04.11.1941
Neðri deild: 12. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

10. mál, vatnalög

Steingrímur Steinþórsson:

Þegar þetta frv. var hér til l. umr., þá var skv. ósk hv. 1. flm. þess meðferð málsins hagað þannig, að frv. var ekki vísað til n. Nú er svo komið, að komnar eru fram tvær brtt. við frv., önnur frá hv. þm. Borgf., um að sömu fríðindi verði veitt Akraneskaupstað sem farið er fram á í frv. að veitist Bolungavík, og hin frá hv. þm. Mýr., um að sams konar fríðindi gildi fyrir Borgarnes. Mér virðist því nú vera orðið hér um svo umfangsmikið mál að ræða, að ekki sé forsvaranlegt að láta það ganga svo í gegnum hv. d., að það sé ekki athugað í n. Ég veit, að ef þorpsbúar á Sauðárkróki vissu, hvað hér er á ferð, þá mundu koma tilmæli þaðan um, að þeir fengju einnig að njóta sömu tíðinda, því að þar er verið með undirbúning að vatnsveitu. Mér virðist það ekki geta komið til mála, ef farið er að bera fram brtt. í þá átt, sem hér er gert, viðkomandi svo og svo mörgum kaupstöðum eða kauptúnum, að láta málið þá ganga nefndarlaust gegnum þingið. Geri ég það því að till. minni, að umr. um málið verði frestað og því vísað til n.

Á þessu stigi málsins ætla ég svo ekki að tala frekar um þetta.