsbúar telja sig varla hafa efni á að leggja vatnsveitu, enda er hún tvöfalt dýrari nú heldur en á venjulegum árum.

Meginatriði þessa frv. er að fá heimild til þess að leggja á nokkuð hærri vatnsskatt í Bolungavík en ákveðið er í vatnal., til byggingar vatnsveitu. Í staðinn fyrir þær takmarkanir í vatnal., að vatnsskatturinn sé ekki hærri en 6 af þúsundi af fasteignamatsverði húsa, er hér lagt til, að hann verði þrefalt hærri. Þar sem fasteignamat er mjög lágt í Bolungavík, mundi vatnsskatturinn ekki nema árlega nema 1/3 af árlegum kostnaði.

En tryggingin í fyrirtækinu er ekki mikils virði, ef kostnaðurinn við vatnsveituna er tekinn aðeins með aukaútsvörum. Það verður því að byggja fyrirtækið svo upp, að lánveitendur telji sig eiga nokkra tryggingu í fyrirtækinu sjálfu. Talið hefur verið, að kostnaður af láninu verði hér um bil 9000 kr., og er ekki hægt að ætlast til, að það fé verði allt tekið með aukaútsvari.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um þetta. Ég vildi aðeins biðja hv. þd. að hraða málinu, svo að hægt sé að afgr. það á þessu þingi, því að nú þegar er búið að gera samninga um verkið og efni til þess, og eru því líkur til, að því geti orðið lokið fyrir slátt árið 1942, ef það nær afgreiðslu á þessu þingi.

Ég geri ráð fyrir, að málið ætti helzt að fara til hv. allshn., en hér eru nú mjög fáir staddir úr þeirri hv. n. Ef hv. þm. sýndist fært að láta málið fara til 2. umr. án þess, að því væri vísað til n., þá er ég því á engan hátt mótfallinn.