10.11.1941
Neðri deild: 19. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Einar Olgeirsson:

Meðan ég er ekki alveg vonlaus um, að málið fari aftur til menntmn., vil ég leggja sem frekast til þess er ég get.

Mér þykir vænt um þær undirtektir, sem ég hef fengið hjá einum hv. menntmnm., hv. 1. þm. Skagf. Það er þá í fyrsta lagi, að sá hv. þm. lýsti því yfir, að aðalatriði frv. þessa sé að finna í fyrri hluta 1. gr. Ég býst við, að það, sem hann eigi við, sé sá hlutinn, sem hugsaður var á íslenzku, sem sé, að þó að 50 ár eða meira séu liðin frá dauða rithöfundar, þurfi að vernda rétt höfundarins, eins og þess þurfti líka áður en þessi 50 ár voru liðin. En ég sé ekki, þó að íslenzkan væri bætt á síðari hlutanum, að þá verði komizt hjá því, að það gæti komið fyrir, sem ég taldi hættu í þessu sambandi. Hvað tryggir það, að þessi l. sé ekki hægt að misnota gagnvart rétti látinna höfunda með því að gefa rit þerra út eins og þeim pólitísku valdhöfum á einhverju ákveðnu tímabili, eftir að þessi 50 ár væru liðin, gæti þóknazt? Meðan þetta ákvæði „að ugga má“ er í þessari málsgr., þá laumast þarna alltaf inn í möguleikinn fyrir gerræðinu. Að þessu ákvæði samþ. er það enginn algerður réttur, sem höfundurinn hefur. Mér finnst þess vegna, að þarna sé verið að tvístíga í raun og veru, það, sem fyrir höfundi þessarar greinar vaki, sé jafnvel aðeins eitt ákveðið tilfelli, sem frumvarpsgreinarhöfundurinn ætlar að koma í veg fyrir, og þess vegna sé svo erfitt að finna almenn lagaboð um slíkt, án þess að af því geti hlotizt meiri eða minni skaði viðvíkjandi öðrum mönnum eða málefnum. Þetta vill oft verða, þegar mönnum dettur slíkt í hug, að vilja fara að sporna við jafnvel framgangi góðra mála með einhverri almennri lagasetningu, eins og þarna er um að ræða.

Ég er sammála hv. 1. þm. Skagf. um, að það þurfi að breyta orðunum „almennum menningarhagsmunum“ og laga þetta „ugga má“, og að það þurfi að taka 1. gr. frv., sérstaklega fyrr í hluta hennar, til athugunar. Hv. 1. þm. Skagf. minntist á, að það þyrfti að leyfa þarna undantekningar frá 1. með því að leyfa að gefa út endursagða þætti úr fornritunum fyrir börn og unglinga. Þarna finnst mér hv. 1. þm. Skagf. vera farinn að sveigja mjög mikið frá því, sem átti að vera tilgangurinn með þessari 1. gr. Ef slíkt undanþáguákvæði yrði samþ., hvernig yrði það þá í reyndinni? Það mætti t. d. gefa undanþágur þessar fræðslumálastjórn eða menntamálaráði. Nú skulum við segja, að það vildi svo til, að þeir, sem kannske eru bezt fallnir til slíks, t. d. rithöfundar, vildu fá að gefa slíka þætti út endursagða skv. þeim undanþáguheimildum, sem um hefur verið rætt. Hver mundi verða reyndin á því með því fyrirkomulagi, sem nú er? Líklega sú, að beztu rithöfundum þjóðarinnar væri meinað að gera slíkt, vegna þess „að ugga“ mætti, að þeir væru bolsévíkar, og börn og unglingar mundu verða það af þessum þáttum vel endursögðum. Svo mundu aðrir, sem hlýðnir væru þeim viðkomandi yfirvöldum, en kannske ófærari um framkvæmd þessa verks, koma þar á annan hátt til greina — t. d. einhver gamall og góður vinur Thorsaranna ætti gamalt handrit af slíkri endursögn og vildi koma því á framfæri, á líkan hátt og þegar handritinu af „Viktoríu Englandsdrottningu“ var komið á framfæri við menntamálaráð og Menningarsjóður gaf út. Meðan við höfum það ástand, sem við höfum í okkar menningarmálum, meðan vart verður eins konar ofsókna hjá ákveðnum mönnum móti ýmsum helztu rithöfundum þjóðarinnar, þá held ég, að við séum bezt farnir með því að hafa sem minnst bönd viðvíkjandi okkar menningarmálum. Það, sem kynni að verða illa gert, dæmdi sagan áreiðanlega sjálf, og það mundi hverfa. En það, sem tækist með svona aðferðum, sem hér er gert ráð fyrir, mundi geta hindrað það, að við eignuðumst bókmenntalega gimsteina.

Viðvíkjandi 2. mgr. 1. gr., um stafsetninguna, sé ég ekki betur en að hv. 1. þm. Skagf. hafi að mjög miklu leyti gengið inn á það, sem ég var að tala um. Hann virðist sem sé ekki leggja verulega mikið upp úr stafsetningunni, heldur sé hún smekksatriði. Aðalatriðið sé, að orðaskipun sé ekki breytt. Og þar erum við sammála. Það er orðaskipun Íslendingasagna, sem gefur þeim þann sérstaka málblæ, sem mundi fyrst og fremst vekja áhuga barna og unglinga fyrir því að hugsa um, hver meiningin í raun og veru væri með þessu. Það er áreiðanlega ekki það, hvort skrifað skuli „ek“ eða „ég“ sem mundi vekja barnið til þess að hugsa um Íslendingasögurnar, en það er orðaskipunin. Stafsetningin er, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði, smekkatriði. Og einn hv. flm. þessa frv. hefur líka sagt, að a. m. k. að því er vakir fyrir honum, þá sé þetta frv. komið fram til þess að hindra það, að Íslendingasögunum verði að orðkrafti og innihaldi breytt. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi nokkurn tíma staðið til að breyta Íslendingasögunum að efni eða orðkrafti eða svipta þær því, sem gefur þeim þeirra sérstaka gildi sem skáldrit og sögurit. Hitt er skiljanlegt af mönnum, sem ekki geta þolað, að vissum mönnum sé eignaður heiður af því að gefa út vel endursagða þætti Íslendingasagna, að þeir sömu menn vilji koma fram þessu frv. Ef þetta var eini tilgangur frv., þá var það alveg óþarft að bera það fram. Og ég vildi líka skjóta því fram hér, að hafi tilefni þess, að þetta frv. var fram borið, verið það að koma í veg fyrir, að Laxdæla yrði gefin út endursögð og hindra Halldór Kiljan Laxness í því að gefa hana út, þá hygg ég, að það sé orðið of seint.

Svo er að athuga það, hvað er aðgengilegt fyrir almenning í þessu efni. Það er ekki allur fjöldi unglinga, sem les Íslendingasögurnar með gömlu stafsetningunni. Ég hef reynt að fá stráka, 11 til 12 ára, til þess að lesa Íslendingasögurnar. Þeir hafa sumir gefizt upp við það, og þá helzt strandað á þessu tvennu, vísunum og stafsetningunni. Þessi stafsetning veldur þeim erfiðleikum. En til allrar hamingju eru margir þeirra, sem brjótast í gegnum þessa erfiðleika. En það eru þó nokkrir, sem þessi trafali veldur því hjá, að þeir lesa ekki Íslendingasögurnar, og það er illa farið. Ég veit ekki, hvort það hefur verið nokkurn tíma gerð tilraun með það að athuga, hve margir nemendur í menntaskólanum t. d. hafa lesið Íslendingasögurnar. E. t. v. getur hv. 1. þm. Skagf. frætt okkur um það. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. Og ef þær verða gefnar út, sem ég vonast til, að sé þegar byrjað á, með nútímastafsetningu, þætti mér gaman að vita, hvort það hjálpaði ekki til að gefa þeim þó nokkuð betri aðgang að þeim, sem ekki hafa áður lesið þær, sakir stafsetningarinnar.

Ég vil endurtaka þá ósk mína, að málinu verði vísað til hv. menntmn. aftur, þar sem hv. 1. þm. Skagf. er með brtt. við frv. Mig grunar, að hún muni endurbæta frv. að ýmsu leyti.