10.11.1941
Neðri deild: 19. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Pálmi Hannesson:

Hv. 4. þm. Reykv. ásakaði bókaútgáfu Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins um að hafa gert lítið til þess að koma fornritunum inn á íslenzk heimili. Ég get í því sambandi skýrt ~frá því, að þar sem fornritaútgáfa sú, sem nú er að koma út, hefur reynzt helzt til dýr, ef hún ætti að geta komizt inn á flest heimili landsins, hefur stj. bókaútgáfunnar hafið samninga við útgáfustj. fornritanna um ráðstafanir til þess að koma fornritunum út með ódýrari hætti, svo að þau geti komizt víðar, og tel ég líkur til, að takast muni að lækka verðið eitthvað. Um Heimskringlu er það að segja, að samningar eru líka hafnir um að koma henni út í stærri og ódýrari útgáfu.

En um frv. það, sem hér er til umr., er það að segja, að aðalatriði þess eru tvö. Annars vegar eru ráðstafanir til að fyrirbyggja, að efni sé breytt í fornritunum og ritum eldri höfunda, hins vegar er ákvæði um stafsetningu. Fyrra atriðið er meginmálið. Ég geng þess ekki dulinn, að tilefni frv. er auglýsing, sem birtist fyrir nokkru í einu dagblaðinu hér, þar sem sagt var, að í ráði væri að gefa út Íslendingasögurnar á nútíðarmáli, en með slíku orðalagi er átt við það, að máli og setningaskipun sé breytt til þess, sem nú tíðkast í ræðu og riti. Hins vegar mun ekki verða deilt um, að ástæða sé til að sporna við því, að fornritunum sé breytt eftir tízku hvers tíma: Hitt atriðið, stafsetningin, er minna virði og í rauninni aðeins smekksatriði.

Mér virðist það ekki geta verið álitamál, og ég býst við, að hv. 4. þm. Reykv. sé mér sammála um það, að ekki sé rétt að breyta orðaskipun Íslendingasagna frá því, sem komið er frá hendi höfunda. Hitt getur verið álitamál, hvort fylgja skuli fornri stafsetningu. Fornritin voru upphaflega með ýmiss konar stafsetningu, og hafa málfræðingar gert úr þessu svokallaða normalstafsetningu. Menn geta verið á ýmsu máli um þessa stafsetningu. Hins vegar er vitað, að ekki er lögboðin stafsetning nema á opinberum ritum, og tel ég, að stafað gæti nokkur ruglingur af því, ef farið væri að gefa út fornritin með þessari lögboðnu stafsetningu. Mér skildist á hv. 4. þm. Reykv., að fornritin yrðu aðgengilegri almenningi, ef þau væru gefin út með nútímastafsetningu. En ég veit ekki betur en íslenzk börn geti lesið fornsögurnar viðstöðulaust, og ég hef ekki orðið var við, að í landinu sé að vaxa upp flokkur manna, sem getur ekki hagnýtt sér hina eldri stafsetningu. Þessi fornlega stafsetning gefur ritunum fornlegan blæ, sem að vissu leyti er rangt að breyta. Það gefur þeim alveg sérstakan blæ meðal allra íslenzkra bókmennta, og þeim blæ tel ég, að verði að halda. Og mér barst hér í hendur áðan Tímarit Máls og menningar, þar sem Halldór Kiljan Laxness ritar m. a. um stafsetningu, og í þeim þætti, sem hann ritar um það efni, er hann mjög inni á þeirri sömu hugsun og kemst Þannig að orði seint í greininni — með leyfi hæstv. forseta: —

„Ný orð, ókunn, jafnvel óaðgengileg efni, framandi hugblær á bók, — allt slíkt vekur forvitni barnsins, eggjar það til að brjóta heilann og krefjast útskýringa, en jafnvel þær skýringar, sem eru því torskildar, miðla nýjum hugmyndum, opna fyrir nýjum útsýnum oft í margar áttir í senn; og þetta er leiðin til menntunar.“

Mér finnst höfundur þessarar greinar koma þarna að meginkjarna málsins. Það er sérstakur hugblær, sem fornritin hafa, sem mér finnst ekki mega missast við lestur fornritanna.

Ég skal geta þess, að mér virðist við lestur frv., að það mætti breyta til hins betra orðalagi 1. gr., t. d. finnst mér ekki heppilegt orðalag „almennir menningarhagsmunir“, og geri ég ráð fyrir, að það sé ekki hugsað á íslenzku. Með því að segja bara „íslenzkri menningu“ náðist það, sem hugsað er, og geri ég ráð fyrir, að þessu mætti breyta. Enn fremur hygg ég, að rétt mundi vera að hafa í l. undanþáguákvæði, þannig að gefa mætti út valda kafla úr fornritunum og a. n. 1. endursagða þætti í sambandi við það fyrir börn og unglinga, og ætti að vera séð um slíkt af hálfu fræðslumálastj. í landinu. Ég mun við 2. umr. málsins að líkindum bera fram brtt. í þessa átt.