04.11.1941
Neðri deild: 12. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

10. mál, vatnalög

Pétur Ottesen:

Ég á hér brtt. við þetta frv. á þskj. 24, þar sem farið er fram á sams konar frávikningu frá ákvæðum vatnal. að því er snertir hámark fyrir vatnsskatti í Akraneskaupstað eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. viðkomandi Bolungavík.

Þannig er ástatt á Akranesi, að þar er verið að koma á vatnsveitu nú, og er búið að vinna allmikið að því verki, þó því sé að vísu ekki nærri lokið. En reynsla sú, sem fengin er um kostnaðinn við þá framkvæmd, sýnir, að kostnaðurinn við að koma þeirri vatnsveitu í framkvæmd er svo mikill, að það er ekki hægt að bera hann uppi með vatnsskattinum skv. ákvæðum vatnal. Þess vegna fer ég hér fram á, að Akranesi sé bætt inn í þetta frv., þannig að undantekningarákvæði frv. að því er snertir Bolungavík læt ég í brtt. minni gilda eins um Akraneskaupstað.

Í brtt. minni er lagt til að fella niður 2. gr. frv., því að það er óþarft að mínu áliti að taka fram það, sem þar er sett í 2. gr. frv., að ákvæði vatnal. gildi að öðru leyti um vatnsveitu þá, sem um er að ræða, því að það segir sig sjálft, að þau ákvæði vatnal., sem ekki er lagt til, að breytt verði með þessu frv., gilda áfram, þó að frv. verði samþ. Hef ég gert þá brtt. í samráði við hv. 1. flm. frv., 5. þm. Reykv., þannig að fullt samkomulag er um þetta okkar á milli. Sömuleiðis er till. mín um að breyta orðalagi fyrri mgr. 1. gr. frv. gerð í samráði við sama hv. þm., 5. þm. Reykv.

Vænti ég þess, að hv. d. geti fallizt á þessa

brtt. mína. Fyrir flutningi hennar að því er Akranes snertir er sama nauðsyn eins og fyrir flutningi frv. að því er snertir Bolungavík.