19.11.1941
Efri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal ekki tefja fyrir þessu máli með löngum umr. Ég vildi aðeins standa upp til þess að láta í ljós ánægju mína yfir, að frv. þetta er fram komið, og vona, að það fái fljóta afgreiðslu og verði samþ. í þessari hv. d.

Það sýslufélag, sem ég er við riðinn, hefur nú orðið fyrir því óláni að fá meginsögu sína, Laxdælu, gefna út með nýmóðins stafsetningu, formála-, registurs- og skýringalausa og alla meira eða minna skrumskælda, og ég segi fyrir mig, að ég vil ekki óska öðrum héruðum að lenda í sama foraðinu, og tel því rétt að stemma nú þegar á að ósi.

Ég ætla ekki mikið að gagnrýna þessa útgáfu, sem nú mun hafa valdið því, að þetta frv. kom fram. En hitt get ég sagt, að mér virðist þar vera ýmsu sleppt, t. d. þegar sleppt er ættarsamböndum og bólfestu manna. Mér þykir það eiga illa við og tel, að ekki sé rétt að fara þannig með forn, sígild heimildarrit. Ég ætla samt ekki að taka þetta sérstaklega til umr. En þó að ágallar þessarar útgáfu séu afar miklir, þá vitum við aldrei nema einhver annar skjáhrafn gefi út enn lakari útgáfu. Þess vegna tel ég alveg sjálfsagt, að byggt sé fyrir, að fornbókmenntum okkar, sem við með réttu höfum stært okkur af, verði misþyrmt á slíkan hátt. Það er búið að ráðast á sögu héraðs vors að þessu leyti, og ég vil ekki, þótt sumum kunni að þykja sætt sameiginlegt skipbrot, að þess háttar hendi aðra, en vil hins vegar forða öðrum héruðum frá slíku leiðindamáli.

Ég tel sjálfsagt að samþ. þetta frv. og afgr. það fljótt og vel.